Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

211. fundur

Árið 2000, mánudaginn 21. ágúst kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 15/8 128. fundur
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Minnisblað bæjarstjóra - útboð á áætlunar- og sjúkraflugi.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 16. ágúst sl., með upplýsingum um þær athugasemdir sem Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ gerði við útboðsgögn um áætlunar og sjúkraflug.

Bæjarráð hefur ekki frekari athugasemdir við útboðsgögnin.

3. Erindi Jóhanns S. Guðjónssonar - Ólafstún 2, Flateyri.

Lagt fram bréf Jóhanns Snæfeld Guðjónssonar dags. 16. ágúst sl. Jóhann gerir fyrirspurn um hvort mögulegt sé að fá keypt Ólafstún 2, með þeim rústum er þar standa. Hugmynd hans er að lagfæra grunninn og síðar reisa á honum hús.

Bæjarstjóri upplýsti að grunnurinn er í eigu Ísafjarðarbæjar og að upp hefði komið hugmynd um að kirkjugarðurinn fengi afnot af kjallara í grunninum sem áhaldageymslu fyrir garðverkfæri. Hann sagði einnig frá samtali við Jóhann sl. vor þar sem Jóhann telur að hann geti útbúið einhverja aðstöðu fyrir áhaldageymslu handa kirkjugarðinum muni hann byggja á grunninum.

Bæjarráð telur jákvætt sé hægt að nýta grunninn undir húsbyggingu og vísar erindi Jóhanns til umhverfisnefndar. Bæjarstjóra falið að ræða við Jóhann um erindi hans.

4. Atvinnuþróunarf. Vestfj. - vinnuaðstaða fyrir nemendur í verkefnavinnu.

Lagt fram dreifibréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða dags. 14. ágúst sl. Í bréfinu er tilkynnt um að Atvinnuþróunarfélagið, með styrk frá Styrktarsjóði verslunarmanna í Ísafjarðarbæ, býður upp á vinnuaðstöðu fyrir nemendur í skólum á háskólastigi til að vinna að verkefnum fyrir vestfirsk fyrirtæki og stofnanir. Óskar Atvinnuþróunarfélagið eftir hugmyndum að verkefnum.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju með þetta verkefni og felur bæjarstjóra að koma hugmyndum að verkefnum á framfæri við Atvinnuþróunarfélagið.

5. Bréf bæjarstjóra til stjórnar Byggðastofnunar - íþróttamannvirki.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra, dags. 14. ágúst sl. þar sem hann gerir fyrirspurn um hvort stjórn Byggðastofnunar vilji láta vinna úttekt á áhrifum íþóttaiðkunar og uppbyggingu íþróttamanvirkja á landsbyggðinni, með tilliti til byggðalegra og samfélagslegra áhrifa.

Lagt fram til kynningar.

6. Fjórðungssamb. Vestfirðinga - boðun 45. fjórðungsþings Vestfirðinga.

Lagt fram bréf frá framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga dags. 9. ágúst sl. þar sem 45. Fjórðungsþing Vestfirðinga er boðað dagana 22.-24. september n.k. Þingið verður haldið í Súðavík og stendur frá föstudegi til sunnudags eða degi lengur en venja er.

Bæjarráð samþykkir að allir bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar mæti til fjórðungsþings í samræmi við lög Fjórðungssambands Vestfirðinga.

7. Bréf Greips Gíslasonar - ráðstefna á Grænlandi.

Lagt fram bréf Greips Gíslasonar dags. 11. ágúst sl. þar sem sagt er frá starfslokum Morrans í ár. Er þetta þriðja rekstrarár leikhúss ungs fólks í Ísafjarðarbæ. Hefur verkefnið fengið mikið lof og verðskuldaða athygli. Greipur hefur kynnt starfsemina víða, t.d. í Reykholti á síðasta ári og nú hefur honum boðist að kynna verkefnið á ráðstefnu í Grænlandi í byrjun september n.k.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju með störf leikhúss ungs fólks í Ísafjarðarbæ sem hefur borið hróður Ísafjarðarbæjar víða og hvetur til þess að framhald verði á starfseminni.

8. Bréf til tekjustofnanefndar - viðbótarútgjöld og lækkun staðgr. útsvars.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra dags. 18. ágúst sl. til Tekjustofnanefndar. Er hér um þriðja bréf Ísafjarðarbæjar til tekjustofnanefndar að ræða en fyrri bréf voru dags. 11. október 1999 og 29. júní 2000. Í bréfinu er Tekjustofnanefnd gerð grein fyrir þeirri staðreynd að tekjur hafa dregist verulega saman hjá Ísafjarðarbæ eða um 8% í útsvari fyrstu sjö mánuði ársins, miðað við sama tímabil á árinu 1999. Fram kemur í bréfinu að afar nauðsynlegt sé að ríkisvaldið svari þeirri áleitu spurningu sveitarfélaga, sérstaklega þeirra á landsbyggðinni, hvernig það hyggst bregðast við á komandi mánuðum.

Lagt fram til kynningar.

9. Skýrsla til Þróunarsjóðs grunnskóla - þróunarverkefni GÍ.

Lögð fram skýrsla frá Kristni Breiðfjörð Guðmundssyni, skólastjóra Grunnskólans á Ísafirði dags. í júlí 2000. Gerir skýrslan grein fyrir þróunarverkefninu ,,Saman í takt, heimili og skóli" sem unnið var í Grunnskólanum á Ísafirði skólaárið 1999/2000.

Bæjarráð þakkar fyrir skýrsluna og leggur fram til kynningar þar sem hún hefur nú þegar verið send fræðslunefnd.

10. Minnisblað bæjarstjóra - Eignarhaldsfélag Vestfjarða.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra dags. 18. ágúst sl. Í minnisblaðinu er lagt til að bæjarráð samþykki formlega fjárútlát vegna hlutafjárframlags bæjarins í Eignarhaldsfélagi Vestfjarða hf. Hlutafjárframlag var samþykkt á 181. fundi bæjarráðs 27. desember 1999 en ekki borið upp til atkvæða í bæjarstjórn síðar.

Bæjarráð samþykkir að áður samþykkt hlutafjárframlag Ísafjarðarbæjar í Eignarhaldsfélagi Vestfjarða hf. kr. 1.543.693,- verði fjármagnaðar með lántöku og færðar á bókhaldslykilinn 15-68-802-7

11. Minnisblað bæjarstjóra - Vínartónleikar á Ísafirði 5. sept. n.k.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra dags. 18. ágúst sl. vegna fyrirhugaðra vínartónleika sem formaður menningarnefndar hefur verið að undirbúa í samstarfi við forsvarsmenn hljómsveitar frá Vínarborg, með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir þá tillögu, Ingu Ólafsdóttur, formanns menningarnefndar, að framlag Ísafjarðarbæjar verði fólgið í húsnæði undir tónleikana og uppsetningu á sviði.

12. Minnisblað bæjarstjóra - uppbygging skíðasvæðis, fjárheimild.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra dags. 18. ágúst sl. vegna fjárheimildar fyrir framkvæmdir á framtíðarskíðasvæði skv. tillögum starfshóps. Bæjarstjóri gerir grein fyrir stöðu málsins og leggur til að bæjarráð heimili að þessu sinni 5.000.000 kr. til að hægt sé að hefja framkvæmdir.

Bæjarráð samþykkir 5.000.000 kr. aukafjárveitingu til framkvæmda á skíðasvæði sem færist á viðeigandi liði innan liðsins 066 ,,Íþróttasvæði" og fjármagnist með lántöku.

13. Minnisblað bæjarstjóra - Fjarðarstræti, uppkaup á iðnaðarhúsnæði.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra dags. 18. ágúst sl. vegna Fjarðarstrætis 16 og 20 á Ísafirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

14. Svar bæjarstjóra við fyrirspurn Birnu Lárusdóttur - kvöldflug á Ísafjarðarflugvöll.

Lagt fram afrit af bréfi bæjarstjóra til Birnu Lárusdóttur dags. 17. ágúst sl.. Í bréfinu er gerð grein fyrir stöðu mála varðandi möguleika á kvöld- og næturflugi til Ísafjarðar og lögð fram skýrsla vinnuhóps um könnun á möguleikum á næturaðflugi um Ísafjarðarflugvöll, dags. 20. október 1999. Er skýrslan unnin af vinnuhópi innan Flugmálastjórnar. Bæjarstjóri hefur skrifað flugmálastjóra, í framhaldi af fyrirspurn Birnu Lárusdóttur á 210. fundi bæjarráðs, og óskað eftir upplýsingum um stöðu þessa máls í dag.

Birna Lárusdóttir þakkaði fyrir skjót svör.

15. Fyrirspurnir.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs lagði fyrirspurn fyrir bæjarstjóra um veg upp að hesthúsum að Söndum í Dýrafirði: ,,Búið var að ákveða fjárframlag, innan tæknideildar kr. 150.000,- á árinu 1999 til framkvæmda við veg að hesthúsum en ekkert hefur gerst ennþá. Hver er ástæða þess?"

Guðni lagði fram aðra fyrirspurn er varðar Kirkjustræti á Þingeyri: ,,Var bundið slitlag á Kirkjustræti innifalið í útboðsgögnum þegar gatan var byggð upp á síðasta ári. Er áætlað að leggja bundið slitlag á Kirkjustræti á þessu ári?"

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:15

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Sæmundur Þorvaldsson

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri,
er jafnframt ritaði fundargerð.