Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

196. fundur

Árið 2000, mánudaginn 10. apríl kl. 17:00, kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fulltrúar tónlistarskólakennara mæta til fundar við bæjarráð.

Til fundar við bæjarráð eru mættir fulltrúar tónlistarskólakennara við Tónlistarskóla Ísafjarðar þau Sigurður Friðrik Lúðvíksson, Elín Matthildur Jónsdóttir og Erling Sörensen, vegna viðræðna um kjaramál.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga.

2. Fundargerðir nefnda.

Húsnæðisnefnd 3/4.
Fundargerðin er í átta liðum.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

3. Minnisblað bæjarstjóra. - Háskólamál á Vestfjörðum.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 6. apríl sl., um háskólamál á Vestfjörðum.
Bæjarstjóri er í samstarfshópi með Háskólanum á Akureyri, ásamt Guðrúnu Stellu Gissurardóttur, forstöðumanni Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða og Jóhanni Jónassyni, framkvæmdastjóra 3X-Stál ehf., Ísafirði.
Minnisblaðinu fylgir þingsályktunartillaga um háskólanám á Austurlandi og Vestfjörðum send af Pétri Bjarnasyni.

Bæjarráð fagnar þeirri vinnu sem átt hefur sér stað um háskólamál á Vestfjörðum.

4. Bréf bæjarverkfræðings. - Aukafjárveiting vegna viðgerðar á vél.

Lagt fram bréf Ármanns Jóhannessonar, bæjarverkfræðings, dagsett 7. apríl sl., er varðar aukafjárveitingu vegna viðgerðar á dráttarvél á Þingeyri. Óskað er eftir fjárveitingu upp á kr. 548.713.-

Bæjarráð bendir á að deildarstjórum er heimilað að færa til upphæðir milli bókhaldsliða deilda sinna, annarra en launaliða, svo fremi að útgjöld haldist innan ramma fjárhagsáætlunar.

5. Bréf byggingarfulltrúa. - Þinglýsingargjöld af lóðaleigusamningum.

Lagt fram bréf frá Stefáni Brynjólfssyni, byggingarfulltrúa, dagsett 6. apríl sl., þar sem byggingarfulltrúi óskar heimildar til að breyta texta í lóðaleigusamningum það er að í stað: „Ársleiga af lóðinni skal vera 5,0% -fimm af hundraði- af fasteignamati lóðarinnar, eins og ákveðið er á hverjum tíma. Leigan er háð þeim ákvörðunum bæjarstjórnar sem í gildi eru á hverjum tíma.“
komi: „Ársleiga af lóðinni skal vera 3,0% -þrír af hundraði- af fasteignamati lóðarinnar, eins og ákveðið er á hverjum tíma. Leigan er háð þeim ákvörðunum bæjarstjórnar sem í gildi eru á hverjum tíma, þó aldrei hærri en 5,0% -fimm hundruðustu- af fasteignamati lóðarinnar.“

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga byggingarfulltrúa verði samþykkt.

6. Samb. ísl. sveitarf. - Ályktanir fyrra fulltrúaráðsfundar 2000.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 3. apríl sl., ásamt ályktunum frá 58. fulltrúaráðsfundar sambandsins er haldinn var á Hótel Reykholti í Borgarfirði dagana 30.-31. mars sl.

Bæjarráð tekur undir ályktanir fulltrúaráðsfundar og beinir þeim tilmælum sínum til stjórnar Samb. ísl. sveitarf. að vinnu við endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og endurmat á kostnaði og tekjuþörf vegna yfirtöku grunnskólans verði hraðað.

7. Landbúnaðarráðuneytið. - ,,Fegurri sveitir."

Lagt fram bréf frá landbúnaðarráðuneytinu dagsett 3. apríl sl., þar sem greint er frá nefnd á vegum ráðuneytisins, sem vinnur að framkvæmd verkefnisins "Fegurri sveitir", sem er ætlað að stuðla að samstilltu átaki í hreinsun og fegrun lands og mannvirkja með áherslu á sveitir landsins.

Bæjarráð vísar bréfinu til umhverfisnefndar.

8. Orkubú Vestfjarða. - Aðalfundarboð 28. apríl 2000.

Lagt fram fundarboð frá stjórn Orkubús Vestfjarða dagsett 4. apríl sl., þar sem boðað er til 23. aðalfundar Orkubús Vestfjarða þann 28. apríl n.k., er haldinn verður í Hömrum, tónleikasal Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Bæjarráð leggur til að allir bæjarfulltrúar mæti á aðalfundinn og atkvæðum verði skipt jafnt á milli fulltrúa.

9. Uppsagnarbréf Rósu B. Þorsteinsdóttur, skóla- og menningarfulltrúa.

Lagt fram bréf frá Rósu B. Þorsteinsdóttur dagsett 31. mars sl., þar sem hún segir upp starfi sínu sem skóla- og menningarfulltrúi Ísafjarðarbæjar. Jafnframt er fram lagt afrit af bréfi bæjarstjóra til Rósu B. Þorsteinsdóttur dagsett 6. apríl sl.og varðar uppsögn hennar.

Lagt fram til kynningar.

10. Uppsagnarbréf Kjell Hymer, félagsmálastjóra.

Lagt fram bréf Kjell Hymer dagsett 31. mars sl., þar sem hann segir upp starfi sínu sem félagsmálastjóri Ísafjarðarbæjar. Jafnframt er fram lagt afrit af bréfi bæjarstjóra til Kjell Hymer dagsett 6. apríl sl. og varðar uppsögn hans.

Lagt fram til kynningar.

11. Fasteignin Stekkjargata 29, Hnífsdal. - Heimild til niðurrifs.

Lagt fram minnisblað bæjarritara til bæjarstjóra dagsett 31. mars sl., þar sem fram kemur að húsið Stekkjargata 29, Hnífsdal, sem er í eigu Ísafjarðarbæjar sé ónýtt og rétt sé að óska heimildar bæjarráðs og umhverfisnefndar til niðurrifs. Minnisblaðinu fylgir ástandslýsing frá byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð samþykkir niðurrif Stekkjargötu 29 og leitar eftir heimild umhverfisnefndar.

12. Minnisblað bæjarstjóra. - Reglur um nýtingu og útleigu íþróttahúsa.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 4. apríl sl., ásamt drögum að reglum um nýtingu og útleigu íþróttahúsa Ísafjarðarbæjar og ásamt tillögu að gjaldskrá. Drögin eru öðru sinni lögð fram í bæjarráði.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að reglur um nýtingu og útleigu íþróttahúsa Ísafjarðarbæjar verði samþykktar, svo og tillaga að gjaldskrá.

13. Minnisblað bæjarstjóra. - Þjónusthúsnæði aldraðra á Þingeyri.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 5. apríl sl., ásamt greinargerð um stöðu framkvæmda við þjónustuhúsnæði aldraðra á Þingeyri, en bæjarstjóra var á 192. fundi bæjarráðs falið að afla frekari upplýsinga um stöðu framkvæmda.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera samkomulag við heilbrigðisráðuneytið byggt á greinargerð bæjarstjóra og leggja fyrir bæjarráð.

14. Félagsmálaráðuneytið. - Auglýsing um mörk sveitarfélaga á Drangagjöli.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 3. apríl sl., ásamt auglýsingu um mörk sveitarfélaganna Árneshrepps, Hólmavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar á Drangajökli. Auglýsingin hefur verið send til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda.

Lagt fram til kynningar.

15. Minnisblað bæjarstjóra. - Básafell hf., hluthafafundur.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 5. apríl sl.,um hluthafafund í Básafelli hf., er haldinn var þann 4. apríl sl., þar sem bæjarstjóri gerir grein fyrir upplýsingum frá Andra Árnasyni hrl., en hann sat hluthafafundinn fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð samþykkir þessa ráðstöfun bæjarstjóra.

16. Verkalýðsfélagið Baldur. - Málefni starfsfólks á Hlíf III.

Lagt fram bréf frá Verkalýðsfélaginu Baldri, Ísafirði, dagsett 31. mars sl., þar sem rætt er um málefni starfsfólks á Hlíf III. vegna kjaramála.

Bæjarráð óskar eftir greinargerð frá félagsmálastjóra og nefnd um endurskoðun málefna Hlífar, ásamt greinargerð frá starfsfólki á þjónustudeild.

Sigurður R. Ólafsson vék af fundi bæjarráðs við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.

17. Minnisblað bæjarstjóra. - Unglingadansleikur á Suðureyri.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 4. apríl sl., þar sem hann greinir frá því að undanfarið hafin verið leitað til bæjarstjóra og Jóns Björnssonar forstöðumanns félagsmiðstöðva vegna útleigu á félagsheimilinu á Suðureyri fyrir 16 ára ball 14. apríl n.k. Minnisblaðinu fylgir svar Jóns Björnssonar vegna fyrirspurnar um unglingadansleik á Suðureyri 16. júní n.k.

Lagt fram til kynningar.

18. Sýslumaðurinn á Ísafirði. - Umsögn um gistingu og greiðasölu í Læknishúsinu á Hesteyri.

Lagt fram bréf sýslumannsins á Ísafirði dagsett 4. apríl sl., þar sem hann óskar umsagnar Ísafjarðarbæjar á umsókn Birnu H. Pálsdóttur um leyfi til reksturs á gistingu og greiðasölu í Læknishúsinu á Hesteyri tímabilið 1. júlí til 15. ágúst 2000.

Bæjarráð vísar erindinu til umsagnar umhverfisnefndar.

19. Sparisjóður Þingeyrarhrepps. - Aðalfundur 13. apríl 2000.

Lagt fram fundarboð frá Sparisjóði Þingeyrarhrepps dagsett 31. mars sl., vegna aðalfundar sparisjóðsins er haldinn verður fimmtudaginn 13. apríl n.k. og hefst klukkan 20:00 í húsi sparisjóðsins á Þingeyri.

Bæjarráð felur bæjarfulltrúunum Birnu Lárusdóttur og Sæmundi Kr. Þorvaldssyni, að sækja aðalfundinn fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.

20. Samráðs- og upplýsingafundur sveitarfélaga og Íslenskrar miðlunar.

Lagt fram tölvubréf frá Jósef Friðrikssyni, sveitarstjóra Stöðvarfirði, dagsett þann 7. apríl sl., þar sem boðað er til samráðs- og upplýsingafundar sveitarfélaga og Íslenskrar miðlunar laugardaginn 15. apríl n.k. kl. 12:00 í húsnæði Íslenskrar miðlunar að Krókhálsi 5a í Reykjavík.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að mæta á fundinn fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.

21. Minnisblað bæjarstjóra. - Staða hættumats undir Seljalandsmúla og á Tunguskeiði.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 7. apríl sl., um stöðu hættumats undir Seljalandsmúla og á Tunguskeiði. Meðfylgjandi er minnisblað Hörpu Grímsdóttur landfræðings hjá Veðurstofu Íslands ásamt korti með sögulegu yfirliti hættumatslína í Seljalandshverfi og á Tunguskeiði.

Bæjarráð felur bæjarverkfræðingi að óska eftir hættumati fyrir svæðið.

Fleira ekki gert, fundargerðin upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:50

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.