Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

213. fundur

Árið 2000, mánudaginn 4. september kl. 15:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 29/8.
Fundargerðin er í fjórtán liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Drög að umsögn um frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Lögð fram drög að umsögn um frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga frá félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar. Félagsmálanefnd fól þeim Laufeyju Jónsdóttur, Guðjóni Brjánssyni og Védísi J. Geirsdóttur að fara yfir frumvarpið og gerðu þau framlagðar athugasemdir, er lagðar voru fram í félagsmálanefnd þann 15. ágúst s.l.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara yrir umsögnina og athuga sérstaklega fjármálaþátt frumvarpsins.

3. Sigurður M. Óskarsson. - Svör við fyrirspurnum á 211. fundi bæjarráðs.

Lagt fram bréf frá Sigurði Mar Óskarssyni á tæknideild Ísafjarðarbæjar dagsett þann 28. ágúst s.l. Í bréfinu svarar Sigurður fyrirspurnum er fram komu í bæjarráði á 211. fundi þess og varða „Veg að hesthúsum að söndum í Dýrafirði“ og „Kirkjustræti á Þingeyri“.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs, þakkar svör við fyrirspurnum sínum frá 211. fundi bæjarráðs. Bæjarráð samþykkir tillögu Sigurðar M. Óskarssonar, um framkvæmdir við veg að hesthúsum að Söndum í Dýrafirði. Kostnaður kr. 150.000.- færist á lið 10-22-445-1 ,,vélavinna aðkeypt".

4. Minnisblað bæjarritara. - Forkaupsréttur vegna Tungu í Valþjófsdal.

Lagt fram minnisblað Þorleifs Pálssonar, bæjarritara, dagsett 29. ágúst s.l., þar sem lögð er fram fyrirspurn Sigmundar B. Þorkelssonar, Holtabrún 10, Bolungarvík, um forkaupsrétt að húsum og hluta lands á jörðinni Tungu, Valþjófsdal, Önundarfirði.

Bæjarráð hafnar forkaupsrétti.

5. Bréf bæjarstjóra til bæjarráðs. - Endurskoðun bæjarmálasamþykktar.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 1. september 2000, ásamt drögum að nýrri bæjarmálasamþykkt fyrir Ísafjarðarbæ frá starfshópi um endurskoðun hennar.

Bæjarráð vísar drögum að nýrri bæjarmálasamþykkt til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Bæjarráð þakkar jafnframt starfshópi um endurskoðun bæjarmálasamþykktar fyrir vel unnin störf.

6. Menntamálaráðuneytið. - Starfshópur um eflingu menningarstarfs á landsbyggðinni.

Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneyti dagsett 28. ágúst s.l., varðandi starfs- hóp er vinnur að tillögum um eflingu menningarstarfs á landsbyggðinni. Þar er óskað eftir svörum frá sveitarstjórnum, um hvað sé að þeirra áliti brýnast að gera til að efla menningarstarf á landsbyggðinni. Svar óskast sent eigi síðar en 20. september n.k.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarnefndar.

7. Sigurður M. Óskarsson, svar við fyrirspurn á 212. fundi bæjarráðs.

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar á tæknideild Ísafjarðarbæjar dagsett þann 31. ágúst s.l., þar sem hann svarar fyrirspurn frá 212. fundi bæjarráðs um 15. lið í fundargerð umhverfisnefndar frá 116. fundi, um úrbætur í holræsamálum.

Bæjarráð telur ekki tímabært að vinna að frummatsskýrslu í holræsamálum, fyrr en fyrir liggi niðurstaða í rannsóknum Náttúrustofu Vestfjarða um fráveitumál.

8. Menntun er máttur. - Vika símenntunar á Vestfjörðum.

Lagt fram bréf frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða dagsett 24. ágúst s.l., þar sem boðið er til opnunar á „Viku símenntunar á Vestfjörðum“, sem haldin verður í Þróunarsetri að Árnagötu 2-4 á Ísafirði mánudaginn 4. september 2000 og hefst kl. 17:30

Bæjarráð ásamt bæjarstjóra munu mæta til opnunarinnar.

9. Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða. - Fréttabréf 2. tbl. 21. ágúst 2000.

Lagt fram fréttabréf Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða 2. tbl. útgefið 21. ágúst 2000.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 16:45

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.