Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

204. fundur

Árið 2000, þriðjudaginn 13. júní kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Rekstrarúttekt hafna og áhaldahúsa Ísafjarðarbæjar. - Minnisbl. bæjarstj.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 9. júní s.l., vegna rekstrarúttektar hafna og áhaldahúsa Ísafjarðarbæjar. Minnisblaði bæjarstjóra fylgir greinargerð Árna Traustasonar hjá Verkfræðiskrifstofu Sig. Thoroddsen á Ísafirði.

Bæjarráð vísar minnisblaði bæjarstjóra og greinargerð Árna Traustasonar til hafnarstjórnar og umhverfisnefndar.

2. Ráðningarsamningur yfirmanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Minnisblað bæjarstjóra.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 9. júní s.l., þar sem hann gerir grein fyrir að samkomulag um ráðningarkjör hafi náðst við Ingibjörgu Maríu Guðmundsdóttur, yfirmann nýrrar Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að fram lagður ráðningarsamningur í bæjarráði verði samþykktur.

3. Minnisblað bæjarstjóra. - Sumarleyfi bæjarstjóra.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 9. júní s.l., þar sem bæjarstjóri greinir frá væntanlegu sumarleyfi sínu frá 26. júní til 7. júlí n.k. Aðrar áætlanir um sumarleyfi hafa ekki verið gerðar af hálfu bæjarstjóra.

Lagt fram til kynningar.

4. Kerfisleiga frá Vestmark ehf. - Minnisblað bæjarstjóra.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 9. júní s.l., þar sem hann gerir grein fyrir samningsdrögum um kerfisleigu milli Vestmarks ehf. og Ísafjarðarbæjar. Með samningnum færir Ísafjarðarbær rekstur og vistun á forritum og gögnum yfir í miðlægt tölvuver og rekur þar með ekki lengur miðlægan  „server.“
Minnisblaði bæjarstjóra fylgja drög að ofangreindum samningi.

Bæjarráð heimilar bæjarstjóra að ganga til frekari samninga við Vestmark ehf.

5. Félagsmálaráðuneytið. - Úrskurður í kærumáli Guðvarðar Kjartanssonar.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 5. júní s.l., ásamt úrskurði ráðuneytisins í kærumáli Guðvarðar Kjartanssonar, Egilsbraut 30, Þorlákshöfn, vegna höfnunar Ísafjarðarbæjar á uppkaupum íbúðar Guðvarðar að Hjallavegi 5, Flateyri.
Úrskurðarorð eru svohljóðandi. „Ákvörðun Ísafjarðarbæjar frá maí 1999 um að synja beiðni Guðvarðar Kjartanssonar um kaup bæjarins á íbúð Guðvarðar Kjartanssonar, að Hjallavegi 5, efri hæð, Flateyri, Ísafjarðarbæ, er staðfest.“

Lagt fram til kynningar.

6. Erindi Guðmundar K. Finnbogasonar. - Forkaupsréttur.

Lagt fram bréf frá Guðmundi K. Finnbogasyni, Sundstræti 34, Ísafirði, dagsett 6. júní s.l., þar sem hann býður Ísafjarðarbæ forkaupsrétt að sumarhúsalóð í Tunguskógi. Nánar tiltekið lóð nr. 64.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarverkfræðings til umsagnar.

7. Þingflokkur Samfylkingarinnar. - Þakkarbréf.

Lagt fram bréf frá þingflokki Samfylkingarinnar, dagsett 5. júní s.l., þar sem þakkað er fyrir móttökur og fund með bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar í heimsókn Samfylkingarinnar til Ísafjarðarbæjar vikuna áður.

Lagt fram til kynningar.

8. Íslenska myndasafnið. - Ljósmyndaaskja um Ísafjarðarkaupstað.

Lagt fram bréf frá Íslenska myndasafninu, dagsett 2. júní s.l., þar sem greint er frá verkefninu „Ísland í eina öld.“ Stefnt er að því að ljúka við myndaöskjuna „Ísland í eina öld - Ísafjörður“ um mánaðamótin júní/júlí n.k. og að þá verði jafnframt sett upp ljósmyndasýning í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Íslenska myndasafnið beinir því erindi til bæjarstjórnar hvort Ísafjarðarbær geti stutt framtakið með kaupum á myndaöskjum og/eða myndum á sýningunni sjálfri.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við fulltrúa Íslenska myndasafnsins.

9. Bréf Ármanns Jóhannessonar, bæjarverkfræðings. - Starfsuppsögn.

Lagt fram bréf frá Ármanni Jóhannessyni, bæjarverkfræðingi, dagsett 6. júní s.l., þar sem hann segir stöðu sinni lausri frá og með 1. júlí n.k. og óskar jafnfram eftir að sumarleyfi verði tekið inn í uppsagnarfrest. Ármann óskar Ísafjarðarbæ alls velfarnaðar í framtíðinni og þakkar bæjarstjóra og bæjarstjórn fyrir samstarfið undanfarin ár.

Bæjarráð þakkar Ármanni fyrir störf hans í þágu Ísafjarðarbæjar og óskar honum velfarnaðar í nýju starfi.

10. Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands. - Styrktarsjóður EBÍ.

Lagt fram bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands dagsett 1. júní s.l., ásamt reglum fyrir Styrktarsjóð EBÍ, sem samþykktar voru á stjórnarfundi félagsins 9. maí 1996.
Þeim aðildarsveitarfélögum er hug hafa á að sækja um styrk úr sjóðnum er bent á að umsóknir þurfa að berast fyrir lok ágúst n.k.

Bæjarráð sendir erindið til nefnda Ísafjarðarbæjar og óskar eftir hugmyndum að verkefnum.

11. Erindi bæjarverkfræðings. - Ofanflóðamannvirki í Ísafjarðarbæ.

Lagt fram bréf frá Ármanni Jóhannessyni, bæjarverkfræðingi, dagsett 26. maí s.l., þar sem hann gerir grein fyrir kostnaði vegna framkvæmda við ofanflóðavarnir á þessu ári og að ekki sé gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárhagsáætlun ársins 2000.
Áætlaður heildar kostnaður er kr. 4.170.000.- og er þess farið á leit að veitt verði aukafjárveiting fyrir þeim kostnaði. Reikna má með að þátttaka ríkisins í kostnaði verði 90% og Ísaafjarðarbæjar 10%

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að heimiluð verði aukafjárveiting að upphæð kr. 4.170.000.-

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:50

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.