Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

202. fundur

Árið 2000, mánudaginn 29. maí kl.17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Starfshópur um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðis á Ísafirði 22/5.
Bæjarráð vísar 3. lið til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Fasteignamat á Hornströndum. - Minnisblað bæjarverkfræðings.

Lagt fram minnisblað Ármanns Jóhannessonar, bæjarverkfræðings, dagsett þann 19. maí s.l., ásamt minnisblaði Stefáns Brynjólfssonar, byggingarfulltrúa, dagsettu 28. apríl s.l., varðandi fasteignamat á Hornströndum. Lagt er til að í matið verði farið og kostnaður bókist af fjárveitingu til endurmats fasteigna í Önundarfirði og Dýrafirði.

Með tilvísun til samþykktar bæjarráðs á síðasta ári, þar sem lögð var áhersla á nauðsyn þess að skrá fasteignir norðan Ísafjarðardjúps, leggur bæjarráð til að tillagan verði samþykkt.

3. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið. - Niðurlagning sjóða.

Lagt fram bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti dagsett 22. maí s.l., þar sem greint er frá bréfi Guðmundar Björgvinssonar, Brimnesvegi 24, Flateyri, dagsettu 3. maí s.l., ásamt afriti af bréfi nokkurra afkomenda stofnenda þriggja sjóða, sem eru í vörslu Ísafjarðarbæjar og til stendur að leggja niður.
Ráðuneytið bendir á að áður en staðfestir sjóðir eru lagðir niður eða þeir sameinaðir, skal bera tillögu stjórna viðkomandi sjóða þess efnis undir ráðuneytið til staðfestingar. Jafnframt ber að fara eftir óskum stofnenda svo sem unnt er.

Lagt fram til kynningar.

4. Bréf Péturs Á. Jónssonar. - Beitarland í Engidal.

Lagt fram bréf frá Pétri Á. Jónssyni, Fjarðsrstræti 55, Ísafirði, dagsett 25. maí s.l., varðandi beiðni um beitarland í Engidal, Skutulsfirði.

Bæjarráð vísar erindinu til landbúnaðar- og umhverfisnefnda með beiðni um að samdar verði reglur um úthlutun beitarlands í eigu Ísafjarðarbæjar.

5. Kvenfélagið Hvöt í Hnífsdal. - Umhverfismál í Hnífsdal.

Lagt fram bréf frá Kvenfélaginu Hvöt í Hnífsdal, dagsett 25. maí s.l., varðandi umhverfismál í Hnífsdal. Í bréfinu er bent á ýmislegt varðandi umhverfismál í Hnífsdal er betur má fara.

Bæjarráð þakkar Kvenfélaginu Hvöt í Hnífsdal ítrekaðar og þarfar ábendingar.

Bæjarráð vísar 1. og 2. lið bréfsins til umhverfisnefndar með beiðni um áætlun og tillögu til úrbóta. 3. til og með 7. lið er vísað til bæjarverkfræðings. Bæjarráð leggur áherslu á að tekið verði á þeim atriðum, sem bent er á í ofangreindu bréfi með samvinnu þeirra stofnana Ísafjarðarbæjar, sem málið varðar.

6. Fræðslumiðstöð Vestfjarða. - Samningur við Háskólann á Akureyri.

Lagt fram bréf frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, ódagsett, þar sem tilkynnt er um að á mánudaginn 29. maí 2000, verði undirritað samkomulag á milli Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Háskólans á Akureyri. Samkomulagið felur í sér umsjón Fræðslumiðstöðvar með fjarnámi á háskólastigi, sem Háskólinn á Akureyri býður upp á. Á skólaárinu 2000-2001 mun Háskólinn á Akureyri bjóða upp á fjarnám í hjúkrunarfræði, leikskólakennarafræði og „nútímafræði“, sem er 30 eininga nám í almennum hugvísindum.

Bæjarstjóri lagði fram undir þessum lið samkomulag milli Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Ísafjarðarbæjar er gert var fyrr í dag, um þátt Ísafjarðarbæjar í starfrækslu háskólanáms á Ísafirði. Samkomulagið undirritað með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð fagnar samkomulaginu og leggur til við bæjarstjórn að það verði samþykkt.

7. Byggðastofnun. - Afgreiðsla styrkumsóknar.

Lagt fram bréf frá Byggðastofnun dagsett 23. maí s.l., þar sem tilkynnt er að umfjöllun um umsókn um styrk til ráðgjafar í atvinnumálum hefur verið frestað þar sem fjármagn er ekki fyrir hendi.

Bæjarráð lítur svo á að umsókn Ísafjarðarbæjar um kr. 100.000.- styrk til ráðgjafar í atvinnumálum verði afgreidd með jákvæðum hætti á hausti komanda.

8. Tónlistarfélag Ísafjarðar. - Beiðni um niðurfellingu fasteignaskatts.

Lagt fram bréf frá Tónlistarfélagi Ísafjarðar dagsett 19. maí s.l., þar sem óskað er eftir að álagður fasteignaskattur á Austurveg 11, Ísafirði, verði felldur niður. Þegar hefur verið felldur niður fasteignaskattur af hluta eignarinnar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna að málinu í samræmi við gildandi samning um niðurfellingu fasteignaskatta.

9. Erindi Skógarbúa í Tunguskógi.-Mótmælt álagningu sorpeyðingargjalds.

Lagt fram bréf frá Félagi skógarbúa í Tunguskógi dagsett 24. maí s.l., þar sem mótmælt er álagningu á sorpeyðingargjaldi á sumarhúsaeigendur í Tunguskógi.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að útskýra álagningu sorpeyðingargjalds á sumarhús.

10. Erindi félagsmálastjóra. - Aukafjárveiting vegna liðveislu.

Lagt fram bréf frá Kjell Hymer, félagsmálastjóra, dagsett 23. maí s.l., þar sem gerð er grein fyrir stöðu fjármála varðandi liðveislu og með tilvísun í samþykkt bæjarráðs á 195. fundi 3. apríl s.l., er óskað eftir aukafjárveitingu á liðinn liðveisla 02-07-439-1, eins og ráð var fyrir gert í afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við félagsmálastjóra. Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

11. Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga. - Kjaramál.

Lagt fram bréf frá Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga, dagsett þann 18. maí s.l., er varðar kjarasamninga við bókasafnsfræðinga innan félagsins, starfandi hjá Ísafjarðarbæ, svo og greiðslu félags- og sjóðagjalda til stéttarfélagsins.

Bæjarráð bendir á að starfsmenn Ísafjarðarbæjar í ofangreindu bréfi fá greidd laun eftir gildandi samningi við F.O.S Vest til 31. desember n.k. Þar af leiðir skal greiðsla stéttarfélagsgjalda fara samkvæmt gildandi samningi.

12. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Málþing ný kjördæmaskipan.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 24. maí s.l., þar sem boðað er til málþings um stöðu Vestfirðinga í nýju kjördæmi. Málþingið verður haldið í Félagsheimilinu á Þingeyri á uppstigningardag þann 1. júní n.k. og hefst kl. 13:00

Allir bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar fengu fundarboðið með bæjarráðsgögnum.

13. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Kynningardiskur "Iceland Complete".

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, dagsett 17. maí s.l., þar sem gerð er grein fyrir útkomu kynningardisksins "Iceland Complete" og dreifingu hans.

Lagt fram til kynningar.

14. Bylgjulestin 2000. - Auglýsingasamningur.

Lagt fram bréf frá Íslenska útvarpsfélaginu hf., Reykjavík, dagsett 22. maí s.l., þar sem boðið er upp á auglýsingasamning í tilefni að komu Bylgjulestarinnar 2000 til Ísafjarðarbæjar þann 29. júlí n.k. Samningsfjárhæð yrði kr. 200.000.- fyrir utan vsk.

Bæjarráð telur sér ekki fært að gera slíkan samning.

15. Búum til betri byggð. - Verkefni um búsetuþætti á landsbyggðinni.

Lagt fram bréf dagsett 3. maí s.l., frá samstarfshópi um verkefnið „Búum til betri byggð“ á vegum þróunarsviðs Byggðastofnunar. Verkefnið er um búsetuþætti á landsbyggðinni. Bréfinu fylgja ályktanir vorfundar atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni er haldinn var 10. og 11. apríl s.l.

Lagt fram til kynningar.

16. Verksamningur um sorphirðingu í Ísafjarðarbæ.

Lögð fram drög að verksamningi um sorphirðingu í Ísafjarðarbæ á milli Ísafjarðarbæjar og Gámaþjónustu Vestfjarða. Endurnýjun á eldra samkomulagi. Gert er ráð fyrir að samningurinn gildi frá 1. júní 2000 til 31. maí 2005.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að verksamningurinn verði samþykktur með þeim fyrirvara að uppsagnarákvæði verði sett inn í samninginn.

17. Launanefnd sveitarfélaga. - Endurupptekið erindi frá 197. fundi bæjarráðs

Lagt fyrir bæjarráð að nýju bréf Launanefndar sveitarfélaga, dagsett 5. apríl s.l., þar sem greint er frá erindi formanns Launanefndar, er haldið var á fulltrúaráðsfundi Samb. ísl. sveitarf. þann 31. mars s.l., um endurskoðun og breytingar á samþykktum Launanefndar. Bréfinu fylgja samþykktir fyrir Launanefnd sveitarfélaga er gilda frá 31. mars 2000.

Bæjarráð vísar ákvörðun til bæjarstjórnar og óskar upplýsinga um hve mörg sveitarfélög hafa staðfest samkomulag við Launanefnd.

18. Starfshópur um vímuvarnir. - Fundarboð þriðjudaginn 30. maí n.k.

Lagt fram bréf, dagsett 23. maí s.l., frá starfshópi er vinnur í umboði bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að mótun vímuvarnarstefnu. Í bréfinu er boðað til fundar þriðjudaginn 30. maí n.k. kl. 17:00 á fjórðu hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Tilefni fundarins er að kynna drög að vímuvarnastefnu bæjarins ásamt því að gefa bæjarfulltrúum, bæjarstjóra, nefndarmönnum í félagsmála- og fræðslunefndum, kost á að koma á framfæri athugasemdum við drögin.

Lagt fram til kynningar.

19. Launanefnd sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga.

Lagt fram samkomulag Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga, dagsett 15. maí s.l., þar sem nefndirnar eru sammála um skilning á 3. gr. kjarasamnings aðila frá 4. maí s.l. Skilningurinn greindur sérstaklega í ofangreindu samkomulagi.

Lagt fram til kynningar.

20. Félagsmálaráðuneytið. - Erindi um þarfir innflytjenda hér á landi.

Lagt fram bréf félagsmálaráðuneytis dagsett, 22. maí s.l., þar sem greint er frá athugun ráðuneytisins á þörfum innflytjenda hér á landi. Óskað er eftir upplýsingum frá sveitarfélögum hvort sérstakar aðgerðir séu í gangi á vegum þeirra eða fyrirhugaðar á næstunni sem miða að því að bæta hagi og aðstæður innflytjenda.

Bæjarráð óskar eftir greinargerðum frá félagsmálanefnd og fræðslunefnd.

21. Samb. ísl. sveitarf. - Ráðstefna um hamfarir og neyðarviðbrögð.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf., dagsett 18. maí s.l., þar sem minnt er á alþjóðlega ráðstefnu er haldin verður dagana 27.-30. ágúst n.k. um hamfarir og neyðarviðbrögð, í Háskólabíói á vegum Samb. ísl. sveitarf. og umhverfisráðuneytis, en Slysavarnafélagið Landsbjörg aðstoðar einnig við undirbúning hennar.

Lagt fram til kynningar.

22. Skólaskrifstofa Vestfjarða. - Fyrsti fundur skiptastjórnar 18. maí 2000.

Lögð fram fundargerð fyrsta fundar skiptastjórnar Skólaskrifstofu Vestfjarða er haldinn var þann 18. maí 2000.

Lagt fram til kynningar.

23. Heilbrigðisnefnd Vestfjarða. - Fundargerð 14. fundar 19. maí 2000.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, dagsett 23. maí s.l., ásamt fundargerð Heilbrigðisnefndar Vestfjarða frá 14. fundi er haldinn var þann 19. maí s.l.

Lagt fram til kynningar.

24. Erindi félagsmálastjóra. - Fjárhagsaðstoð. Gæsluvöllur Túngötu, Ísafirði.

Lagt fram bréf frá Kjell Hymer, félagsmálastjóra, dagsett 26. maí s.l., þar sem hann annars vegar gerir grein fyrir hvað framlög til fjárhagsaðstoðar og barnaverndarmála stefna í að far fram úr fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2000 og hins vegar hvernig gert er ráð fyrir fjármögnun við rekstur á gæsluvellinum við Túngötu á Ísafirði nú í sumar.
Bréfinu fylgir samanburðaryfirlit á milli áranna 1999 og 2000, fyrstu fimm mánuði áranna, á veittri félagslegri aðstoð, samkvæmt gögnum hjá félagssviði. Ennfremur fylgir afrit af bréfi til bæjarráðs dagsett 9. desember 1999, er varðar fjárhagsaðstoð samkvæmt frumvarpi fyrir árið 2000.
Samkvæmt upplýsingum félagsmálastjóra telur hann sig geta rekið gæsluvöll við Túngötu á Ísafirði án sérstakra fjárveitinga.

Bæjarráð vísar erindi um fjárhagsaðstoð og barnaverndarmála til endurskoðunar á fjárhagsáætlun.

25. Erindi bæjarverkfræðings. - Aukafjárveiting vegna bifreiðakaupa.

Lagt fram erindi frá Ármanni Jóhannessyni, bæjarverkfræðingi, dagsett 26. maí s.l., þar sem hann gerir grein fyrir að bifreið staðarverkstjóra á Þingeyri sé óökufær og kostnaður við viðgerð sé um kr. 400.000.- Gert var ráð fyrir kaupum á bifreið fyrir áhaldahúsið á Þingeyri við vinnu umhverfisnefndar að fjárhagsáætlun 2000, en við afgreiðslu bæjarstjórnar var þessi fjárveiting felld niður.
Í framhaldi af ofangreindu er óskað eftir aukafjárveitingu að upphæð kr. 800.000.- til kaupa á notaðri bifreið fyrir áhaldahúsið á Þingeyri.

Bæjarráð óskar eftir upplýsingum um bílakost í eigu Ísafjarðarbæjar og ástand hans.

Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:45

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Jón Reynir Sigurvinsson. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.