Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

224.fundur

Árið 2000, mánudaginn 20. nóvember kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Valdimar Steinþórsson mætir til fundar við bæjarráð.

Valdimar Steinþórsson, Seljalandsvegi 22, Ísafirði, mætti til fundar við bæjarráð í framhaldi af erindum hans, er fjalla um beiðni á afnotum eða kaupum á gömlu vatnsveitumannvirkjunum á Dagverðardal og í Tungudal.

Bæjarráð felur tæknideild tæknilega úrvinnslu málsins í samráði við bæjarstjóra.

2. Fundargerðir.

Byggingarnefnd starfshóps um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðis Ísfirðinga 13/11. 3. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
1. liður. Bæjarráð leggur til að tilboði kr. 9.148.000.- í lyftubúnað verði tekið með fyrirvara um fjármögnun.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

Fræðslunefnd 14/11. 116. fundur.
Fundargerðin er í fjórtán liðum.
2. liður. Bæjarráð leggur til að ný gjaldskrá verði lögð til grundvallar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2001.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

Hafnarstjórn 14/11. 44. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Nefnd um uppbyggingu íþróttamannvirkja og landsmót UMFÍ 2004. 10/11. 2. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Starfshópur um framtíðarlausn í húsnæðismálum Grunnskólans á Ísafirði 15/11. 3. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf fjármálastjóra. - Breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 15. nóvember s.l., svar við beiðni um umsögn um fyrirliggjandi frumvörp um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og vatnsveitur sveitarfélaga. Bréfinu fylgja afrit af fyrirspurnum nokkurra nefnda Alþingis um ofangreind lög.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá umsögn Ísafjarðarbæjar um frumvarp að lögum um tekjustofna sveitarfélaga og um vatnsveitur sveitarfélaga.

4. Greinargerð bæjarritara. - Drafnargata 11, Flateyri.

Lögð fram greinargerð frá bæjarritara, dagsett 14. nóvember s.l., er varðar skemmdir, viðgerðir og kröfu skaðabóta vegna Drafnargötu 11 á Flateyri. Greinargerðin er samkvæmt beiðni bæjarráðs frá 219. fundi þann 16. október 2000.

Bæjarráð hafnar kröfu eigenda Drafnargötu 11, um skaðabætur með tilvísun til greinargerðar bæjarritara.

5. Bréf fjármálastjóra. - Fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 15. nóvember s.l., svar við bókun bæjarráðs frá 222. fundi þann 6. nóvember s.l., þar sem óskað var álits fjármálastjóra á fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða árið 2001. Fram kemur í bréfi fjármálastjóra að í fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits 2001, er gert ráð fyrir að Ísafjarðarbær greiði kr. 5.266 þúsund eða um 48% af kostnaði. Sé miðað við sömu skiptingu tekna (38%) af eftirlitsgjöldum á næsta ári og á þessu ári og skiptingu reksturskostnaðar á einstök sveitarfélög, er ljóst að Ísafjarðarbær á að greiða verulegar fjárhæðir umfram aðra. Lagt er til að framlag Ísafjarðarbæjar verði óbreytt milli áranna 2000 og 2001 eða kr. 3.746 þúsund.

Bæjarráð samþykkir tillögu fjármálastjóra.

6. Bréf Andra Árnasonar hrl. - Krafa vegna dóms Hæstaréttar 2. nóv. s.l.

Lagt fram bréf frá Andra Árnasyni hrl., bæjarlögmanni, dagsett 14. nóvember s.l., ásamt afriti af bréfi Lögmanna ehf., dagsettu 13. nóvember s.l., þar sem fram er lögð krafa f.h. Jónasar H. Finnbogasonar og Finnboga Jónassonar, með tilvísun í dóm Hæstaréttar frá 2. nóvember 2000. Krafan hljóðar upp á kr. 1.079.562.-

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að heimiluð verði greiðsla samkvæmt kröfu Lögmanna ehf. Kostnaður verði færður á sérstakan lykil í bókhaldi og fjármagnist með lántöku.

7. Bréf Gámaþjónustu Vestfjarða. - Ford götusópur í eigu Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram bréf frá Gámaþjónustu Vestfjarða, dagsett 16. nóvember s.l., þar sem gert er kauptilboð að upphæð kr. 150.000.- í Ford götusóp Ísafjarðarbæjar. Tilboðinu tengist beiðni um að gerður verði þjónustusamningur við Gámaþjónustuna um sópun og þrif á bæjarfélaginu.

Bæjarráð óskar umsagnar tæknideildar um erindið.

8. Bréf Jóhanns K. Torfasonar vegna kjaramála.

Lagt fram bréf frá Jóhanni K. Torfasyni, dagsett 12. nóvember s.l., þar sem hann óskar eftir viðræðum um launamál, sem nýráðinn forstöðumaður skíðasvæðanna á Ísafirði.

Bæjarráð hafnar fram kominni kröfu og felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

9. Erindi frá bæjarstjórn. - Systkinaafsláttur á dagvistargjöldum.

Lagt fyrir bæjarráð að nýju bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 26. október s.l., varðandi systkinaafslátt á dagvistargjöldum. Tillögu bæjarráðs í 3. lið 221. fundargerðar bæjarráðs um afgreiðslu frestað í bæjarstjórn 16. nóvember s.l. og vísað til gerðar fjárhagsáætlunar 2001.

10. Erindi frá bæjarstjórn. - Kynningarfundur um Orkubú Vestfjarða.

Tillaga bæjarráðs um kynningarfund fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar um fyrirhugaðar breytingar á orkulögum og hugsanlegar breytingar á félagsformi og eignaraðild að Orkubúi Vestfjarða vísað frá bæjarstjórn 16. nóvember s.l., til frekari úrvinnslu í bæjarráði.

Bæjarráð ákveður að fundurinn verði haldinn þann 12. desember n.k. kl. 20:00 fundarstaður tilgreindur síðar.

11. Erindi frá bæjarstjórn. - Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar.

Tillögu bæjarráðs í 4. lið 223. fundargerðar bæjarráðs frá 13. nóvember s.l., frestað í bæjarstjórn þann 16. nóvmeber s.l. og vísað til gerðar fjárhagsáætlunar 2001.

12. Erindi frá bæjarstjórn. - Bréf iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis vegna Orkubús Vestfjarða.

Tillaga samþykkt á 89. fundi bæjarstjórnar við 7. og 8. lið 223. fundagerðar bæjarráðs, þess efnis að bæjarstjórn feli bæjarráði að svara bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis frá 7. nóvember s.l., er varðar hugsanleg kaup ríkisins á eignarhlutum sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að rita bréf til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og leggja fyrir bæjarráð.

13. Bréf fjármálastjóra. - Sparisjóðir Önundarfjarðar og Þingeyrarhrepps, aukning stofnfjár.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 16. nóvember s.l., þar sem hann að beiðni bæjarráðs frá 223. fundi leggur mat á hvort Ísafjarðarbær eigi að neyta forkaupsréttar að aukningu stofnfjár í Sparisjóði Önundarfjarðar og Sparisjóði Þingeyrarhrepps, vegna sameiningar þessarra sjóða við Eyrarsparisjóð og Sparisjóð Súðavíkur. Það er mat fjármálastjóra að aukning stofnfjár í ofangreindum sjóðum auki ekki áhrif Ísafjarðarbæjar í stjórn hins sameinaða sparisjóðs og mælir því ekki með að forkaupsréttur sé nýttur.

Bæjarráð leggur til að forkaupsrétti sé hafnað.

14. Bréf fjármálastjóra. - Rekstur og fjárfestingar janúar - september 2000.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar fjármálastjóra, dagsett 15. nóvember s.l., þar sem gerð er grein fyrir rekstri og fjárfestingum málaflokka og deilda, fyrir tímabilið janúar-september 2000.

Lagt fram til kynningar.

15. Bréf bæjarritara og húsnæðisfulltrúa. - Umsókn um viðbótarlán.

Lagt fram bréf frá bæjarritara og húsnæðisfulltrúa dagsett 15. nóvmeber s.l., ásamt umsókn einstaklinga um viðbótarlán til íbúðarkaupa. Við mat á umsókninni kom í ljós að viðkomandi aðilar fara yfir þau meðaltekjumörk sem sett eru í reglugerð um viðbótarlán og bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur gert húsnæðisfulltrúa og bæjarritara að vinna eftir. Bréfritarar telja þó að athuguðu máli að viðkomandi aðilar falli undir undanþágu samkvæmt 7. grein reglurgerðar um viðbótarlán nr. 783/1998. Óskað er staðfestingar bæjarráðs á samþykki.

Bæjarráð samþykkir tillögu bréfritara, enda komi lánið ekki til útborgunar fyrr en á árinu 2001.

16. Bréf bæjarritara og húsnæðisfulltrúa. - Yfirlit um veitt viðbótarlán.

Lagt fram bréf frá bæjarritara og húsnæðisfulltrúa, dagsett 15. nóvember s.l., þar sem greint er frá samþykktum viðbótarlánum á árinu 2000. Alls hafa fimmtán umsóknir verið samþykktar samtals að upphæð um kr. 17.294.000.- 5% hlutur Ísafjarðarbæjar í varasjóð er um kr. 865.000.-
Kvóti Ísafjarðarbæjar hjá Íbúðalánasjóði var á þessu ári kr. 18.000.000.- og er því óráðstafað nú um kr. 706.000.-

Lagt fram til kynningar.

17. Fjórðungssamb. Vestf. - Kynningarfundur um mat á umhverfisáhrifum.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, dagsett 13. nóvember s.l., um kynningarfund vegna laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Fundurinn verður haldinn á Hótel Ísafirði miðvikudaginn 22. nóvember n.k. og hefst kl. 13:00

Lagt fram til kynningar.

18. Samb. ísl. sveitarf. - Nýr kjarasamningur, veikindaréttur, fæðingarorlof.

Lagt fram bréf ásamt fylgigögnum frá Samb. ísl. sveitarf., dagsett 13. nóvember s.l., þar sem segir að þann 24. október s.l., var undirritaður samningur milli Launanefndar sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar og ríkisins annars vegar og BSRB, Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands og Félags íslenskra leikskólakennara hins vegar, um tiltekin atriði varðandi veikindarétt og fæðingarorlof. Gildistími er frá 1. janúar 2001.

Lagt fram til kynningar.

19. Fundargerð stjórnar Heilbrigðisstofnunarinnar, Ísafjarðarbæ.

Lögð fram fundargerð stjórnar Heilbrigðisstofnunarinnar, Ísafjarðarbæ, frá 24. fundi er haldinn var þann 5. september s.l.

Lagt fram til kynningar.

20. Bréf Davíðs Harðarsonar. - Sveitarfélög á landsbyggðinni.

Lagt fram bréf frá Davíð Harðarsyni, dagsett 14. nóvember s.l., þar sem hann kynnir lokaritgerð sína í viðskiptafræðum við Háskóla Íslands. Lokaritgerðin ber heitið ,,Hvað geta sveitarfélög gert til að laða til sín fyrirtæki". Ritgerðin er til sölu og kostar eintakið kr. 20.000.- Bréfinu fylgir inngangur að ritgerðinni.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesn og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:56

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.