Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

212. fundur

Áriði 2000, mánudaginn 28. ágúst kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Umhverfisnefnd 23/8.
Fundargerðin er í sextán liðum.
Bæjarráð óskar frekari upplýsinga frá umhverfisnefnd við afgreiðslu á 12. og 14. lið.
Bæjarráð óskar frekari upplýsinga um 15. lið fundargerðarinnar.
Bæjarráð staðfestir aðra liði fundargerð umhverfisnefndar.

2. Greinargerð og tillögur bæjarstjóra. - Umhverfissvið Ísafjarðarbæjar.

Lögð fram greinargerð og tillögur Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 25. ágúst s.l., er varðar umhverfissvið Ísafjarðarbæjar, tæknideild og sviðsstjóra umhverfissviðs. Í greinargerðinni er greint frá starfslýsingu bæjarverkfræðings. Bæjarstjóri gerir tillögu um að nú þegar verði auglýst starf sviðsstjóra umhverfissviðs Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð veitir bæjarstjóra heimild til að auglýsa starf sviðsstjóra umhverfissviðs Ísafjarðarbæjar.

3. Minnisblað bæjarstjóra. - Bílskúrar í Teigahverfi í Hnífsdal.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 24. ágúst s.l., er varðar bílskúra í Teigahverfi í Hnífsdal. Í minnisblaðinu kemur fram að Halldór Friðbjarnarson í Hnífsdal, hefur óskað eftir að fá bílskur við Fitjateig 5 í Hnífsdal keyptan eða leigðan undir vélageymslu fyrir heyvinnutæki. Bæjarstjóri óskar eftir afstöðu bæjarráð varðandi bílskúra að Fitjateig 1 og 5 í Hnífsdal, svo og varðandi garðagróður á svæðinu, er svæðið verður þrifið og gengið verður frá húsgrunnum.

Bæjarráð hafnar sölu eða leigu á bílskur við Fitjateig 5 í Hnífsdal, en óskar eftir að kannað verði hvort nýta megi þá húsgrunna sem á svæðinu eru í stað þess að þeir verði fjarlægðir.

4. Minnisblað bæjarstjóra. - Yfirlýsing húsnæðisfulltrúa v/forkaupsréttar.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 24. ágúst s.l., ásamt yfirlýsingu húsnæðisfulltrúa um höfnun forkaupsréttar að íbúð í Eyrargötu 8, Ísafirði. Húsnæðisfulltrúi mælir með að forkaupsrétti verði hafnað.

Bæjarráð hafnar forkaupsrétti samkvæmt tillögu húsnæðisfulltrúa.

5. Minnisblað bæjarstjóra. - Öryggismál í Vestfjarðagöngum.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 24. ágúst s.l., ásamt afriti af frétt á fréttavef BB um öryggismál í Vestfjarðagöngum. Bæjarstjóri mælir með að bæjarráð Ísafjarðarbæjar taki málið til skoðunar.

Bæjarráð telur óforsvaranlegt með öllu að öryggisbúnaður á borð við farsíma- og útvarpssenda skuli ekki vera til staðar í Vestfjarðagöngum. Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma þessum sjónarmiðum á framfæri við hlutaðeigandi og krefjast úrbóta sem fyrst.

6. Bréf byggingarfulltrúa v/sölu fasteigna.

Lagt fram bréf frá Stefáni Brynjólfssyni, byggingarfulltrúa, dagsett 23. ágúst s.l., þar sem hann mælir með að fasteignirnar Skógarbraut 2, norður endi, Ísafirði og Stekkjargata 29, Hnífsdal, verði augýstar til sölu.

Bæjarráð samþykkir tillögu byggingarfulltrúa og samþykkir jafnframt að húsgrunnur (kjallari) að Ólafstúni 2 á Flateyri verði auglýstur til sölu.

7. Bréf Sindrabergs ehf. - Niðurfelling fasteignagjalda.

Lagt fram bréf frá Sindraberg ehf., Ísafirði, dagsett 20. ágúst s.l. Í bréfinu er óskað eftir að fasteignagjöld fyrstu tvö rekstrarárin verði felld niður að hluta og jafnframt er óskað eftir fundi við fyrsta tækifæri til að ræða þessi mál.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma á fundi með fulltrúum frá Sindrabergi.

8. Menntamálaráðuneytið. - Rekstur Skrúðs.

Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneyti dagsett 8. ágúst s.l., svar við bréfi Ísafjarðarbæjar frá 18. júlí s.l. og varðar rekstur Skrúðs í Dýrafirði og beiðni Ísafjarðarbæjar um að ráðuneytið komi áfram að rekstri Skrúðs. Í bréfinu óskar ráðuneytið eftir upplýsingum um kostnaðarhlut Ísafjarðarbæjar í rekstrinum, áður en tekin verði afstaða til erindisins.

Bæjarstjóra falið að svara bréfinu.

9. Menntamálaráðuneytið. - Skýrsla um íþróttakennslu grunnskóla.

Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneyti dagsett 15. ágúst s.l., er varðar upplýsingar um íþróttakennslu grunnskóla skólaárið 1999-2000. Fram kemur að í Grunnskóla Ísafjarðar er ekki fullnægt skilyrði reglugerðar nr. 395/1986 um sundnám grunnskóla, en að jafnaði skulu vera 15 nemendur á hvern sundkennara. Óskað er eftir að úr því verði bætt.

Bæjarráð vísar bréfinu til fræðslunefndar.

10. Bókaútgáfan Sögusteinn. - Ritun ábúendatals.

Lagt fram afrit bréfs frá bókaútgáfunni Sögusteini, sem er deild innan Genealogia Islandorum, dagsett 15. ágúst s.l. og stílað er á Birnu Lárusdóttur, forseta bæjarstjórnar. Tilgangur bréfsins er að kanna hvort Ísafjarðarbær hafi áhuga á að taka þátt í verkefninu ,,Ritun ábúendatals."

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfritara.

11. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. - Aðstæður til fiskeldis á Vestfjörðum.

Lagt fram bréf Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða dagsett 16. ágúst s.l., ásamt skýrslu um ,,Aðstæður til fiskeldis á Vestfjörðum." Skýrslan er niðurstaða úttektar Atvinnuþróunarfélagsins og Náttúrustofu Vestfjarða um aðstæður til fiskeldis á Vestfjörðum.

Bæjarráð fagnar fram kominni skýrslu um ,,Aðstæður til fiskeldis á Vestfjörðum" og telur hana gott innlegg í umræðu um fjölbreyttara atvinnulíf á Vestfjörðum. Skýrslan lögð fram til kynningar.

12. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Fundargerð Framtíðarnefndar.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 22. ágúst s.l., er fjallar um Framtíðarnefnd, Tekjustofnanefnd og Viku símenntunar. Bréfinu fylgir síðasta fundargerð Framtíðarnefndar og afrit af bréfum Ísafjarðarbæjar til félagsmálaráðuneytis vegna Tekjustofnanefndar dagsett 11. október 1999 og 18. ágúst 2000 ofl.

Lagt fram til kynningar.

13. Minnisblað bæjarstjóra. - Bæjarmálasamþykkt - atvinnumálanefnd.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 24. ágúst s.l., ásamt drögum að erindisbréfi fyrir atvinnumálanefnd og drögum að lýsingu fyrir atvinnumálanefnd í bæjarmálasamþykkt Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við drög bæjarstjóra að erindisbréfi fyrir atvinnumálanefnd né drögum að lýsingu fyrir atvinnumálanefnd í bæjarmálasamþykkt Ísafjarðarbæjar.

14. Minnisblað bæjarstjóra. - Launamál - Bókasafn Grunnskóla á Ísafirði.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 25. ágúst s.l., er varðar launamál á bókasafni Grunnskóla á Ísafirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við viðkomandi starfsmann og finna lausn á málinu.

15. Minnisblað bæjarstjóra. - Vinnuferill við fjárhagsáætlun 2001.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 24. ágúst s.l., ásamt drögum að vinnuferli við fjárhagsáætlun 2001 og til viðmiðunar vinnuferli við fjárhagsáætlun 2000.

Bæjarráð samþykkir fram lögð drög að vinnuferli.

16. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. - Atvinnuvegasýning Vestfjarða 2000.

Lagt fram bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða dagsett 24. ágúst s.l., um þátttöku sveitarstjórna á Vestfjörðum í Atvinnuvegasýningu Vestfjarða 2000. Í bréfinu er hvatt til þess að sveitarfélögin komi að sýningunni með þátttöku og kynningu á starfssemi sinni og þeirri þjónustu sem þau veita íbúum sínum.

Lagt fram til kynningar.

17. Veðurstofa Íslands. - Afsökunarbeiðni vegna villu í snjóflóðaannáli.

Lagt fram bréf frá Veðurstofu Íslands dagsett 24. ágúst s.l., þar sem beðist er afsökunar á villu er fram kom í snjóflóðaannáli fyrir veturinn 1999-2000. Bréfinu fylgir leiðrétt blaðsíða úr snjóflóðaannáli 1999-2000.

Lagt fram til kynningar.

18. Vinnumálastofnun. - Yfirlit yfir atvinnuástand í júlí 2000.

Lagt fram bréf frá Vinnumálastofnun dagsett 15. ágúst s.l., yfirlit yfir atvinnuástand í júlí 2000.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:08

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.