Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

195. fundur

Árið 2000, mánudaginn 3. apríl kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 30/3.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
2. liður. Bæjarstjóri upplýsti að hann hafi rætt við forsvarsmann áhugahóps um Kaffi- og menningarhús í Ísafjarðarbæ, um leiðir til að styrkja þetta framtak.
3. liður. Annar töluliður. Sjá afgreiðslu bæjarráð undir 3. lið dagskrár.
4. liður. Sjá afgreiðslu bæjarráðs undir 15. lið dagskrár.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefndar 28/3.
Fundargerðin er í átta liðum.
4. liður. Tillaga flutt af Guðna G. Jóhannessyni undir 4. lið fundargerðar fræðslunefndar 102. fundur. ,,Vegna breytinga á skólaumhverfi í Ísafjarðarbæ með stofnun Skóla- og fjölskylduskrifstofu og vegna nýrra möguleika á því að nýta upplýsingatækni til að auka samskipti og samvinnu skólahverfa, þannig að nám geti farið fram óháð stað, legg ég til við bæjarráð og bæjarstjórn að ákvörðun um flutning 9. og 10. bekkja frá Grunnskóla Flateyrar og Suðureyrar til Grunnskóla Ísafjarðar verði frestað um eitt ár. Jafnframt legg ég til að fræðslunefnd ásamt hinni nýju Skóla- og fjölskylduskrifstofu kanni sem allra fyrst möguleika á að fá fjármagn, úr sérstökum sjóðum menntamálaráðuneytis, til þróunarverkefnis er lítur að fjarnámi þannig að grunnskólar í sveitarfélaginu starfi sem ein heild með einum skólastjóra."
Bæjarráð vísar tillögunni til bæjarstjórnar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefndar 1/4
Fundargerðin er í einum lið.
Sjá afgreiðslu bæjarráðs undi 15. lið dagskrár.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Landbúnaðarnefnd 27/3.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Landbúnaðarnefnd 29/3.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 29/3.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Félagsmálanefnd Alþingis. - Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum.

Lagt fram bréf frá formanni félagsmálanefndar Alþingis dagsett 22. mars s.l., ásamt tillögu til þingsályktunar um nýbúamiðstöð á Vestfjörðum, 190. mál.
Tillagan er send sveitarfélögum til umsagnar og æskir nefndin þess að umsögn berist eigi síðar en 14. apríl 2000.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að leggja fram drög að umsögn fyrir bæjarráð.

3. Félagsmálanefnd Alþingis. - Frumvarp um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Lagt fram bréf frá formanni félagsmálanefndar Alþingis dagsett 23. mars s.l., ásamt frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, 4l8. mál, heildarlög.
Frumvarpið er sent sveitarfélögum til umsagnar og æskir nefndin þess að umsögn berist eigi síðar en 1. maí 2000.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að leggja fram drög að umsögn fyrir bæjarráð.

4. Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ. - Kauptilboð í Aðalstræti 26, Þingeyri.

Lagt fram símbréf frá Heilbrigðisstofnuninni Ísafjarðarbæ dagsett 29. mars s.l., ásamt kauptilboði er borist hefur í húseignina Aðalstræti 26, Þingeyri, að upphæð krónur 2.600.000.- frá Sigríði Helgadóttur og Friðfinni S. Sigurðssyni, Þingeyri. Áður hafði borist kauptilboð í eignina frá öðrum aðila upp á krónur 3.000.000.- er fallið hefur verið frá. Húseignin er í eigu Ísafjarðarbæjar að 15% hluta og ríkissjóðs að 85% hluta.

Bæjarráð samþykkir kauptilboðið fyrir sitt leyti. Sæmundur Kr. Þorvaldsson vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

5. Minnisblað bæjarstjóra. - Þjónustusamningar við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vestfjörðum.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 30. mars s.l., er varðar þjónustusamninga um liðveislu og heimilishjálp við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vestfjörðum. Í minnisblaði bæjarstjóra eru lagðar fram tillögur fyrir bæjarráð, tillögur er urðu að samkomulagi á fundi bæjarstjóra, félagsmálastjóra og framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vestfjörðum.

Tillögurnar eru svohljóðandi.

1. Samning um þjónustu Svæðisskrifstofu á sviði ráðningar á starfsfólki í liðveislu o.s.frv. verður sagt upp og rennur hann úr gildi 31.03.2000. Svæðisskrifstofan mun halda áfram þjónustunni þó ekki berist lengur greiðslur. Er þetta m.a. gert með tilliti til þess að verkefni Svæðisskrifstofu koma líklega á næstunni í heild til sveitarfélaga.

2. Samning um liðveislu og heimilishjálp vegna tveggja fatlaðra einstaklinga frá 1. september 1998 verður sagt upp og rennur hann úr gildi 31.05.2000. Samningurinn verður ekki endurnýjaður heldur verði sótt um liðveislu ef þörf er á skv. þeim leiðum sem venjulega eru farnar, þ.e. í gegnum félagsmálastjóra og félagsmálanefnd. Sérstök liðveisla mun þar af leiðandi ekki verða greidd af Ísafjarðarbæ skv. samningum heldur skv. mati félagsmálanefndar.

3. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra hefur sent Ísafjarðarbæ reikning dags. 3. mars s.l.,vegna þess sem ógreitt er. Reikningsupphæðin er kr. 2.292.000.- Þó þetta sé skv. undirrituðum samning hefur Ísafjarðarbær, eins og fram kemur hér áður, ekki greitt neitt. Ekki er gert ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun. Undirritaður leggur til að reikningurinn verði greiddur skv. heimild bæjarráðs um aukafjárveitingu á liðinn 02-07-439-1 leiðveisla og mætt með lántökum.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillögurnar verði samþykkta.

6. Minnisblað bæjarstjóra. - Húsafriðunarnefnd, væntanleg heimsókn.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 30. mars s.l., þar sem hann greinir frá væntanlegri heimsókn Magnúsar Skúlasonar, framkvæmdastjóra húsafriðunarnefndar og Þorsteins Gunnarssonar, arkitekts, formanns nefndarinnar, til Ísafjarðar á næstunni til viðræðna við fulltrúa bæjarfélagsins.

Bæjarráð leggur til að bæjarráð, bæjarstjóri, bæjarverkfræðingur, byggingarfulltrúi og formaður umhverfisnefndar mæti til fundar við fulltrúa húsafriðunarnefndar.

7. Minnisblað bæjarstjóra. - Reglur um nýtingu og útleigu íþróttahúsa.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 30. mars s.l., ásamt tillögum til bæjarráðs um ,,Reglur um nýtingu og útleigu íþróttahúsa Ísafjarðarbæjar."

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna úr athugasemdum er fram komu á fundinum og leggja fyrir bæjarráð að nýju.

8. Minnisblað bæjarstjóra. - Tölvumál.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 30. mars s.l., varðandi tölvumál, ásamt bréfi frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, til bæjarstjóra dagsett 30. mars s.l. Í bréfi fjármálastjóra er rætt um miðlægt tölvuver á Ísafirði og samninga við Skýrr/Pólinn, svo sem á rekstri PC-server ofl.

Bæjarráð heimilar viðræður, en leggur áherslu á að samkeppnissjónarmiða verði gætt.

9. Bréf fjármálastjóra. - Afskriftir viðskiptakrafna 31.12.99.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 29. mars s.l., þar sem óskað er eftir ákvörðun bæjarráðs varðandi afskriftir viðskiptakrafna 31.12.99. Heildarfjárhæð viðskiptakrafna til afskrifta er kr. 8.424.481.- án áfallinna vaxta sem eru kr. 573.884.- Bréfinu fylgir nánari sundurliðun á ofangreindri fjárhæð.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga fjármálastjóra um afskriftir verði samþykkt.

10. Bréf fjármálastjóra. - Vörslusjóðir hjá Ísafjarðarbæ. Niðurlagning sjóða.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 29. mars s.l., þar sem greint er frá að hjá dómsmálaráðuneytinu sé unnið að niðurlagningu sjóða, sem starfa samkvæmt skipulagsskrá og ekki uppfylla skilyrði laga nr. 19/1988 með síðari breytingum. Nokkrir slíkir sjóðir voru í fyrrum Mosvalla-, Flateyrar- og Þingeyrar- hreppum.
Þar sem flestir ofangreindra sjóða standast ekki kröfur um lágmarksinnistæður og/eða starfsgrundvöllur þeirra samkvæmt skipulagsskrá er ekki lengur fyrir hendi er lagt til að sjóðirnir verði lagðir niður og sjóðsfénu varið ráðstafað til fræðslu-, menningar- og félagsmála.

Bæjarráð leggur til að sjóðirnir verði lagðir niður og bæjarráð ráðstafi sjóðsfénu.

11. Umhverfisráðuneytið. - Ofanflóðasjóður vegna aurflóða úr Eyrarhlíð.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 20. mars s.l., þar sem tilkynnt er að Ofanflóðasjóður geti ekki orðið við erindi Ísafjarðarbæjar um greiðslu kostnaðar vegna björgunaraðgerða vegna skriðufalla sem urðu úr Eyrarhlíð á s.l. ári.

Lagt fram til kynningar.

12. Sparisjóður Bolungarvíkur. - Aðalfundur 7. apríl 2000.

Lagt fram fundarboð, með boðaðri dagskrá, frá Sparisjóði Bolungarvíkur dagsett 24. mars s.l., þar sem boðað er til aðalfundar fyrir árið 1999, föstudaginn 7. apríl n.k. kl. 17:00 í Víkurbæ í Bolungarvík.

Bæjarráð leggur til að Gestur Kristinsson, Suðueyri, verði áfram fulltrúi Ísafjarðarbæjar í stjórn Sparisjóðs Bolungarvíkur. Aðalfundinn sækja fyrir hönd Ísafjarðarbæjar Ragnheiður Hákonardóttir og Lárus G. Valdimarsson.

13. Skýrr hf. - Kynningarfundur um þjónustu Íslenska menntanetsins og Skýrr hf.

Lagt fram bréf frá Skýrr hf., Ármúla 2, Reykjavík, dagsett 24. mars s.l., þar sem kynntur er opinn kynningarfundur um þjónustu Skýrr hf. og Íslenska menntanetsins í Framhaldsskóla Vestfjarða hér á Ísafirði, þann 5. apríl n.k. á milli kl. 17:00 og 19:00

Lagt fram til kynningar.

14. Fundargerð samstarfsnefndar leikskólakennara, 45. fundur.

Lögð fram fundargerð 45. fundar samstarfsnefndar Félags ísl. leikskólakennara og Launanefndar sveitarfélaga, er haldinn var fimmtudaginn 16. mars s.l., að Háaleitisbraut 11, Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

15. Ráðning forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að teknu tilliti til menntunar og reynslu umsækjenda og tillögum fræðslu- og félagsmálanefnda, að Ingibjörg María Guðmundsdóttir verði ráðin sem forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.

Fleira ekki gert, fundargerðin upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:50

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.