Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

246. fundur

Árið 2001, mánudaginn 7. maí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Samgöngunefnd 30/4. 4. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
1. liður. Bæjarráð tekur undir bókun samgöngunefndar á vegum Ísafjarðarbæjar, er varðar vegalagningu um Arnkötludal og Gautsdal.
Annar liður lagður fram til kynningar.

Stjórn Listasafns Ísafjarðar 30/4.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Grunnskólinn á Ísafirði. - Samkeppni um skipulag húsnæðis Grunnskólans á Ísafirði.

Lagt fram bréf undirritað af Kristni Breiðfjörð Guðmundssyni f.h. Grunnskóla Ísafjarðar, dagsett 4. maí s.l., varðandi samkeppni um skipulag húsnæðismála GÍ í samvinnu við samkeppnisnefnd Arkitektafélags Íslands. Bréfinu fylgir afrit af bréfi frá samkeppnisnefnd AÍ dagsett 3. maí 2001.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna möguleika á að halda tveggja þrepa samkeppni.

3. Fjarðargata 5, Þingeyri. - Fyrirspurn um hugsanleg kaup.

Lagt fram bréf, dagsett þann 24. apríl s.l., sem óskað er eftir að farið verði með sem trúnaðarmál. Þar er spurst fyrir um hugsanleg kaup á Fjarðargötu 5 á Þingeyri.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

4. Bréf Súðavíkurhrepps. - Byggðasamlag um rekstur slökkviliðs.

Lagt fram bréf frá Súðavíkurhreppi, dagsett 28. apríl s.l., varðandi byggðasamlag um rekstur slökkviliðs. Í bréfinu kemur fram samþykkt hreppsnefndar Súðavíkurhrepps frá 5. apríl s.l., þar sem lýst er yfir jákvæðni til hugmynda um sameiningu slökkviliða á norðanverðum Vestfjörðum og/eða að auka mjög samstarf og samvinnu þeirra.

Lagt fram til kynningar.

5. Skógræktarfélag Ísafjarðar. - Skógrækt í Skutulsfirði.

Lagt fram bréf frá Skógræktarfélagi Ísafjarðar, dagsett 2. maí s.l., ritað í framhaldi af viðræðum fulltrúa Skógræktarfélagsins við forstöðumann tæknideildar og bæjarritara, í fjarveru bæjarstjóra, varðandi hugsanlegan samning eða samkomulag um skógrækt í Skutulsfirði. Bréfinu fylgja drög að samningi svo og yfirlit yfir svæði Skógræktarfélagsins í Skutulsfirði, ásamt bréfi bæjarverkfræðings Ísafjarðarbæjar frá 13. maí 1998.

Bæjarráð vísar erindinu til tæknideildar til úrvinnslu, en telur sér ekki fært að verða við beiðni um fjárstuðning samkvæmt framlögðum drögum að samningi.

6. Bréf Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. - Boðun aðalfundar 12. maí n.k. Fundargerðir stjórnar.

Lagt fram bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, dagsett 27. apríl s.l., þar sem boðað er til aðalfundar félagsins þann 12. maí n.k. kl. 13:00, fundarstaður ekki tilgreindur. Fundurinn er boðaður með dagskrá.
Jafnframt fylgja fundargerðir stjórnar Atvinnuþróunarfélagsins fyrir 41., 42. og 43. stjórnarfund.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Önundar Ásgeirssonar. - Eftirmálin á Flateyri.

Lagt fram bréf frá Önundi Ásgeirssyni, Kleifarvegi 12, Reykjavík, dagsett þann 25. apríl s.l., varðandi eftirmálin á Flateyri eftir snjóflóðið 1995. Bréfinu fylgir umsögn og vettvangskönnun bréfritara að loknu verki skv. tillögu VST/NGI er nefnist „Snjóflóðavarnir á Flateyri.“

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfritara.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:16

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.