Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

208. fundur

Árið 2000, mánudaginn 24. júlí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Héraðssamband Vestfirðinga. - Fulltrúar mæta til fundar við bæjarráð.

Til fundar við bæjarráð mættu þeir Kristinn Jón Jónsson, formaður Héraðssambands Vestfirðinga, Kristján Pálsson, formaður BÍ og Kristinn Kristinsson, ritari Héraðssambands Vestfirðinga, í framhaldi af bréfi sambandsins til bæjarráðs, dagsettu 26. júní s.l., er fyrir var tekið á fundi bæjarráðs þann 11. júlí 2000.

Rætt var um íþróttasvæðið á Torfnesi ásamt framkvæmdaáætlun Boltafélags Ísafjarðar vegna rammasamnings er tekur til áranna 2000 - 2006 og hljóðar upp á kr. 39.115.000.- Sundurliðuð kostnaðaráætlun með greinargerð lá og fyrir fundinum.
Rætt var um landsmót UMFÍ í frjálsum íþróttum árið 2004 og hvort möguleiki væri á að það yrði haldið hér á norðanverðum Vestfjörðum.

Aðilar urðu sammála um að skipaður yrði starfshópur með fulltrúum frá Ísafjarðarbæ og Héraðssambandinu, er kanni nú þegar kostnað við framkvæmdir sem gera þarf til að halda slíkt íþróttamót. Framkvæmdir á Torfnessvæði væru teknar með í þeirri könnun. Starfshópurinn skili tillögum ásamt kostnaðaráætlun til bæjarráðs.

2. Afrit bréfs bæjarstjóra til sýslumanns v/Hvammur í Dýrafirði.

Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til sýslumannsins á Ísafirði, dagsett þann 18. júlí 2000. Í bréfinu mótmælir bæjarstjóri friðlýsingu sýslumanns á óskiptu landi við Hvamm í Dýrafirði.

Lagt fram til kynningar.

3. Afrit bréfs bæjarstjóra til menntamálaráðuneytis v/Skrúðs í Dýrafirði.

Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til menntamála- ráðuneytis dagsett 18. júlí 2000. Í bréfinu rekur bæjarstjóri málefni Skrúðs í Dýrafirði og þó einkum fjárhagsmál og þann aukna kostnað er fallið hefur á Ísafjarðarbæ.

Bæjarstjóri óskar f.h. Ísafjarðarbæjar eftir viðræðum við menntamálaráðherra eða ráðuneyti hans um endurskoðun á samningi ráðuneytisins og Ísafjarðarbæjar frá 5. nóvember 1997 með það í huga að ráðuneytið komi að rekstri Skrúðs, þar til framkvæmdasjóður hefur náð þeirri stöðu sem æskileg er til að sjá garðinum fyrir nægjanlegu rekstrarfé.

Lagt fram til kynningar.

4. Afrit bréfs bæjarstjóra til Verkalýðsf. Baldurs v/þjónustudeildar Hlífar.

Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til Verkalýðsfélagsins Baldurs, dagsett 18. júlí 2000, er varðar málefni starfsfólks þjónustudeildar Hlífar. Í bréfinu rekur bæjarstjóri nokkuð feril þessa máls.
Í lok bréfsins tilkynnir hann Verkalýðsfélaginu Baldri, að í fjarveru sinni hafi hann falið Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra og Þorleifi Pálssyni, bæjarritara, að ræða við málsaðila og leggja fram tillögu fyrir bæjarráð að loknum viðræðum.

Lagt fram til kynningar.

5. Afrit bréfs bæjarritara til landeigenda Ármúla v/merking sýslumarka.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 19. júlí s.l., til landeigenda að Ármúla í Ísafjarðardjúpi, varðandi beiðni þeirra frá 21. júní s.l., um sýslumerki við Mórillu í Kaldalóni.
Í bréfinu kemur fram að sýslumerki milli N-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu hafa ekki breyst þrátt fyrir sameiningu Nauteyrarhrepps við Hólmavíkurhrepp.

Lagt fram til kynningar.

6. Framtíðaruppb. skíðasvæðis á Ísafirði. - Erindi Jóhanns K. Torfasonar.

Lagt fram bréf frá Jóhanni K. Torfasyni, starfsmanni við uppbyggingu skíðasvæðis á Ísafirði, dagsett 14. júlí s.l. Í bréfinu er sett fram áætlun um framkvæmdaröð ásamt þrennskonar kostnaðaráætlun eftir því hvort valin verður leið: A kostnaðaráætlun kr. 33,1 milljón, B kostnaðaráætlun kr. 37,6 milljónir eða C kostnaðaráætlun kr. 35,o milljónir. Bréfritari mælir með leið A.

Bæjarráð samþykkir að stuðst verði við leið A. Bæjarráð samþykkir að ráðstafað verði í verkefnið þeim tjónabótum er greiddar verða fyrir skíðalyftu á Seljalandsdal, er fór í snjóflóði í mars 1999.

7. Félag skógarbúa í Tungudal. - Vegur við golfskála í Tungudal.

Lagt fram bréf frá Félagi skógarbúa í Tungudal dagsett 6. júlí s.l., þar sem greint er frá áskorun aðalfundar til Ísafjarðarbæjar, um að nú þegar verði farið í lagfæringar á veginum inn í Tungudal fyrir ofan golfskálann.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við Vegagerðina um erindið.

8. Minjasafnið að Hnjóti í Örligshöfn. - Beiðni um fjárstyrk.

Lagt fram bréf, ódagsett, frá hollvinum Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti, þar sem óskað er eftir fjárstyrk vegna uppbyggingar á safninu að Hnjóti.

Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu og felur bæjarstjóra að svara bréfritara.

9. Rannsóknastofnun landbúnaðarins. - Jarðabók Íslands.

Lagt fram bréf frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Fanney Ósk Gísladóttur, dagsett 10. júlí s.l., þar sem farið er fram á upplýsingar um hvort einhver gögn liggi fyrir um landamerki bújarða í sveitarfélaginu, hvers eðlis þau gögn séu, eða vísa á aðila sem kunna að hafa upplýsingar um málefnið. Upplýsingarnar verða nýttar í verkefnið ,,Nytjaland - Jarðabók Íslands."

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarverkfræðings.

10. Umboðsmaður Alþingis. - Tvö erindi vegna kvartana um tafir á afgreiðslum Ísafjarðarbæjar.

Lögð fram tvö bréf frá umboðsmanni Alþingis dagsett 7. júlí s.l., er varða kvartanir Hlöðvers Kjartanssonar hdl., á töfum á afgreiðslu Ísafjarðarbæjar á erindum hans f.h. Guðvarðar Kjartanssonar og Sveinbjargar Hermannsdóttur vegna beiðni um endurskoðun álagningar holræsagjalda.

Bæjarritari upplýsir að bæjarlögmaður Andri Árnason hrl., svaraði umboðsmanni Alþingis með bréfi dagsettu 19. júlí s.l. og lagði afrit þess fram í bæjarráði.

11. Orkubú Vestfjarða. - Fundur með sveitarstjórnum 3. ágúst 2000.

Lagt fram bréf frá Orkubúi Vestfjarða dagsett 6. júlí s.l., þar sem stuttlega er greint frá fundum viðræðunefndar ríkisvaldsins og sveitarfélaga á Vestfjörum um hugsanlegar breytingar á eignaraðild að Orkubúi Vestfjarða.
Í bréfinu er bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar boðuð til fundar með viðræðunefndum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna á Vestfjörðum á Ísafirði þann 3. ágúst n.k. og hefst fundurinn kl. 16:00. Áætlað er að fundurinn standi í um það bil eina klukkustund.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að boða bæjarfulltrúa til fundarins og verði fundurinn haldinn í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

12. Sameining sparisjóða á Vestfjörðum. - Tilkynning til stofnfjáraðila.

Lögð fram sameiginleg tilkynning til stofnfjáreigenda Eyrarsparisjóðs, Sparisjóðs Þingeyrarhrepps, Sparisjóðs Önundarfjarðar og Sparisjóðs Súðavíkur, dagsett 29. júní 2000, um viðræður er fram hafa farið um hugsanlega stofnun ,,Sparisjóðs Vestfirðinga." Í bréfinu segir: ,,Sameiginlegur fundur stjórna, Eyrarsparisjóðs, Sparisjóðs Þingeyrarhrepps, Sparisjóðs Önundarfjarðar og Sparisjóðs Súðavíkur haldinn að Hrafnseyri 29. júní 2000 samþykkir að vinna að sameiningu sjóðanna á grundvelli þeirrar samrunaáætlunar sem lögð var fram á fundinum."

Lagt fram til kynningar.

13. Ísland án eiturlyfja. - Áskrorun um auglýsingu í héraðsblöðum.

Lagt fram bréf frá verkefnisstjórn Íslands án eiturlyfja dagsett 6. júlí s.l., þar sem greint er frá auglýsingaherferð í fjölmiðlum fyrir verslunarmannahelgina þar sem foreldrar verði hvattir til að halda hópinn og senda börn sín ekki eftirlitslaus á útihátiðir og kaupa ekki áfengi fyrir þau. Sveitarfélögin eru hvött til að auglýsa í landshlutablöðum eða blöðum sem gefin eru út í heimabyggð.

Bæjarráð samþykkir að taka þátt í átakinu og felur bæjarritara framkvæmd á málinu.

14. Landsbyggðin lifi. - Undirbúningur að stofnun landssamtaka.

Lagt fram kynningarbréf frá formanni undirbúningsnefndar að landssamtökunum ,,Landsbyggðin lifi" dagsett 4. júlí s.l., þar sem kynnt eru forsaga málsins og helstu markmið væntanlegra samtaka.

Lagt fram til kynningar.

15. Forsætisráðuneytið. - Áhrif upplýsingalaga.

Lagt fram bréf frá forsætisráðuneyti dagsett 11. júlí s.l. Bréfið er skrifað til þáttakenda er valdir hafa verið í könnun á áhrifum upplýsingalaga. Lögð er áhersla á þátttöku allara sem leitað er til og að vandað verði til úrlausnar og útfyllingar meðfylgjandi gagna.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.

16. Hagstofa Íslands. - Búferlaflutningar janúar - júní 2000.

Lagt fram bréf frá Hagstofu Íslands dagsett 14. júlí s.l., varðandi búferlaflutning á Íslandi janúar - júní 2000.

Lagt fram til kynningar.

17. Vinnumálastofnun. - Yfirlit yfir atvinnuástand júní 2000.

Lagt fram bréf frá Vinnumálastofnun dagsett 14. júlí s.l., yfirlit yfir atvinnuástand í júní 2000.

Lagt fram til kynningar.

 

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:00

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.