Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

233.fundur

Árið 2001, mánudaginn 29. janúar kl. 13:30 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Anton Helgason, heilbrigðisfulltrúi, Jón Reynir Sigurvinsson, formaður heilbrigðisnefndar Vestfjarða og Þórir Sveinsson, fjármálastjóri Ísafjarðarbæjar, mættu til fundar við bæjarráð.

Til fundar við bæjarráð voru mættir þeir Anton Helgason, heilbrigðisfulltrúi Vestfjarða, Jón Reynir Sigurvinsson, formaður heilbrigðisnefndar Vestfjarða og Þórir Sveinsson, fjármálastjóri Ísafjarðarbæjar.
Rætt var um fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir árið 2001 og framlag Ísafjarðarbæjar í henni.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að taka saman greinargerð um málið og leggja fram tillögu.

2. Fundargerðir.

Menningarmálanefnd 23/1. 61. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Nefnd um uppbyggingu íþróttamannvirkja og landsmót UMFÍ 2004 22/1. 5. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Starfshópur um framtíðarlausn í húsnæðismálum
Grunnskólans á Ísafirði 24/1. 7. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 24/1. 124. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Orkubú Vestfjarða. - Fundarboð er varðar breytingu á félagsformi.

Lagt fram bréf frá Orkubúi Vestfjarða dagsett 24. janúar s.l., þar sem stjórn OV boðar til eigendafundar miðvikudaginn 7. febrúar n.k. kl. 14:00 í fundarsal OV að Stakkanesi 1, Ísafirði.
Á dagskrá fundarins er eitt mál, breyting á félagsformi OV úr sameignarfélagi í hlutafélag.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs og Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, fari með lögformlegt umboð Ísafjarðarbæjar á fundinum.

4. Bréf fjármálastjóra. - Sorpeyðingargjöld lögaðila 2001.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 25. janúar s.l., ásamt drögum að álagningarlista sorpeyðingargjalda 2001 lagt á lögaðila (fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir). Listinn er unnin samkvæmt tillögum stöðvarstjóra Funa í samvinnu við bæjarskrifstofu.

Bæjarráð leggur til að drög að álagningarlista sorpeyðingargjalda fyrir árið 2001 á lögaðila verði samþykkt.

5. Bréf bæjarstjóra. - Tómar íbúðir, hugmynd að nýtingu.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til bæjarráðs dagsett þann 26. janúar s.l., er varðar hugmyndir um nýtingu tómra íbúða. Bréfinu fylgja drög að samkomulagi við teiknistofuna Kol & Salt ehf., Ísafirði.

Bæjarráð tekur vel í þær hugmyndir er kynntar eru og felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

6. Vesturferðir. - Rekstur upplýsingamiðstöðvar á Ísafirði.

Lagt fram bréf frá Vesturferðum ehf., Ísafirði, dagsett 8. janúar s.l., þar sem óskað er eftir viðræðum við Ísafjarðarbæ um framhald rekstrar upplýsingamiðstöðvar á Ísafirði. Í ljósi reynslu þarf að auka afgreiðslutíma yfir sumarið.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

7. Heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytið.

Lagt fram bréf frá heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneyti dagsett 11. janúar s.l., þar sem fjallað er um þátttöku sveitarfélaga í meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum til heilbrigðisstofnana. Bréfið er svar við ítrekuðu erindi Ísafjarðarbæjar á árinu 2000.

Bæjarráð þakkar svarbréf ráðuneytisins, en óskar enn eftir svari við bréfi Ísafjarðarbæjar frá 10. janúar 2000, um hvað telst meiri háttar viðhald og tækjakaup og hvort öll sveitarfélög landsins greiði 15% samkvæmt 18. gr. laga nr. 97/1990.

8. Vinnumálastofnun. - Yfirlit yfir atvinnuástand í desember 2000.

Lagt fram bréf frá Vinnumálastofnun dagsett 19. janúar s.l., yfirlit yfir atvinnu- ástand í desember 2000.

Lagt fram til kynningar.

9. Hagstofa Íslands. - Búferlaflutningar árið 2000.

Lagt fram bréf frá Hagstofu Íslands dagsett 19. janúar s.l., þar sem greint er frá búferlaflutningum á og til og frá Íslandi árið 2000.

Lagt fram til kynningar.

10. Landsmót UMFÍ 2004. - Greinargerð samstarfsnefndar.

Lögð fram greinargerð samstarfsnefndar sveitarfélaga á notðanverðum Vestfjörðum og Héraðssambands Vestfirðinga varðandi landsmót UMFÍ árið 2004. Greinargerðin er dagsett 22. janúar 2001.
Greinargerðinni líkur á svohljóðandi tillögu. „Nefnd um uppbyggingu íþróttamannvirkja leggur til við sveitarstjórnir á norðanverðum Vestfjörðum, að þær samþykki að standa að landsmóti UMFÍ 2004 á norðanverðum Vestfjörðum í samstarfi sveitarfélaganna og íþróttahreyfingarinnar.“
Bæjarstjóri lagði fram til kynningar bréf dagsett 28. janúar s.l., frá íbúasamtökunum Átaki á Þingeyri, áskorun til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um að sótt verði um að halda landsmót UMFÍ 2004.

Bæjarráð vísar greinargerðinni til afgreiðslu í bæjarstjórn.

11. Bréf bæjarstjóra. - Forkaupsréttur jarða á Ingjaldssandi.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til bæjarráðs dagsett þann 26. janúar s.l., er varðar fyrra erindi um forkaupsrétt Ísafjarðarbæjar að jörðum á Ingjaldssandi í Önundarfirði. Bréfinu fylgja afrit símbréfa frá Málflutnings-skrifstofunni, Austurvegi 6, Selfossi og afrit bréfa Jarðanefndar V-Ísafjarðarsýslu, er lögð voru fram í bæjarráði 22. janúar s.l., en ekki dreift með dagskrá þess fundar.

Lagt fram til kynningar.

12. Bréf fjármálastjóra. - Styrkir til félagasamtaka til greiðslu fasteignagjalda árið 2001.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 26. janúar s.l., þar sem hann leggur til að veittir verði styrkir til félagasamtaka samkvæmt meðfylgjandi töflu til greiðslu fasteignagjalda, það er fasteignaskatts og holræsagjalds árið 2001. Styrkurinn verði að hámarki kr. 100.000.-

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga fjármálastjóra verði samþykkt.

13. Bréf bæjarstjóra. - Sundurliðun vanskila við Íbúðalánasjóð.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til bæjarráðs dagsett 26. janúar s.l., þar sem hann greinir frá og leggur fram sundurliðun vanskila við Íbúðalánasjóð vegna félagslegra íbúða Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram til kynningar.

14. Greinargerð starfshóps um framtíðarlausn í húsnæðismálum Grunnskólans á Ísafirði.

Lögð fram greinargerð starfshóps um framtíðarlausn í húsnæðismálum Grunnskólans á Ísafirði, greinargerð til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar dagsett 24. janúar 2001. Greinargerðin er lokaniðurstaða starfshópsins.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og vísað til fræðslunefndar.

15. Samningur við ríkisvaldið. - Lúkning mála á Flateyri eftir snjóflóðið 26. október 1995.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir vinnu varðandi væntanlegan samning við ríkisvaldið um lúkningu á eftirmálum snjóflóðsins sem féll á Flateyri 26. október 1995.

16. Bréf fjármálastjóra. - Afslættir á fasteignagjöldum til elli- og örorkulífeyrisþega á árinu 2001.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 26. janúar s.l., ásamt drögum að reglum um niðurfellingu fasteignagjalda ellilífeyrisþega og öryrkja árið 2001 af íbúðarhúsnæði þeirra til eigin nota.
Lagt er til að hámarksafsláttur verði kr. 55.000.- og að tekjuviðmiðun verði hækkuð um kr. 100.000.- frá tekjuviðmiðun ársins 2000. Einungis verði veittur afsláttur af fasteignaskatti og holræsagjaldi.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að drög fjármálastjóra að reglum um afslætti á fasteignagjöldum til elli- og örorkulífeyrisþega verði samþykkt.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:35

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.