Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

229. fundur

Árið 2001, þriðjudaginn 2. janúar kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir.

Landbúnaðarnefnd 28/12. 40. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
1. liður. Bæjarráð þakkar tillögu landbúnaðarnefndar um veiðar á ref og óskar eftir að nefndin leggi fram heildartillögu um veiðar á ref og mink í sveitarfélaginu.
Bæjarráð óskar eftir mati á meintu tjóni í landbúnaði af völdum refa í sveitarfélaginu.
2. liður. Bæjarráð felur tæknideild í samráði við landbúnaðarnefnd að vinna að sameiginlegri fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög á norðanverðum Vestfjörðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Starfshópur um framtíðarlausn í húsnæðismálum
Grunnskólans á Ísafirði 19/12. 6. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Vinnumálastofnun. - Yfirlit yfir atvinnuástand.

Lagt fram bréf Vinnumálastofnunar, dagsett 15. desember 2000, yfirlit yfir atvinnuástand í nóvember 2000.

Lagt fram til kynningar.

3. Landbúnaðarráðuneytið. - Beitarréttur á jörðinni Álftamýri í Arnarfirði.

Lagt fram bréf frá landbúnaðarráðuneytinu, dagsett 15. desember 2000, er varðar beitarrétt og leigu hluta jarðarinnar Álftamýri í Arnarfirði. Bréfinu fylgir afrit af leigusamningi um beitarrétt dagsettum 25. maí 1981 og afrit af leigusamningi við Gunnar Steinþórsson um leigu á 2 ha. lands dagsettum 19. september 1994.
Bæjarstjóri upplýsti að ábúendur á Kirkjubóli í Dýrafirði hafi óskað eftir að fá beitarrétt í landi Álftamýrar í Arnarfirði.

Bæjarráð heimilar bæjarstjóra að vinna að framsali á beitarrétti.

4. Viðlagatrygging Íslands. - Samkomulag um bætur fyrir tjón v/aurskriðu.

Lagt fram samkomulag Viðlagatryggingar Íslands og Ísafjarðarbæjar, dagsett 20. desember 2000, um bætur fyrir tjón er varð er aurskriður féllu á byggð við Urðarveg á Ísafirði í júní 1999. Bótaupphæð er samtals kr. 2.100.000.-

Bæjarráð staðfestir framlagt samkomulag.

5. Bréf frá Golfklúbbi Ísafjarðar. - Ársskýrsla.

Lagt fram bréf frá Golfklúbbi Ísafjarðar, dagsett 21. desember 2000, ásamt ársskýrslu klúbbsins er lögð var fram á aðalfundi hans er haldinn var þann 10. desember 2000.

Bæjarráð þakkar framlagða skýrslu.

6. Bréf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa. - Rafmagnsmál á Seljalandsdal.

Lagt fram bréf frá Birni Helgasyni, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, dagsett 18. desember 2000, varðandi rafmagnsmál á Seljalandsdal. Í bréfinu er gerð grein fyrir kostnaði vegna framkvæmda við lýsingu á gönguskíðasvæði á Seljalandsdal og að eðlilegt sé að sá kostnaður falli inn í heildarkostnað við framkvæmdir á skíðasvæði Ísfirðinga í Tungudal. Sá kostnaður er um ræðir eru kr. 820.100,- samkvæmt kostnaðar- og verksamþykkt frá Orkubúi Vestfjarða. Jafnframt er fram lagt afrit af tölvubréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til Kristjáns Haraldssonar, orkubústjóra, þar sem bæjarstjóri óskar eftir að Orkubú Vestfjarða tengi rafmagn inn á gönguskíðasvæðið.

Með tilliti til þeirrar stöðu sem málið var komið í staðfestir bæjarráð beiðni bæjarstjóra til Orkubús Vestfjarða.

7. Félagsmálaráðuneytið. - Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 18. desember 2000, varðandi greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2000. Bréfinu fylgir yfirlit um endanleg þjónustuframlög ársins 2000 samtals kr. 49.378.731.- Jafnframt fylgir afrit ar reglum um ráðstöfun 700 millj. kr. aukaframlags til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.

8. Neytendasamtökin. - Beiðni um styrkveitingu vegna ársins 2001.

Lagt fram bréf frá Neytendasamtökunum dagsett 21. desember 2000, beiðni um styrkveitingu að upphæð kr. 600.000.- vegna ársins 2001.

Bæjarráð óskar eftir frekari upplýsingum.

9. Framkvæmdanefnd búvörusamninga. - Greiðslumark í sauðfé.

Lagt fram bréf Framkvæmdanefndar búvörusamninga ódagsett, þar sem hafnað er kaupum á greiðslumarki í sauðfé af jörðinni Eyri í Mjóafirði, greiðslumarki í eigu Ísafjarðarbæjar. Jafnframt er fram lagt afrit af bréfi Sigurðar Jarlssonar, héraðsráðunauts, til landbúnaðarráðuneytis dagsett 28. desember 2000, er skrifað var í framhaldi af svari Framkvæmdanefndar búvörusamninga.

Lagt fram til kynningar.

10. Samb. ísl. sveitarf. - Fundagerðir stjórnar.

Lagðar fram fundargerðir stjórnar Samb. ísl. sveitarf. frá 672., 673. og 674. fundi.

Lagt fram til kynningar.

11. Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ. - Fundargerð stjórnar.

Lögð fram fundargerð stjórnar Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ frá 25. fundi er haldinn var þann 16. nóvember 2000.

Lagt fram til kynningar.

12. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. - Fundargerðir stjórnar.

Lagðar fram fundargerðir stjórnar Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða frá 38., 39. og 40. fundi.

Lagt fram til kynningar.

13. Drög að leigusamningi um stíflumannvirki á Dagverðardal.

Lögð fram drög að leigusamningi um stíflumannvirki Ísafjarðarbæjar á Dagverðardal, milli Ísafjarðarbæjar, sem leigusala og Valdimars Steinþórssonar, sem leigutaka. Leigutími er 60 ár frá og með 15. desember 2000 að telja.

Bæjarráð samþykkir framlögð drög að leigusamningi.

14. Grænigarður við Seljalandsveg. - Uppkaup á íbúðarhúsi.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 2. janúar 2001, þar sem hann gerir grein fyrir og rekur vinnuferil vegna væntanlegra uppkaupa á Grænagarði við Seljalandsveg á Ísafirði.

Bæjarráð ítrekar fyrri samþykkt sína á staðgreiðslumati eignarinnar að upphæð kr. 6.900.000.- og felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:30

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Jón Reynir Sigurvinsson, Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.