Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

231.fundur

Árið 2001, mánudaginn 15. janúar kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fréttatilkynning frá Kennarasambandi Íslands og Launanefnd sveitarfélaga.

Lögð fram fréttatilkynning frá Kennarasambandi Íslands og Launanefnd sveitarfélaga dagsett 9. janúar s.l., um kjarasamning Kennarasambandsins og Launanefndar vegna grunnskólans.
Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, sem setu á í Launanefnd sveitarfélaga, mætti á fund bæjarráðs með ítarlegar upplýsingar um hugmyndafræði og forsendur sem lagðar voru til grundvallar við gerð samningsins Samningurinn sjálfur liggur ekki frammi.
Einnig sátu fundinn undir þessum lið Ingibjörg Maríu Guðmundsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu og Bára Einarsdóttir, launafulltrúi. Þórir, Ingibjörg María og Bára viku af fundi bæjarráðs kl. 18:25

Bæjarráð lýsir yfir ánægju sinni með aðdraganda að samningsgerðinni og fagnar því að samningurinn sé í höfn. Með samningnum telur bæjarráð að forsendur hafi skapast til enn betra skólastarfs í sveitarfélaginu.

2. Fundargerðir.

Bygginganefnd starfshóps um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðis á Ísafirði 10/1. 5. fundur.
1. liður. Bæjarráð lítur svo á að bygginganefnd starfshóps um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðis á Ísafirði, sé að gera tillögu um að Ísafjarðarbær leggi fram kr. 1.000.000.- til byggingar lyftu- og markhúss. Þar sem samstarf við Skíðafélag Ísfirðinga um slíka byggingu virðist hagstætt, samþykkir bæjarráð tillöguna. Kostnaður færist á fjárfestingu á skíðasvæði.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 9/1. 119. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 9/1. 45. fundur.
Fundargerðin er í átta liðum.
Fundagerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf Sigríðar J. Óskarsdóttur. - Styrkur til flutninga í Arnarfirði.

Lagt fram bréf Sigríðar J. Óskarsdóttur, Bíldudal, til fjármálastjóra Þóris Sveinssonar, dagsett þann 20. desember 2000, þar sem óskað er eftir styrk vegna flutingaþjónustu fyrir bændur í Arnarfirði. Sótt er um styrk að upphæð kr. 90.000.- Jafnframt fylgir minnisblað fjármálastjóra með upplýsingum um styrki síðustu ára.

Bæjarráð samþykkir styrk að upphæð kr. 68.000.-

4. Bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Viðhaldskostnaður á Eyrarskjóli.

Lagt fram bréf Ingibjargar Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 11. janúar s.l., þar sem óskað er heimildar bæjarráðs til að greiða viðhaldsreikning vegna Eyrarskjóls árið 2000.

Bæjarráð felur forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu að semja um greiðslu reikningsins.

5. Bréf fjármálastjóra. - Álagningarstuðull vatnsgjalds 2001.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 11. janúar s.l., varðandi álagningarstuðul vatnsgjalds fyrir árið 2001. Álagningastuðull 0,18% af endurstofnverði fasteignar hafði verið samþykktur af bæjarstjórn þann 5. október 2000, en þar sem gjaldstofni var breytt með lögum úr endurstofnverði fasteignar í fasteignamat fasteignar, óskar fjármálastjóri eftir að álagningarstuðull vatnsgjalds fyrir árið 2001 verði ákveðinn 0,29% af fasteignamati fasteignar og lóðar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga fjármálastjóra verði samþykkt.

6. Landbúnaðarráðuneytið. - Uppkaup sauðfjárgreiðslumarks vegna Tungu í Skutulsfirði.

Lagt fram bréf frá landbúnaðarráðuneyti dagsett 27. desember 2000, ásamt afriti af þinglýstum samningi um kaup á greiðslumarki lögbýlisins Tungu í Skutulsfirði, Ísafjarðarbæ. Um er að ræða sölu á 64,1 ærgildi samtals fyrir kr. 1.410.200,- er greiðist þann 20. janúar n.k.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Einars Ómarssonar.-Kauptilboð í bílskúr að Aðalgötu 32, Suðureyri.

Lagt fram bréf frá Einari Ómarssyni, Aðalgötu 28, Suðureyri, dagsett 3. janúar s.l., þar sem hann gerir kauptilboð í bílskur við Aðalgötu 32, Suðureyri. Bílskúr þessi er sambyggður bílskur er tilheyrir Aðalgötu 28, Suðureyri, sem er í eigu Einars. Kauptilboð er að upphæð kr. 200.000,-

Bæjarráð felur bæjarritara að afla frekari upplýsinga um málið.

8. Neytendasamtökin. - Endurupptekið erindi í bæjarráði 2. janúar 2001.

Lagðar fram að ósk bæjarráðs þann 2. janúar s.l., frekari upplýsingar um styrkveitingar til Neytendasamtakanna í framhaldi af beiðni samtakanna um styrk upp á kr. 600.000,- fyrir rekstrarárið 2001, samkvæmt bréfi dagsettu 21. desember 2000.

Bæjarráð samþykkir styrk upp á kr. 50.000,- er færist af liðnum 15-65-929-1.

9. Bréf Björns Jóhannessonar. - Skólaskrifstofa Vestfjarða.

Lagt fram bréf frá Birni Jóhannessyni hdl., í skiptastjórn Skólaskrifstofu Vestfjarða dagsett 10. janúar s.l., þar sem tilgreind er ógreidd skuld Ísafjarðarbæjar við fyrrum Skólaskrifstofu Vestfjarða vegna ársins 2000, að upphæð kr. 3.950.575,- Þess er farið á leit við Ísafjarðarbæ að skuldin verði greidd eigi síðar en 20. janúar n.k.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf Héraðssambands Vestfirðinga. - Landsmót UMFÍ árið 2004.

Lagt fram bréf frá Héraðssambandi Vestfirðinga dagsett 11. janúar s.l., þar sem greint er frá formannafundi HSV þann 10. janúar s.l., þar sem eindregið var óskað eftir að Ísafjarðarbær, í samvinnu við Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp, taki um það ákvörðun fyrir lok janúar, að gera HSV kleyft að annast landsmót UMFÍ árið 2004.

Bæjarráð vísar erindinu til umræðna í starfshópi um landsmót UMFÍ árið 2004.

11. Jafnréttisstofa. - Dreifibréf til sveitarfélaga um skipan jafnréttisnefnda.

Lagt fram bréf frá Jafnréttisstofu dagsett 4. janúar s.l., þar sem m.a. er áréttað að samkvæmt nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 er samþykkt voru á Alþingi s.l. vor, skulu sveitarfélög að loknum sveitarstjórnarkosningum, skipa 3-5 manna jafnréttisnefndir.

Bæjarráð vísar til ákvörðunar bæjarstjórnar frá upphafi árs 1998, að félagsmálanefnd fari með jafnréttismál. Á sama fundi bæjarstjórnar var samþykkt jafnréttisáætlun fyrir Ísafjarðarbæ, sem enn er í fullu gildi.

12. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða. - Listi yfir eftirlitsgjöld á Vestfjörðum 2000.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 8. janúar s.l., ásamt loka lista yfir eftirlitsgjöld á Vestfjörðum árið 2000.

Lagt fram til kynningar.

13. Samtök sveitarf. á köldum svæðum. - Fundargerð 4. ársfundar 2000.

Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum dagsett 8. janúar s.l., ásamt fundargerð 4. ársfundar er haldinn var þann 2. nóvember 2000 og ásamt ljósritum af upplýsingum er fylgdu með erindum fluttum á ársfundinum.

Lagt fram til kynningar.

14. Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. - Sjókvíaeldi í Skutulsfirði.

Lagt fram bréf frá Hraðfrystihúsinu-Gunnvör hf., Hnífsdal, dagsett 9. janúar s.l., þar sem HG ásamt Katli Elíassyni í Bolungarvík, sækja um leyfi til að setja út þrjár kvíar til áframeldis á þorsli í Skutulsfirði. Staðsetning kvíanna verði ákveðin í samráði við hafnarstjóra.
Jafnframt er lagt fram afrit af minnisblaði Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 12. janúar s.l., til umhverfissviðs og hafnarsviðs Ísafjarðarbæjar þar sem óskað er eftir umsögn til bæjarráðs um málið.

Þar sem umsóknin er í vinnslu hjá umhverfisnefnd og hafnarstjórn, er erindið lagt fram til kynningar í bæjarráði.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:31

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Jón Reynir Sigurvinsson. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.