Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

239.fundur

Árið 2001, mánudaginn 12. mars kl. 15:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fulltrúi Skóla- og fjölskylduskrifstofu kemur til fundar við bæjarráð vegna trúnaðarmáls.

Til fundar við bæjarráð mætti Margrét Geirsdóttir, fulltrúi frá Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, vegna trúnaðarmáls sem er til umfjöllunar í bæjarráði.

Bæjarráð tekur undir hugmyndir Skóla- og fjölskylduskrifstofu um nýtt 40% stöðugildi í liðveislu og óskar eftir yfirliti um kostnaðaraukningu.

2. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 6/3. 145. fundur
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 7/3. 127. fundur.
Fundargerðin er í tíu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf Íslenskra Kraftamanna. - Vestfjarðavíkingur 2001.

Lagt fram bréf Íslenskra Kraftamanna dagsett 26. febrúar s.l., þar sem óskað er eftir styrk frá Ísafjarðarbæ til að halda Vestfjarðavíking 2001 í Ísafjarðarbæ á komandi sumri, trúlega 28. - 30. júní n.k. Óskað er eftir sambærilegum stuðningi og s.l. ár.

Bæjarráð vísar erindinu til atvinnumálanefndar.

4. Bréf bæjarritara. - Félagsheimilið á Suðureyri.

Lagt fram erindi frá bæjarritara dagsett 8. mars s.l., ásamt drögum að samningi við VEG-gistingu ehf., Suðureyri, um að VEG-gisting taki að sér rekstur á Félagsheimilinu á Suðureyri.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samningurinn verði samþykktur.

5. Bréf félagsmálanefndar Alþingis. - Frumvarp til sveitarstjórnarlaga, lámarksstærð sveitarfélaga.

Lagt fram bréf frá félagsmálanefnd Alþingis dagsett 1. mars s.l., ásamt frumvarpi til sveitarstjórnarlaga, 135. mál, lágmarksstærð sveitarfélaga. Óskað er umsagnar sveitarfélagsins og að umsögnin berist nefndinni eigi síðar en 30. mars n.k.

Bæjarráð vísar erindingu til umræðu í bæjarstjórn.

6. Samb. ísl. sveitarf. - Ráðstefna um Staðardagskrá 21.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 1. mars s.l., þar sem boðað er til ráðstefnu á vegum verkefnisnefndar um Staðardagskrá 21 á Íslandi. Ráðstefnan verður haldin í Mosfellsbæ mánudaginn 2. apríl n.k.

Bæjarráð vísar bréfinu til staðardagskrárfulltrúa.

7. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða. - Fundargerð heilbrigðisnefndar frá 2. mars s.l. og ársreikningur Heilbrigðiseftirlits fyrir árið 2000.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 2. mars s.l., ásamt fundargerð heilbrigðisnefndar frá 2. mars 2001. Jafnframt er lagður fram ársreikningur Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir starfsárið 2000.
Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, mætti til viðræðan við bæjarráð undir þessum lið dagskrár. Miðað við ársreikning Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir árið 2000, er gert ráð fyrir að hlutur Ísafjarðarbæjar í kostnaði sé kr. 4.320.297.-, en í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar árið 2000 er gert ráð fyrir kr. 3.746.000.- mismunur er því upp á kr. 574.297.-

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að kostnaðarauki kr. 574.297.- verði fjármagnaður með lántöku.

Fjármálastjóri gerði grein fyrir lausafjárstöðu bæjarfélagsins og möguleikum til töku langtímalána.

8. Kaup á Fjarðarstræti 16, Ísafirði og sala á íbúð í Eyrargötu 6, Ísafirði.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 9. mars s.l., þar sem gerð er grein fyrir kaupum Ísafjarðarbæjar á Fjarðarstræti 16, Ísafirði, af Gunnari Arnórssyni og Sigurborgu Þorkelsdóttur og sölu Ísafjarðarbæjar á íbúð 0301 í Eyrargötu 6, Ísafirði til þeirra Gunnars og Sigurborgar. Heildarkostnaður Ísafjarðarbæjar við kaup og sölu er um kr. 5.350.000.-
Við sölu á íbúð 0301 í Eyrargötu 6, Ísafirði, er um að ræða fyrstu sölu Ísafjarðarbæjar úr félagslega íbúðakerfinu með þátttöku Varasjóðs viðbótarlána.

Bæjarráð samþykkir ofangreind kaup og sölu.

9. Bréf bæjarstjóra. - Leigubílastöð á Ísafirði.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 9. mars s.l., þar sem tekið er fyrir að nýju erindi er var í bæjarráði þann 9. október 2000, varðandi stofnun leigubílastöðvar á Ísafirði.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að viðkomandi aðilum verði heimilað að stofna leigubílastöð á Ísafirði.

10. Tilboð í viðgerðir á Drafnargötu 9, Flateyri.

Lagt fram bréf Stefáns Brynjólfssonar, byggingarfulltrúa, dagsett 9. mars s.l., þar sem hann gerir grein fyrir tilboðum er bárust í viðgerðir á Drafnargötu 9 á Flateyri. Eftirtalin tilboð bárust:
1. Frá S.I. Péturssyni ehf., Flateyri, kr. 1.260.196.-
2. Frá Þorsteini Jóhannssyni, Flateyri, kr. 1.575.360.-
3. Frá Trésmiðjunni ehf., Hnífsdal, kr. 2.209.008.-
4. Frá Eiríki og Einari Val hf., Ísafirði, kr. 2.430.000.-
Byggingarfulltrúi leggur til að lægsta tilboði verði tekið.

Bæjarráð samþykkir tillögu byggingarfulltrúa.

11. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Drög að kaupsamningi vegna 4. hæðar í Stjórnsýsluhúsi á Ísafirði.

Lögð fram drög að kaupsamningi á milli Fjórðungssambands Vestfirðinga og Ísafjarðarbæjar um kaup Ísafjarðarbæjar á eignarhluta Fjórðungssambands Vestfirðinga í 4. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Kaupverð er kr. 20.840.300.- og greiðist að fullu á árinu 2001.

Bæjarráð samþykkir kaupsamninginn og leggur til að kaupverðið verði fjármagnað með lántöku.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 16:55

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.