Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

197. fundur

Árið 2000, mánudaginn 17. apríl kl. 10:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 12/4.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 11/4.
Fundargerðin er í sex liðum.
1. liður. Bæjarráð frestar ákvörðun að sinni.
5.  liður. Bæjarráð bendir á að það beri að skrá nöfn umsækjenda um stöður hjá Ísafjarðarbæ.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 11/4.
Fundargerðin er í fimm liðum.
1. liður. Sigurður R. Ólafsson lagði fram svohljóðandi bókun.

,,Á 108. fundi umhverfisnefndar óskaði nefndin eftir áliti hafnarsjórnar á fyrirhugaðri breyttri notkun lóðarinnar að Sindragötu 5, Ísafirði. Hafnarstjórn kemur sér alfarið undan svari, vísar einungis til að aðal- og deiliskipulag hafnarsvæðisins kveði á um nýtingu svæðisins til hafnsækinnar starfsemi. Í annað skipti á örstuttum tíma er athafnamönnum neitað um fyrirgreiðslu á hafnarsvæðinu, höfnun sem samrýmist ekki opinberri stefnu Ísafjarðarbæjar í stjórnsýslu. Í fyrra skiptið var um að ræða arkitekt sem allar líkur benda til að hefði ynnt af hendi ótal störf í tengslum við sjávarútveg. Nú er um að ræða ósk um sundaðstöðu og heilsurækt. Útgerðarhættir eru að breytast hér í bæ frá skuttogaravæðingu yfir í útgerð smærri báta. Því er brýn nauðsyn að að koma upp mannsæmandi aðstöðu í hreinlætismálum á hafnarsvæðinu. Það er furðuleg túlkun jafnræðisreglu að hér í Ísafjarðarhöfn, skuli aðilum vera neitað um aðstöðu, sem að mínu mati telst án nokkurs vafa til hafnsækinnar, en á sama tíma heimilar bæjarstjórn hesthús á öðru hafnarsvæði innan bæjarfélagsins. Ég viðurkenni að ég þekki ekki til þessa orðskrípis "hafnsækin starfsemi." Ekki fyrirfinn ég þessa orðmyndun í nokkurri orðabók. Þar af leiðandi fer ég þess á leit við formann bæjarráðs, sem jafnframt er formaður hafnarstjórnar, að nánari skilgreining á hugtakinu verði lagt fram á bæjarstjórnarfundi hinn 19. apríl n.k., eða réttara sagt, ég fer fram á upptalningu á öllum þeim atvinnugreinum, sem tilheyra sviðinu. Fyllilega er ljóst að Ísafjarðarbær verður að bregðast með öllum tiltækum ráðum gegn vaxandi fólksflótta frá svæðinu og leita allra leiða til að útvega athafnarými fyrir atvinnuskapandi fyrirtæki.
Ef túlkun bæjaryfirvalda á hugtakinu "hafnsækin starfsemi" er slíkur þrándur í götu fyrir atvinnuuppbyggingu í bæjarfélaginu, er ekkert annað að gera en breyta skipulagi svæðisins, út "hafnsæknu" yfir í "atvinnu- og iðnaðarstarfsemi"."

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarnefnd 13/4.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 12/4.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Starfshóður um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðis á Ísafirði 10/4.
Fundargerðin er í átta liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf bæjarstjóra. - Þingsályktun um nýbúamiðstöð á Vestfjörðum.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 14. apríl sl., drög að umsögn um tillögu til þingsályktunar um nýbúamiðstöð á Vestfjörðum, 190. mál.

Bæjarráð samþykkir neðangreinda umsögn.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mælir með þingsályktunartillögu um stofnun nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum. Hlutfallslega eru margir búsettir í Ísafjarðarbæ af erlendu bergi brotnir. Lögð hefur verið mikil áhersla á það hér í samfélaginu að taka vel á móti þessu fólki og skapa því aðstæður svo þetta fólk geti tekið upp búsetu til langframa. Ísafjarðarbær hafði frumkvæði að því í upphafi ársins 1996 að bjóða til sín flóttamönnum frá fyrrum Júgóslavíu og tókst það vel.

Nauðsynlegt er að skilgreina betur það þjónustuumhverfi sem íbúar svæðisins af erlendu bergi brotnir eiga að hafa aðgang að. Slíkt mun gerast með stofnun nýbúamiðstöðvar. Þá er mikilvægt að nýta þá reynslu sem skapast hefur á Vestfjörðum við móttöku nýbúa fyrir aðra landsmenn. Nýbúamiðstöð eða landsmiðstöð útlendinga staðsett á Vestfjörðum, en sem vinnur fyrir landið í heild, er því hagkvæmur og skynsamlegur kostur.

3. Leigubifreiðastjórar í Ísafjarðarbæ. - Takmörkun leyfa.

Lagt fram bréf frá Sigurði Oddssyni f.h. leigubifreiðastjóra í Ísafjarðarbæ dagsett 14. apríl sl., þar sem óskað er eftir að Ísafjarðarbær leiti eftir því við samgönguráðuneytið að atvinnuleyfi leigubifreiðastjóra í Ísafjarðarbæ verði takmörkuð við 5 til 6 leyfi.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

4. Vinnueftirlit ríkisins. - Vinna barna og unglinga.

Lagt fram bréf frá Vinnueftirliti ríkisins dagsett 12. apríl sl., þar sem vakin er athygli á gildandi reglum um vinnu barna og unglinga samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999, um vinnu barna og unglinga. Tilefni bréfsins er að Vinnueftirlitið hefur haft spurnir af því að til standi að bjóða börnum á þrettánda ári vinnu í vinnuskólum sveitarfélaganna. Jafnframt er fram lögð reglugerð nr. 426/1999.

Bæjarráð vísar bréfinu til fræðslunefndar og umhverfisnefndar.

5. Hópvinnukerfi ehf. - Starfsmannakerfi.

Lagt fram bréf frá Hópvinnukerfum ehf., Hlíðarsmára 14, Kópavogi, dagsett 10. apríl sl., þar sem kynnt er FOCAL Starfsmannakerfi ofl.

Lagt fram til kynningar.

6. Golfklúbbur Ísafjarðar. - Fyrirtækjadagur.

Lagt fram bréf frá Golfklúbbi Ísafjarðar dagsett 12. apríl sl., þar sem klúbburinn er að bjóða fyrirtækjum upp á að halda golfdat fyrirtækisins einhvern föstudag á komandi sumri og er það þáttur í að kynna golfíþróttina og víkka út starfsemi Golfklúbbs Ísafjarðar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Ísafjarðarbær taki þátt í fyrirtækjadegi.

7. Viðlagatrygging Íslands. - Uppgjör tjóns á Seljalandsdal.

Lagt fram bréf frá Viðlagatryggingu Íslands dagsett 9. apríl sl., þar sem rætt er um að fyrirvarar er bæjarráð Ísafjarðarbæjar setti við uppgjör á tjónabótum vegna skíðalyftu á Seljalandsdal verði ekki teknir til greina. Þar sem fyrirliggjandi tjónabótauppgjör, sem matsmaður V.Í. og fulltrúar bæjarins hafa orðið ásáttir um, feli í sér fullnaðarmat á þeim hlutum umræddrar skíðalyftu, sem urðu fyrir skemmdum af völdum snjóflóðsins.

Lagt fram til kynningar.

8. Minnisblað Andra Árnasonar hrl. - Hesthús við Brjót á Suðureyri.

Lagt fram minnisblað Andra Árnasonar hrl., dagsett 5. apríl sl., þar sem hann fjallar um fyrirspurn Ísafjarðarbæjar um hvort bæjarstjórn geti dregið til baka leyfi sem umhverfisnefnd veitti og bæjarstjórn staðfesti, leyfi til að halda hesta í hesthúsi við Brjót á Suðureyri.
Niðurstaða Andra er sú, með vísan til 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga, að umrædd ákvörðun umhverfisnefndar, sem staðfest var í bæjarstjórn, sé afturkallanleg.

Lagt fram til kynningar.

9. Smábátafélagið Barðinn, Flateyri. - Aðstaða við Flateyrarhöfn.

Lagt fram afrit bréfs til hafnarstjóra frá stjórn smábátafélagsins Barðans á Flateyri, dagsett 11. apríl sl. og skrifað er í framhaldi af fundi í félaginu. Þar er lýst ánægju með þjónustu og umhverfi Flateyrarhafnar árið 1999. Hinsvegar hefur orðið breyting á síðan um áramót og er þar mest aðkallandi lagfæringar á flotbryggu, sem búin er að vera ónothæf frá áramótum. Jafnframt er bent á þörf þess að settur verði upp þriðji löndunarkraninn.

Lagt fram til kynningar.

10. Íslensk miðlun fjarfundasvið.

Lagt fram bréf frá Hilmari Þór Sævarssyni, forstöðumanni fjarfundarsviðs Íslanskrar miðlunar, þar sem kynnt er framtíðarstefna Íslenskrar miðlunar á fjarfundasviði og möguleikar. Aðdragandi bréfsins er tillaga í bæjarráði Ísafjarðarbæjar um hugsanlega breytingu á kennslutilhögun.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og sent fræðslunefnd.

11. Menntamálaráðuneytið. - Evrópsks árs tungumála 2001.

Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneyti dagsett 4. apríl sl., þar sem kynnt er að á vegum Evrópuráðsins og aðildarríkja þess er nú unnið að undirbúningi ,,Evrópsku ári tungumála 2001."

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og sent fræðslunefnd.

12. Sýslumaðurinn á Ísafirði. - Umsögn um veitingastofu ,,Gamla Húsið."

Lagt fram bréf sýslumannsins á Ísafirði dagsett 7. apríl sl., þar sem hann óskar umsagnar Ísafjarðarbæjar á umsókn Ólafs A. Ólafssonar um leyfi til teksturs á veitingastofunni „Gamla Húsið“ að Hafnarstræti 18, Ísafirði. (Gamla Apótekið.)

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

13. Þorsteinn Jóakimsson. - Lækkun fasteignagjalda.

Lagt fram bréf frá Guðrúnu Guðmannsdóttur f.h. Þorsteins Jóakimssonar og Bríetar Theódórsdóttur, með beiðni um niðurfellingu fasteignagjalda.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga.

14. Samb. ísl. sveitarf. - Launanefnd sveitarfélaga.

Lagt fram bréf frá Launanefnd sveitarfélaga til sveitarfélaga dagsett 5. apríl sl., þar sem greint er frá erindi formanns Launanefndar, er haldið var á fulltrúaráðsfundi Samb. ísl. sveitarf. þann 31. mars sl., um endurskoðun og breytingar á samþykktum Launanefndar. Bréfinu fylgir samþykkt fyrir Launanefnd sveitarfélaga er gildir frá 31. mars 2000.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði, afstaða tekin til erindisins fyrir 15. júní n.k.

Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 11:25

 Þorleifur Pálsson, ritari.

 Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.