Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

221. fundur

Árið 2000, mánudaginn 30. október kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir.

Fræðslunefnd 24/10. 115. fundur.
Fundargerðin er í átta liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf forstöðum. Skóla- og fjölskyludskrifst. - Gamla Apótekið.

Lögð fram tvö bréf frá Ingibjörgu Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, dagsett 25. október 2000. Bréfin fjalla um svör félagsmálanefndar og fræðslunefndar um forvarnar- og félagsgildi starfseminnar í Gamla Apótekinu á Ísafirði.

Bæjarráð þakkar fræðslu- og félagsmálanefndum fyrir umsagnir þeirra. Það er samdóma álit nefndanna að forvarnar- og félagsgildi starfseminnar í Gamla Apótekinu sé mikið. Bæjarráð tekur undir með nefndunum og leggur áherslu á að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar haldi áfram fjárstuðningi ígildi kr. 400.000.- pr. ár með útvegun íbúðarhúsnæðis fyrir forstöðumann og fylgi eftir við ríkisvaldið að starfsemi Gamla Apóteksins verði sett á föst fjárlög.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að rita formanni fjárlaganefndar Alþingis bréf um málefnið.

3. Bréf forstöðum. Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Systkinaafsláttur.

Lagt fram bréf frá Ingibjörgu Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, dagsett 26. október s.l., þar sem svarað er beiðni bæjarráðs frá 217. fundi þann 2. október s.l., um kostnaðaráætlun á tillögu fræðslunefndar um að systkinaafsláttur verði veittur á gjöldum heilsdagsskóla ef viðkomandi á systkini í heilsdagsvistun í leikskóla Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð þakkar fyrir uppgefnar upplýsingar og leggur til við bæjarstjórn að tillaga fræðslunefndar frá 30. september s.l., um systkinaafslátt milli skólastiga Ísafjarðarbæjar verði samþykkt.

4. Bréf fjármálastjóra. - Fólksflutningar. Samningsbundinn akstur.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 23. október s.l., þar sem svarað er fyrirspurn bæjarráðs frá 219. fundi þess í 11. lið dagskrár. Heildarkostnaður á árinu 2000 er áætlaður kr. 37.110 þúsund, en var á síðasta ári kr. 36.007 þúsund.

Að teknu tilliti til framlagðra upplýsinga telur bæjarráð rétt að kannað verði hvort hagkvæmt væri að bjóða út allan akstur Ísafjarðarbæjar í einu útboði.

5. Viðlagatrygging Íslands. - Upplýsingar um uppgjör tjóna.

Lagt fram bréf frá Viðlagatryggingu Íslands dagsett 13. október s.l., þar sem greint er frá stöðu neðangreindra mála vegna fyrirspurnar Ísafjarðarbæjar.

1. Aurskriður úr Eyrarfjalli.
Ganga þarf frá samþykktu tjónmati áður en stjórn Viðlagatryggingar tekur afstöðu til styrkveitingarbeiðni.

2. Tjón á skíðalyftu á Seljalandsdal.
Viðlagatrygging fellst á þá niðurstöðu að tjónbætur vegna umræddrar skíðalyftu nemi um kr. 27.000.000.- enda hafi tilkvaddir matsmenn samþykkt þá niðurstöðu.

3. Snjóflóðavörn við sorpeyðingarstöðina Funa.
Viðlagatrygging hafnar þátttöku í snjóflóðavörnum við Funa, en bendir á Ofanflóðasjóð.

Lagt fram til kynningar.

6. Samkomulag Skólaskrifstofu Vestfjarða og Bæjar- og héraðsbókasafns.

Lagt fram samkomulag Skólaskrifstofu Vestfjarða og Bæjar- og héraðsbókasafns, dagsett 18. október s.l., um yfirtöku á bóka- og gagnasafni Skólaskrifstofu Vestfjarða.

Bæjarráð staðfestir samkomulagið.

7. Bréf Tryggva Guðmundssonar. - Efri skíðalyfta á Seljalandsdal.

Lagt fram bréf frá Tryggva Guðmundssyni f.h. skíðalyftumanna, dagsett 20. október s.l., þar sem tilkynnt er að samþykkt hafi verið að afhenda Ísafjarðarbæ nýtanlega hluti úr efri lyftu, sem nýta mætti við uppbyggingu nýrrar lyftu í Tungudal. Þó er gerður fyrirvari á mögulegri kröfu á hendur efri lyftu um eftirstöðvar efnisreikninga um kr. 300-400 þúsund, sem Ísafjarðarbær myndi þá takast á hendur greiðsluábyrgð fyrir, ef ekki tekst að fá kröfuna afskrifaða, sem þó verður að telja fremur líklegt.

Bæjarráð þakkar fyrir framlag áhugamanna um efri skíðalyftu á Seljalandsdal, til uppbyggingar á framtíðar skíðasvæði Ísfirðinga í Tungudal.

8. Sjávarútvegsráðuneytið. - Úthlutun byggðakvóta.

Lagt fram bréf frá sjávarútvegsráðuneyti, dagsett 20. október s.l., svar við bréfi Ísafjarðarbæjar frá 10. október s.l. Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að efni bréfs Ísafjarðarbæjar fellur undir nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra er hefur það hlutverk að endurskoða og koma með tillögur til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Bréfi Ísafjarðarbæjar mun verða komið á framfæri við nefndina.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir svörum frá umræddri nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra.

9. Siglingastofnun. - Yfirlitsskýrsla um sjóvarnir.

Lagt fram bréf frá Siglingastofnun, dagsett 20. október s.l., ásamt endurskoðaðri skýrslu um sjóvarnir er byggir á yfirlitsskýrslu um sjóvarnir sem var gefin út árið 1998. Hér er um að ræða inngangskafla og sérkafla um Ísafjarðarbæ, en skýrsluna í heild sinni er hægt að fá keypta hjá Siglingastofnun.

Lagt fram til kynningar.

10. Umboðsmaður Alþingis. - Kvörtun Steinunnar F. Gunnlaugsdóttur.

Lagt fram bréf frá umboðsmanni Alþingis, dagsett 24. október s.l., ásamt áliti umboðsmanns varðandi kvörtun Steinunnar F. Gunnlaugsdóttur, er varðar búsetu hennar á snjóflóðahættusvæði í Hnífsdal.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga varðandi málið.

11. Afrit bréfa Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða til Skóla- og fjöldkylduskrifstofu. Dagvistun barna hjá Ísafjarðarbæ. - Kvennasmiðja í Ísafjarðarbæ.

Lagt fram afrit af bréfi frá Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða, dagsett 25. október s.l., til Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, er varðar dagvistun barna hjá Ísafjarðarbæ, skort á dagvistunarrými og hugsanlega lausn á því máli.
Jafnframt er fram lagt afrit af bréfi frá Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða, dagsett 25. október s.l., til Skóla- og fjöldkylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, varðandi Kvennasmiðju í Ísafjarðarbæ. Í bréfinu er greint frá gildi slíkrar Kvennasmiðju fyrir konur er lengi hafa verið utan vinnumarkaðar. Jafnframt er í bréfinu óskað eftir afnotum af húsnæði með tilheyrandi húsbúnaði og fjárframlagi að upphæð kr. 300.000.-

Bréfin lögð fram til kynningar.

12. Samb. ísl. sveitarf. - Ráðstefna „Sjálfstæði skóla.“

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf., dagsett 19. október s.l., þar sem segir að sambandið ásamt öðrum aðilum hafi ákveðið að boða til lokaðrar ráðstefnu sem ber nafnið „Sjálfstæði skóla“ og haldin verður þann 18. nóvember n.k. Tilkynning um þátttöku berist eigi síðar en 26. október 2000.

Bæjarráð felur Ingibjörgu Maríu Guðmundsdóttur, forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu, að sækja ráðstefnuna.

13. Ársfundur Samb. sveitarf. á köldum svæðum 2. nóvember 2000.

Lagt fram fundarboð um ársfund frá Samb. sveitarf. á köldum svæðum er haldinn verður í A-sal, 2. hæð á Hótel Sögu í Reykjavík, fimmtudaginn 2. nóvember 2000. Fundurinn er boðaður með dagskrá.

Lagt fram til kynningar.

14. Bréf bæjarstjóra. - Drög að umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingar á náttúrustofum.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 27. október s.l., ásamt drögum að umsögn Ísafjarðarbæjar um drög að frumvarpi til laga um breytingar á náttúrustofum. Drögin eru alls 7 blaðsíður.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga endanlega frá umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingar á náttúrustofum, með þeim ábendingum er fram hafa komið á fundinum. Bæjarráð þakkar forstöðumanni og stjórn Náttúrustofu Vestfjarða svo og bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar fyrir vandaðar umsagnir.

15. Bréf bæjarstjóra. - Greiðslur til kennara v/nemendaferða.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 27. október s.l., er varðar greiðslur til kennara vegna nemendaferðalags sbr. 9. og 10. lið í fundargerð bæjarráðs frá 220. fundi. Meðfylgjandi er útprentun af tölvubréfi milli bæjarlögmanns og lögmanns kennara, útreikningur lögmanns kennara á kröfum þeirra og ljósrit af stefnu sem birta skal 1. nóvember n.k.

Fulltrúi K-lista í bæjarráði Lárus G. Valdimarsson óskaði svohljóðandi bókunar. „Undirritaður fulltrúi K-lista í bæjarráði óskar eftir að bókað verði að hann harmi þau málalok sem orðið hafa í þessu deilumáli þ.e. að deilan verði útkljáð fyrir dómstólum. Að mati undirritaðs hefði verið æskilegt að kanna pólitískan vilja bæjarráðs/bæjarstjórnar til að leysa málið á fyrri stigum þess.“

Bæjarráð felur bæjarlögmanni að fara með málið af hálfu Ísafjarðarbæjar.

16. Bréf bæjarstjóra. - Fjárhagsáætlun 2001 - nýting gjaldstofna.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 27. október s.l., vegna nýtingar tekjustofna við gerð fjárhagsáætlunar 2001. Meðfylgjandi er bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 26. október s.l. og sundurliðun fyrstu talna í samantekt.

Bæjarráð leggur til að hækkun á prósentustigi útsvars verði 0,66 eða úr 12,04% í 12,70% Áfram verði unnið að gerð fjárhagsáætlunar á grundvelli þeirra upplýsinga er fram komu í bæjarráði. Vinnugögn fyrir bæjarráð verði lögð fram á næsta fundi þess.

17. Samb. ísl. sveitarf. - Niðurstöður og tillögur tekjustofnanefndar.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 20. október s.l., ásamt helstu niðurstöðum og tillögum nefndar um tekjustofna sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.

18. Samb. ísl. sveitarf. - Samþykktir bókhaldsnefndar Samb. ísl. sveitarf. frá 16. október 2000.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf., dagsett 25. október s.l., um samþykktir bókhaldsnefndar Samb. ísl. sveitarf. frá 16. október 2000.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:45

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Jón Reynir Sigurvinsson. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.