Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

238. fundur

Árið 2001, mánudaginn 5. mars kl. 16:45 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fulltrúar Foreldrafélags skíðabarna mæta til fundar við bæjarráð.

Til fundar við bæjarráð mættu, að ósk bæjarráðs, fulltrúar Foreldrafélags skíðabarna á Ísafirði þeir Páll Sturlaugsson og Einar Valur Kristjánsson, til viðræðna um framkvæmdir Foreldrafélagsins í Tungudal og uppgjör varðandi kostnaðarþátttöku bæjarsjóðs í framkvæmdum.

2. Fundargerðir nefnda.

Byggingarnefnd starfshóps um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðis á Ísafirði 28/2. 6. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefndar 28/2. 62. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
4. liður. Bæjarráð þakkar framlagða greinargerð um Menningarveislu 17.-25. júní 2000.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf bæjarstjóra. - Kofrahús á Skeiði.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 1. mars s.l., er varðar kauptilboð Sigurðar R. Guðmundssonar, Stórholti 7, Ísafirði, í Kofrahús á Skeiði, er lagt var fram í bæjarráði þann 26. febrúar s.l., þar sem bæjarstjóra var falið að ræða við tilboðsgjafa. Bæjarstjóri gerir grein fyrir þeim viðræðum í bréfinu.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

4. Bréf bæjarstjóra. – Reykjanes við Ísafjarðardjúp.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 2. mars s.l., þar sem hann gerir grein fyrir viðræðum sínum við fulltrúa hæstbjóðanda í eignir í Reykjanesi, er auglýstar voru af Ríkiskaupum. Fram kemur að tilboðsgjafi sem er Bjarni Geir Alfreðsson í Reykjavík, óskar eftir samstarfi við sveitarfélögin sem eignir eiga í Reykjanesi og um stofnun hugsanlegs eignarhaldsfélags um eignir í Reykjanesi.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að halda áfram viðræðum við fulltrúa kaupenda með hliðsjón af því er rætt hefur verið í bæjarráði.

5. Flateyrarnefnd bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. - Uppgjör á störfum nefndarinnar.

Lögð fram greinargerð frá Flateyrarnefnd bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar dagsett 21. febrúar s.l., uppgjör á störfum nefndarinnar. Gerð er grein fyrir störfum nefndarinnar allt frá því hún var stofnuð þann 4. febrúar 1999 þar til hún nú líkur störfum er samkomulag Ísafjarðarbæjar, ríkisvaldsins og Ofanflóðasjóðs um lúkningu eftirmála snjóflóðsins á Flateyri 26. október 1995, hefur verið undirritað. Nefndin telur verkefni sínu lokið og þakkar öllum aðilum er hún hefur haft samskipti við gott samstarf.

Bæjarráð færir fulltrúum í Flateyrarnefnd þakkir fyrir vel unnin störf.

6. Samningur Ísafjarðarbæjar, ríkisvaldsins og Ofanflóðasjóðs , um lúkningu eftirmála snjóflóðsins á Flateyri 26. október 1995.

Lagður fram samningur Ísafjarðarbæjar, ríkisvaldsins og Ofanflóðasjóðs um lúkningu eftirmála snjóflóðsins á Flateyri 26. október 1995, er undirritaður var á Flateyri mánudaginn 26. febrúar s.l. Jafnframt er lögð fram greinargerð frá stjórn sjóðsins Samhugur í verki þar sem fram kemur að fjármunum sjóðsins verði ráðstafað til samfélagslegra verkefna og umhverfismála á Flateyri.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju með samninginn og ákvörðun stjórnar Samhugar í verki.

7. Fiskvinnslan Íslandssaga hf., Suðureyri. - Skólagata 8, Suðureyri.

Lagt fram bréf frá Fiskvinnslunni Íslandssögu hf., Suðureyri, dagsett 21. febrúar s.l., þar sem minnt er á synjun Ísafjarðarbæjar á erindi Fiskvinnslunnar Íslandssögu hf., á leyfi til að byggja við Skólagötu 8, Suðureyri og klæða að utan þær byggingar er þarna standa. Með tilvísun til 33. gr. byggingar- og skipulagslaga er gerð sú krafa að Ísafjarðarbær kaupi upp umræddar eignir.
Stefán Brynjólfsson, byggingarfulltrúi, mætti til fundar undir þessum lið dagskrár.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

8. Bréf Áhugahóps um menningarfjölbreytni á Vestfjörðum frá 21. febrúar s.l. og 26. febrúar s.l.

Lagt fram bréf frá Áhugahópi um menningarfjölbreytni á Vestfjörðum dagsett 21. febrúar s.l., þar sem óskað er eftir skriflegu leyfi Ísafjarðarbæjar til að halda Þjóðahátíð Vestfirðinga á Ísafirði 24. mars n.k.
Jafnframt lagt fram bréf frá Áhugahópi um menningarfjölbreytni á Vestfjörðum dagsett 26. febrúar s.l., þar sem Ísafjarðarbæ er boðið að vera með kynningu á starfi sínu á hátíðinni. Nánar tiltekið í Menntaskólanum á Ísafirði sunnudaginn 18. mars n.k.

Bæjarráð samþykkir leyfi til hátíðarhalda þann 24. mars n.k. og vísar erindi um kynningu til Skóla- og fjölskylduskrifstofu og menningarsviðs.

9. HF. Djúpbáturinn, Ísafirði. - Ársreikningur 2000.

Lagður fram ársreikningur fyrir HF. Djúpbátinn, Ísafirði, fyrir starfsárið 2000.

Lagt fram til kynningar.

10. Erindi Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Grunnskóli Suðureyrar.

Lagt fram bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 2. mars s.l., er varðar beiðni til kaupa á ljósritunarvél fyrir Grunnskóla Suðureyrar fyrir allt að kr. 350.000.- Beiðnin er fram komin þar sem ekki er gert ráð fyrir gjaldfærðri fjárfestingu til tækjakaupa hjá Grunnskóla Suðureyrar á fjárhagsáætlun 2001.

Bæjarráð samþykkir færslu af rekstrarliðum yfir á gjaldfærða fjárfestingu.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:14

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.