Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

205. fundur

Árið 2000, mánudaginn 19. júní kl. 17:30 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 13/6.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefndar 15/6.
Fundargerðin er í ellefu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 14/6.
Fundargerðin er í ellefu liðum.
1. liður. Bæjarráð lítur svo á að frágangur við Fitjateig, Smárateig og Árvelli sé hluti af snjóflóðavörnum á svæðinu og því er bæjarstjóra falið að sækja um styrk til lokafrágangs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Minnisblað bæjarstjóra. - Starfsfólk á þjónustudeild Hlífar.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 16. júní s.l., þar sem hann gerir grein fyrir niðurstöðum starfshóps um úttekt á málefnum Hlífar og tillögum er starfshópurinn leggur fyrir félagsmálanefnd, er teknar verða fyrir á næsta fundi félagsmálanefndar til yfirferðar.

Öðrum lið í minnisblaði bæjarstjóra er vísað sérstaklega til bæjarráðs, en hann hljóðar svo: „Þjónustudeild Hlífar starfsmannamál, leiðrétting launa. Nefndin vísar beiðni starfsmanna á þjónustudeild til bæjarráðs sem fer með launamál með vísan til RAI matsins til viðmiðunar.“

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma með tillögu að launabreytingu.

3. Samb. ísl. sveitarf. - Kjarasamningur við ASV.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf., dagsett 8. júní s.l., ásamt kjarasamningi er Launanefnd sveitarfélaga hefur gert við Alþýðusamband Vestfjarða, dagsettur 7. júní 2000. Samningurinn gildir til 31. desember 2000 og fellur úr gildi án sérstakrar uppsagnar.

Bæjarráð bendir á að kjarasamningurinn barst ekki fyrr en 15. júní s.l., en samkvæmt ákvæðum hans hefur hann nú þegar tekið gildi. Bæjarráð mælir með samþykkt samningsins.

4. Erindi Guðbjarnar Charlessonar. - Vatnslagnir að Kirkjubæ og Höfða.

Lagt fram bréf frá Guðbirni Charlessyni, Höfða, Skutulsfirði, dagsett 13. júní s.l., þar sem hann gerir grein fyrir kostnaði kr. 433.440.- við lagningu vatnsveitu að Kirkjubæ og Höfða í Skutulsfirði. Bréfritari fer fram á að kostnaði verði skipt upp í fimm hluta. Fallist allir eignaraðilar ekki á þá skiptingu verði lokað fyrir vatn til Kirkjubæjarhúsa.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarverkfræðings til umsagnar.

5. Samb. ísl. sveitarf. - Aðstoð við gerð Staðardagskrár 21.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf., dagsett 9. júní s.l., í bréfinu eru sveitarfélög sem óska eftir aðstoð verkefnisstjóra Stefáns Gíslasonar við gerð Staðardagskrár 21, hvött til að staðfesta slíkt bréflega við verkefnisstjóra. Þetta gildir einnig um þau sveitarfélög sem tekið hafa þátt í verkefninu frá upphafi.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að staðfesta áframhaldandi aðstoð vegna Staðardagskrár 21.

6. Fundargerð samstarfsnefnda leikskólakennara.

Lögð fram fundargerð 46. fundar samstarfsnefndar Félags ísl. leikskólakennara og Launanefndar sveitarfélaga frá 5. júní 2000.

Lagt fram til kynningar.

7. Fundargerð samstarfsnefndar Samflots og Launanefndar sveitarfélaga.

Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar Samflots og Launanefndar sveitarfélaga frá 12. fundi er haldinn var þann 7. júní 2000.

Lagt fram til kynningar.

8. Fundargerð Launanefndar sveitarfélaga.

Lögð fram fundargerð Launanefndar sveitarfélaga frá 148. fundi er haldinn var þann 25. maí s.l., að Háaleitisbraut 11, Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

9. Minnisblað bæjarstjóra. - Samningaviðræður um launamál við tónlistarkennara og leikskólakennara.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 16. júní s.l., þar sem bæjarstjóri gerir grein fyrir viðræðum við tónlistarkennara og leikskólakennara undanfarið. Bæjarstjóri gerir sérstaklega grein fyrir því að hann hafi skrifað leikskólakennurum bréf og gert þeim grein fyrir því að ekki sé hægt að halda áfram viðræðum við leikskólakennara og ófaglærða í einum hópi, þar sem samningaviðræðum við ófaglært starfsfólk í FOS Vest og verkalýðsfélögum er lokið og búið er að semja til áramóta við FOSVest og ASV.

Lagt fram til kynningar.

10. Byggðastofnun. - Ræða formanns á ársfundi.

Lögð fram ræða stjórnarformanns Byggðastofnunar Kristins H. Gunnarssonar, er flutt var á ársfundi stofnunarinnar.

Lagt fram til kynningar.

11. Skrúður. - Yfirlit um störf framkvæmdasjóðs Skrúðs.

Lagt fram bréf frá stjórn framkvæmdasjóðs Skrúðs, dagsett 13. júní s.l., þar sem gerð er grein fyrir störfum framkvæmdasjóðs Skrúðs, ásamt framkvæmdaáætlun sem nefndin mun vinna eftir á næstu misserum og árum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við formann framkvæmdanefndar Skrúðs.

12. Áskorun íbúa við Hlíðargötu á Þingeyri.

Lögð fram svohljóðandi áskorun íbúa við Hlíðargötu á Þingeyri, dagsett 12. júní 2000. „Við undirritaðir íbúar við Hlíðargötu á Þingeyri, förum þess á leit við viðkomandi yfirvöld að götunni verði lokað fyrir bílaumferð vegna hraðrar keyrslu sem veldur óþolandi moldryki.“

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarverkfræðings.

13. Ásthildur E. Bernharðsdóttir. - Ritgerð um áfallastjórnun.

Lagt fram bréf frá Ásthildi Elvu Bernharðsdóttur, Melgerði 37, Kópavogi, dagsett 8. júní s.l., þar sem bréfritari gerir grein fyrir að hafa lokið rannsókn á áfallastjórnun til meistaraprófs í opinberri stjórnsýslu og stefnumótun við Háskóla Íslands. Ritgerð þar um er boðin stofnunum, félögum og samtökum til kaups fyrir kr. 25.000.-

Bæjarráð samþykkir að kaupa eitt eintak af ritgerðinni.

14. Orkubú Vestfjarða. - Breytingar á eignarhaldi.

Lagt fyrir bæjarráð að nýju bréf Þorsteins Jóhannessonar, formanns stjórnar Orkubús Vestfjarða, dagsett 30. maí s.l., þar sem gerð er grein fyrir viðræðum við fulltrúa ríkisvaldsins um breytt eignarhald Orkubúsins og hugsanlega breytingu félagsins í hlutafélag.

Bæjarráð vísar frekari umræðu um erindið til bæjarstjórnar.

15. Erindi tæknideildar. - Ásgeirsgata Ísafirði, 2. áfangi.

Lagt fram bréf Sigurðar Mar Óskarssonar, tæknideild, dagsett 16. júní s.l., er varðar tilboð í útboðsverkið „Ásgeirsgata Ísafirði, 2. áfangi.“ Aðeins barst eitt tilboð í verkið frá Stíg Arnórssyni, Ísafirði, að upphæð kr. 3.946.237.-. Kostnaðaráætlun lá ekki fyrir við opnun tilboðs.
Lagt er til að tilboðinu verði tekið og gengið til samninga við Stíg Arnórsson.

Bæjarráð leggur til að tilboðinu verði tekið og gengið verði til samninga við Stíg Arnórsson.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:25

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.