Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

228.fundur

Árið 2000, mánudaginn 18. desember kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir.

Atvinnumálanefnd 13/12. 3. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
5.liður. Bæjarráð felur atvinnumálanefnd og umhverfisnefnd að vinna saman drög að reglum um úthlutun leyfa til staðsetningar og uppbyggingar fiskeldisstöðva í Ísafjarðarbæ, er taki mið af gildandi lögum og reglugerðum um fiskeldi og fiskeldisstöðvar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 13/12. 139. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 12/12. 118. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 14/12. 60. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Nefnd um uppbyggingu íþróttamannvirkja og landsmót UMFÍ 2004 11/12.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 18/12. 123. fundur.
1. liður. Bæjarráð vísar til bókunar sinnar varðandi 5. lið í fundargerð atvinnumálanefndar frá 13. desember s.l. 3. fundi.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf Erlu Friðriksdóttur. - Forkaupsréttur að hluta eigna á jörðinni Læk í Dýrafirði.

Lagt fram bréf frá Erlu Friðriksdóttur dagsett 15. desember s.l., ásamt drögum að kaupsamningi með afsali, þar sem Íslenskur æðardúnn ehf. og Sæmundur Kr. Þorvaldsson, hafa hug á kaupum á hlut fasteigna á jörðinni Læk í Dýrafirði. Þess er óskað í bréfinu að Ísafjarðarbær falli frá forkaupsrétti umræddra eigna.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að forkaupsrétti verði hafnað, þar sem um sölu fasteignar er að ræða en ekki lands.

3. Bréf Sigurðar M. Óskarssonar. - Götusópur Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram bréf frá Sigurði Mar Óskarssyni tæknideild dagsett 14. desember s.l., þar sem hann gerir grein fyrir ástandi núverandi götusóps Ísafjarðarbæjar og tillögu um kaup á nýju tæki. Greinargerðin er í framhaldi af erindi Gámaþjónustun Vestfjarða ehf., um kaup á núverandi götusóp og þjónustusamningi við Ísafjarðarbæ.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að götusópun í Ísafjarðarbæ verði boðin út á almennum markaði.

4. Íbúðalánasjóður. - Viðbótarlán úr Íbúðalánasjóði 2001.

Lagt fram bréf frá Íbúðalánasjóði dagsett 9. desember s.l., þar sem tilkynnt er að Ísafjarðarbæ hefur verið veitt heimild til úthlutunar viðbótarlána úr Íbúðalánasjóði samtals kr. 23.200.000.- á árinu 2001. Lánveitingum fylgir kvöð um greiðslu 5% gjalds til Varasjóðs viðbótarlána frá Ísafjarðarbæ.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf bæjarstjóra. - Fundur með endurskoðunarnefnd um stjórnun fiskveiða. - Smábátafélagið Elding.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 13. desember s.l., þar sem tilkynnt er að formaður Smábátafélagsins Eldingar óskar eftir samstarfi við Ísafjarðarbæ, um að halda fund hér fyrir vestan með endurskoðunarnefnd um stjórn fiskveiða. Bæjarstjóri leggur til að Ísafjarðarbær taki þátt í þessum fundi.

Bæjarráð samþykkir tillögu bæjarstjóra.

6. Félagsmálaráðuneytið. - Umburðarbréf varðandi húsaleigubætur.

Lagt fram umburðarbréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 11. desember s.l., varðandi breytingar á reglugerð nr. 4/1999 um húsaleigubætur. Meðfylgjandi er ljósrit af reglugerðarbreytingunni.
Helstu breytingar eru þær að tekið verður nú tillit til 15% leigufjárhæðar sem liggur á bilinu kr. 20.000.- til kr. 50.000.- í stað kr. 20.000.- til kr. 45.000.- áður, tekjuskerðingin miðast nú við kr. 2,0 milljónir í stað kr. 1,6 milljónir áður og hámark húsaleigubóta hækkar úr kr. 25.000.- í kr. 35.000.-

Bæjarráð vísar bréfinu til Skóla- og fjöldkylduskrifstofu.

7. Bréf Steinþórs Friðrikssonar. - Umsókn um undanþágu v/dansleikja.

Lagt fram bréf frá Steinþóri Friðrikssyni dagsett 13. desember s.l., þar sem hann sækir um undanþágu, frá lögreglusamþykk Ísafjarðarbæjar, til að halda almenna dansleiki í Krúsinni, Norðurvegi 1, Ísafirði og í Sjallanum, Hafnarstræti 12, Ísafirði, að kvöldi 26. desember n.k., er standa megi til kl. 03:00 aðfaranótt 27. desember n.k.

Bæjarráð mælir með að undanþága verði veitt.

8. Minnisblað Vegagerðarinnar. - Áætlun um hafnarveg Ísafirði (636).

Lagt fram minnisblað frá Gísla Eiríkssyni, Vegagerðinni Ísafirði, dagsett þann 14. desember s.l., varðandi „Áætlun um hafnarveg Ísafirði (636)“. Drög að samkomulagi um áætlunina fylgja með á sér blaði.

Lagt fram til kynningar.

9. Umhverfisráðuneytið. - Framkvæmdir við kirkjugarðinn á Flateyri.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 6. desember s.l., svar við erindi Ísafjarðarbæjar frá 26. október s.l., varðandi þáttöku Ofanflóðasjóðs í framkvæmdum við kirkjugarðinn á Flateyri. Ráðuneytið segi þátttöku í þessum framkvæmdum ekki falla undi Ofanflóðasjóð, en bendir á Viðlagatryggingu Íslands.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf Finnboga Kristjánssonar. - Sölur jarða á Ingjaldssandi.

Lagt fram bréf frá Finnboga Kristjánssyni, löggiltum fasteignasala, dagsett þann 7. desember s.l., þar sem hann óskar samþykkis Ísafjarðarbæjar án athugasemda á sölu Ágústar G. Péturssonar á jörðunum Sæbóli I og II, Ingjaldssandi, til Bjarna Maríusar Jónssonar og á sölu jarðanna Háls og Villingadals á Ingjaldssandi til Finnboga Kristjánssonar.

Bæjarráð óskar umsagnar jarðanefndar.

11. Minnisblað byggingarfulltrúa. - Gjaldskrá gatnagerðargjalda.

Lagt fram minnisblað Stefáns Brynjólfssonar, byggingarfulltrúa, dagsett þann 14. desember s.l., þar sem hann hjálagt leggur fram endurskoðaða tillögu um gjaldskrá fyrir gatnagerðar- og byggingaleyfisgjöld í Ísafjarðarbæ. Tillagan komi í stað tillögu að gjaldskrá er fram var lögð í bæjarráði þann 11. desember s.l.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga byggingarfulltrúa verði samþykkt. Jafnframt leggur bæjarráð til að rúmmál íbúðarhúsa reikist sem flatarmál x 2,7m nema raunrúmmál sé minna og rúmmál atvinnuhúsnæðis reiknist sem flatarmál x 3,5 m nema raunrúmmál sé minna.

12. Samb. ísl. sveitarf. - Kjarasamningur við Sjúkraliðafélag Íslands.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 7. desember s.l., ásamt nýjum kjarasamningi milli Laungnefndar sveitarfélaga og Sjúkraliðafélags Íslands. Samningurinn er um að gildandi kjarasamningur framlengist til 31. desember 2000. Bréfinu fylgir og samkomulag sömu aðila frá 22. nóvember s.l., ásamt fundargerðurm samstarfsnefndar aðila frá 12. og 13. fundi .

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:35

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.