Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

210. fundur

Árið 2000, mánudaginn 14. ágúst kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 8/8. 111. fundur.
Fundargerðin er í ellefu liðum. 2. tölul. Bæjarráð mun sitja f.h. Ísafjarðarbæjar í nefnd um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Ísafjarðarbæ.
Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

Landbúnaðarnefnd 10/8. 36. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Minnisblað bæjarstjóra. - Skóla- og fjölskylduskrifstofa Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 10. ágúst s.l., ásamt minnispunktum frá Ingibjörgu Maríu Guðmundsdóttur, yfirmanns skóla- og fjölskylduskrifstofu, ásamt drögum að helstu atriðum í starfslýsingum starfsmanna og skipuriti fyrir vinnslu mála í teymi. Fram kemur í minnisblaði bæjarstjóra að stefnt er á formlega opnun Skóla- og fjölskylduskrifstofu 25. ágúst n.k.

Bæjarráð þakkar fyrir greinargerðina.

3. Erindi byggingarfulltrúa. - Inntak Flateyrarveitu.

Lagt fram erindi frá Stefáni Brynjólfssyni, byggingarfulltrúa, dagsett 10. ágúst s.l., þar sem hann gerir grein fyrir tilboði er borist hefur í verkið ,,Inntak Flateyrarveitu" Tilboðið er frá Eiríki og Einari Val hf., og hljóðar upp á kr. 3.900.000.-, en kostnaðaráætlun var kr. 4.235.450.-. Aðeins eitt tilboð barst. Tæknideild leggur til að tilboði Eiríks og Einars Vals hf., verði tekið.

Bæjarráð staðfestir tillögu tæknideildar.

4. Erindi bæjarritara. - Fjárhagsáætlun húsnæðisnefndar 2000.

Lagt fram erindi Þorleifs Pálssonar, bæjarritara, dagsett 11. ágúst s.l., er varðar fjárhagsstöðu húsnæðisnefndar Ísafjarðarbæjar í samanburði við fjárhagsáætlun 2000. Óskað er eftir aukafjárveitingu svo halda megi áfram rekstri húseigna nefndarinnar.

Bæjarráð samþykkir aukafjárveitingu að upphæð 12 milljónir sem fjármagnaðar skulu með lántöku. Staða húsnæðisnefndar verði svo endurskoðuð í sept-okt. n.k.

 5. Fjármálaráðuneytið. - Sala á Aðalstræti 26, Þingeyri.

Lagt fram bréf frá fjármálaráðuneyti dagsett 9. ágúst s.l., þar sem greint er frá sölu á húsi gömlu heilsugæslunnar og sjúkraskýlisins við Aðalstræti 26, Þingeyri og hlut Ísafjarðarbæjar í söluandvirði kr. 507.000.-sem fært hefur verið á viðskiptareikning Ísafjarðarbæjar við ríkissjóð.

Lagt fram til kynningar.

6. Afrit bréfs bæjarstjóra til Hollvina Holtsskóla.

Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til Hollvina Holtsskóla dagsett 2. ágúst sl. Í bréfinu bendir bæjarstjóri á ýmsa valkosti varðandi nýtingu Holtsskóla og óskar eftir viðræðum við fulltrúa Hollvina Holtsskóla um málið.

Bæjarstjóri upplýsti að hann ræddi við fulltrúa frá Hollvinum Holtsskóla fyrr í dag. Afstaða Hollvina Holtsskóla er sú að mikilvægast sé að einhver starfsemi komi sem fyrst í húsnæði Holtsskóla. Einnig að lögð verði áhersla á að félagsheimili sveitarinnar nýtist áfram fyrir sveitina þrátt fyrir að einhver starfsemi komi í skólahúsnæðið.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að framgangi málsins.

7. Bréf prófasts Ísafjarðarprófastsdæmis vegna Holtsskóla.

Lagt fram bréf séra Agnesar Sigurðardóttur, prófasts Ísafjarðarprófastsdæmis, dagsett 9. ágúst s.l., þar sem hún greinir frá áhuga sem fram hefur komið innan kirkjunnar hér í prófastsdæminu, um afnot af Holtsskóla fyrir svo sem sumarbúðir, fundi, námskeið, mót að sumri til eða allan ársins hring. Farið er fram á viðræður við bæjaryfirvöld hið fyrsta um málefnið.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við séra Agnesi Sigurðardóttir.

8. Samgönguráðuneytið. - Útboð á áætlunar- og sjúkraflugi.

Lagt fram bréf frá samgönguráðuneyti dagsett 25. júlí sl., þar sem eru meðfylgjandi drög að útboðslýsingu á sameiginlegu útboði á áætlunarflugi og sjúkraflugi, sem unnin hafa verið af samgönguráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Flugmálastjórn og TR. Athugasemdir við útboðsgögn skulu berast samgöngu-ráðuneyti fyrir 11. ágúst.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að hafa samráð við Heilbrigðisstofnunina Ísafjarðarbæ um hvort gera skal athugasemdir varðandi sjúkraflugið.

Birna Lárusdóttir óskaði eftir greinargerð frá bæjarstjóra, um hvar vinna er stödd, varðandi möguleika á kvöld og næturflugi til Ísafjarðar.

9. Fréttatilkynning. - Framtíðaruppbygging skíðasvæðis á Ísafirði.

Lögð fram fréttatilkynning frá Ísafjarðarbæ vegna framtíðaruppbyggingar skíðasvæðis á Ísafirði, undirrituð af Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, þann 10. ágúst 2000.

Lagt fram til kynningar.

10. Roskilde Kommune. - Vinabæjarmót 14.-18. júní 2000.

Lagt fram bréf frá Roskilde Kommune dagsett 3. ágúst sl. og varðar vinabæjarmót er haldið var í Roskilde dagana 14.-18. júní 2000. Bréfritari sendir bréf með drögum að áframhaldandi samstarfi.

Bæjarráð þakkar bréfið og felur bæjarstjóra að svara bréfritara.

11. Erindi Kristínar Guðmundsdóttur, vegna fasteignagjalda.

Lagt fram erindi frá Kristínu Guðmundsdóttur dagsett 8. ágúst s.l., þar sem hún óskar eftir afslætti á fasteignagjöldum vegna Hjallavegar 3, neðri hæð, Flateyri, sem ellilífeyrisþegi.

Bæjarráð felur fjármálastjóra að afgreiða erindið í samræmi við gildandi reglur.

12. Minnisblað Sigurðar M. Óskarssonar. - Holræsaútrás Sundabakka.

Lagt fram minnisblað frá Sigurði M. Óskarssyni á tæknideild dagsett 8. ágúst sl., þar sem hann greinir frá endurteknum stíflum í holræsaútrás á Sundabakka og þeim vinnuferli sem settur hefur verið í gang varðandi þetta mál.

Lagt fram til kynningar.

13. Erindi bæjarverkfræðings. - Drög að fjallskilareglugerð.

Lagt fram bréf Ármanns Jóhannessonar, bæjarverkfræðings, dagsett 9. ágúst sl., ásamt hjálögðum drögum að fjallskilareglugerð fyrir Ísafjarðarbæ. Drögin eru jafnframt í yfirlestri hjá landbúnaðarnefnd.

Lagt fram til kynningar.

14. Erindi fjármálastjóra. - Vörslusjóðir hjá Ísafjarðarbæ.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 3. ágúst sl., vegna vörslusjóða hjá Ísafjarðarbæ og niðurlagningar þeirra. Í bréfinu leggur fjármálastjóri til að fyrri ákvörðun bæjarráðs frá 195. fundi standi, en samþykkt verði að sjóðsfénu verði ráðstafað samkvæmt ósk stofnenda svo sem unnt er. Bæjarstjóra verði falið að afla samþykkis dómsmálaráðuneytisins.

Bæjarráð samþykkir tillögu fjármálastjóra og felur bæjarstjóra að afla samþykkis dómsmálaráðuneytisins.

15. Minnisblað bæjarstjóra. - Umhverfissvið Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 11. ágúst s.l. og varðar umhverfissvið Ísafjarðarbæjar. Í minnisblaðinu leggur bæjarstjóri til að auglýst verði hið fyrsta starf yfirmanns umhverfissviðs.

Lagt fram til kynningar, greinargerð bæjarstjóra verði lögð fram á næsta bæjarráðsfundi.

16. Erindi Bjarna M. Aðalsteinssonar. - Fasteignagjöld.

Lagt fram bréf frá Bjarna M. Aðalsteinssyni ásamt minnisblaði fjármálastjóra, vegna óska Bjarna um afslátt fasteignagjalda, þar sem Bjarni er 75% öryrki.

Bæjarráð felur fjármálastjóra að afgreiða erindið í samræmi við gildandi reglur.

17. Sjávarútvegsráðuneytið. - Fjarvigtun sjávarafla.

Lagt fram bréf frá sjávarútvegsráðuneyti dagsett 27. júlí sl., þar sem hafnað er beiðni Ísafjarðarbæjar um vigtun sjávarafla með aðstoð rafeindabúnaðar.

Bæjarráð lýsir yfir vonbrigðum með afstöðu sjávarútvegsráðuneytis á tækniöld og bendir ráðuneytinu á að farið var fram á tilraunaverkefni sem áhugavert hefði verið, út frá hagræðingu í vigtun á landinu öllu ef vel hefði gengið. Það vekur athygli bæjarráðs að erindið hefur verið 10 mánuði til afgreiðslu í sjávarútvegsráðuneytinu.

Bæjarstjóra falið að senda sjávarútvegsráðuneytinu bókun bæjarráðs.

18. Ungmennafélag Íslands, forvarnarverkefnið Loftskipið.

Lagt fram bréf frá undirbúningsnefnd verkefnisins Loftskipið, sem er á vegum Ungmennafélags Íslands og Íslands án eiturlyfja. Um er að ræða átaksverkefni í þremur megin þáttum sem er fundaherferð, verkefnið Fjölskyldan saman og Jeg tarf ekki sjuss. Í bréfinu er óskað upplýsinga um það sem fer fram í sveitarfélaginu varðandi þessi málefni.

Bæjarráð vísar erindinu til yfirmanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu með ósk um að því verði svarað.

19. Samb. ísl. sveitarf. - Ráðstefna um náttúruhamfarir.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 2. ágúst sl., þar sem greint er frá ráðastefnu um náttúruhamfarir og neyðarviðbrögð er haldin verður í Háskólabíói dagana 27.-30. ágúst n.k.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að sitja ráðstefnuna.

20. Launanefnd sveitarfélaga. - Fundargerð 149. fundar.

Lögð fram fundargerð Launanefndar sveitarfélaga frá 149. fundi nefndarinnar er haldinn var þann 12. júlí s.l. að Háaleitisbraut 11, Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

21. Lífeyrissj. starfsm. sveitarf. - Fundargerðir 28. og 29. stjórnarfunda.

Lagðar fram fundargerðir stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga frá 28. fundi er haldinn var þann 11. apríl s.l. og 29. fundi er haldinn var þann 23. maí s.l.

Lagt fram til kynningar.

22. Fundargerð skiptastjórnar Skólaskrifstofu Vestfjarða 24. júlí 2000.

Lögð fram fundargerð skiptastjórnar Skólaskrifstofu Vestfjarða er haldinn var þann 24. júlí 2000.

Lagt fram til kynningar.

23. Erindi Nönnu K. Kristjánsdóttur ofl. - Útihátíð 2001.

Lagt fram erindi frá Nönnu K. Kristjánsdóttur og Dagný Steinunni Laxdal dagsett 17. júlí sl., um hugsanlega útihátíð í Ísafjarðarbæ á árinu 2001.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og sendir menningarnefnd það til afgreiðslu.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:14

 

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, er jafnframt ritaði fundargerð.