Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

206. fundur

Árið 2000, mánudaginn 26. júní kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

Guðni G. Jóhannesson setti fundinn og bauð nýkjörna bæjarráðsmenn velkomna til starfa.

Fram fór kosning formanns og varaformanns bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir bar fram svohljóðandi tillögu. ,,Legg til að Guðni G. Jóhannesson verði kjörinn formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar næsta starfsár." Fleiri tillögur komu ekki fram og skoðast Guðni því rétt kjörinn.

Guðni G. Jóhannesson bar fram svohljóðandi tillögu. ,,Legg til að Birna Lárusdóttir verði kjörin varaformaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar næsta starfsár." Fleiri tillögur komu ekki fram og skoðast Birna því rétt kjörin.

  1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 20/6.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

  1. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. - Skýrsla starfsársins 1999. Fundargerð 34. stjórnarfundar.

Lagt fram bréf Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða dagsett 15. júní s.l., ásamt skýrslu starfsársins 1999 hjá Atvinnuþróunarfélaginu. Jafnfram er fram lögð fundargerð 34. stjórnarfundar Atvinnuþróunarfélagsins er haldinn var þann 12. maí 2000.
Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

  1. Félagsmálaráðuneytið. - Nefnd um úttekt á leigumarkaði.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 14. júní s.l., um skýrslur nefndar er unnið hefur á vegum félagsmálaráðuneytis um úttekt á leigumarkaði. Nefndin hefur skilað af sér eftirtöldum skýrslum.
1. Könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði. Félagsmálaráðuneyti - Íbúðalánasjóður.
2. Nefnd um leigumarkað og leiguhúsnæði. Greinargerð og tillögur.

Bæjarráð óskar eftir að skýrslurnar verði lagðar fyrir næsta fund bæjarráðs.

  1. Minnisblað bæjarstjóra. - Samningur við BB.is

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 22. júní s.l., þar sem bæjarstjóri gerir grein fyrir drögum að samstarfssamningi um aðgang að fréttavef H-prents ehf., bb.is

Bæjarráð samþykkir að gengið verði til samninga við H-prent ehf. og undirritaður samningur komi fyrir bæjarráð.

  1. Bréf bæjarverkfræðings. - Bifreiðakostur Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram bréf Ármanns Jóhannessonar, bæjarverkfræðings, dagsett 19. júní s.l., þar sem hann að ósk bæjarstjóra gerir grein fyrir bifreiðakosti Ísafjarðarbæjar. Samkvæmt hjálögðum lista eru 12 bifreiðar í eigu Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna hvort möguleiki er á að flytja til bifreiðar innan stofnana bæjarins.

6. Afrit bréfs bæjarstjóra til Byggðastofnunar. - Borholur í Reykjanesi.

Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 20. júní s.l., til Byggðastofnunar, þar sem bæjarstjóri gerir athugasemdir við fyrirhugaðar lokanir á borholum í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.

Lagt fram til kynningar.

7. Héraðssamband Vestfirðinga. - Styrkir til ÍBÍ og HVÍ.

Lagt fram bréf frá Héraðssambandi Vestfirðinga dagsett 9. júní 2000, þar sem þess er óskað að styrkveitingar til ÍBÍ og HVÍ frá Ísafjarðarbæ fyrir árin 1999 og 2000 verði greiddir á næstu 4 mánuðum. Hjálagt fylgja bréfinu lög Héraðssambands Vestfirðinga (HSV).

Bæjarráð vekur athygli á misræmi í nöfnum sambandsins, annars vegar í ofangreindu bréfi og hins vegar í meðfylgjandi lögum.
Bæjarráð samþykkir greiðslutilhögun bréfsins og vísar erindinu til fjármálastjóra.

8. Skáksamband Íslands. - Helgarskákmót.

Lagt fram tölvubréf frá Skáksambandi Íslands dagsett 20. júní s.l., þar sem sambandið óskar eftir styrk að upphæð kr. 200.000.- til að halda helgarskákmót í Ísafjarðarbæ á þessu ári.

Bæjarráð telur sér ekki fært að koma að framtakinu með beinum fjárframlögum, en lýsir bæjarfélagið reiðubúið að aðstoða við undirbúning og framkvæmd að slíku móti með öðrum hætti.

9. Bréf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa. - Launamál forstöðumanna félagsmiðstöðvar og vinnuskóla.

Lagt fram bréf Björns Helgasonar, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, dagsett 20. júní s.l., þar sem hann óskar eftir staðfestingu bæjarstjórnar á tillögum um niðurröðun forstöðumanna félagsmiðstöðvar og vinnuskóla í launaflokka.
Einnig er fram lagt minnisblað bæjarritara er varðar málið.

Bæjarráð vísar erindi íþrótta- og æskulýðsfulltrúa til starfsmatsnefndar og starfskjaranefndar.

10. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. - Atvinnuvegasýning 2000.

Lagt fram dreifibréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða þar sem greint er frá að félagið muni standa fyrir atvinnuvegasýningu Vestfjarða dagana 22.-24. september næstkomandi í íþróttahúsinu á Torfnesi Ísafirði, ef næg þátttaka fæst. Tilkynna skal þátttöku fyrir 30. júní n.k.

Bæjarráð vísar erindinu til nefnda Ísafjarðarbæjar. Jafnframt verði farið fram á lengri frest til staðfestingar.

11. Samb. ísl. sveitarf. - Kynnisferðir Staðardagskrárfólks.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. Stefáni Gíslasyni, verkefnisstjóra Staðar- dagskrár 21 á Íslandi, dagsett 16. júní s.l. Þar er greint frá ferð Staðardagskrárfólks til Svíþjóðar á s.l. ári og væntanlegri ferð nú í haust til hugsanlega Danmerkur, suðurhluta Noregs og Svíþjóðar. Áætla má að kostnaður hvers þátttakanda sé ekki undir kr. 120.000.- það er allur ferðakostnaður og gisting. Slík ferð gæti tekið um viku tíma.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og sent Staðardagskrárfulltrúa til upplýsinga.

12. Bréf bæjarverkfræðings. - Vatnsveita að Höfða, Skutulsfirði.

Lagt fram bréf Ármanns Jóhannessonar, bæjarverkfræðings, dagsett 23. júní s.l., í framhaldi af erindi Guðbjarnar Charlessonar lagt fram í bæjarráði 19. júní s.l. og varðar vatnsveitu að Höfða í Skutulsfirði.
Í bréfi bæjarverkfræðings kemur fram að Ísafjarðarbær á í dag hlöðu að Kirkjubæ í Skutulsfirði, sem notuð er sem geymsla og þar sé ekki þörf á að hafa aðgang að vatni. Jafnframt kemur fram í bréfi bæjarverkfræðings að 9. september 1998 fékk Guðbjörn heimild til að leggja á sinn kostnað vatnslögn úr vatnslögninni sem liggur út á flugvöll og nýta vatn sér til handa. Bæjarverkfræðingi er ekki kunnugt um að Guðbirni hafi verið heimilað að veita vatni til þriðja aðila.

Bæjarráð hafnar þátttöku í kostnaði við lögn vatnsveitu að Höfða í Skutulsfirði, með tilvísun til erindis Guðbjarnar Charlessonar samkvæmt bréfi dagsettu 13. júní s.l. og lagt var fram í bæjarráði 19. júní s.l.

13. Lánasjóður sveitarfélaga. - Úthlutun lána 2000.

Lagt fram bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga dagsett 21. júní s.l., þar sem greint er frá lánveitingu til Ísafjarðarbæjar upp á kr. 50.000.000,- Lánið er í íslenskum krónum með breytilega vexti nú 4.5% með vísitölu neysluverðs og til allt að 15 ára.

Bæjarráð samþykkir lántökuna með þeim lánskjörum sem í boði eru og veitir tryggingu í tekjum sveitarfélagsins vegna lántökunnar sbr. 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998

 

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:14

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.