Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

193. fundur

Árið 2000, mánudaginn 20. mars kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 14/3.
Fundargerðin er í sex liðum.
4. liður. Formaður bæjarráðs lætur bóka eftirfarandi. ,,Lít svo á að skóla- og menningarfulltrúi sem er yfirmaður fræðslusviðs eigi að vinna með starfshópi um framtíðarskipan skólamála."
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 14/3.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarnefnd 16/3.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf fjármálastjóra. - Aksturskostnaður Ísafjarðarbæjar v/starfsmanna.

Lagt fram bréf frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra, dagsett 6. mars s.l., þar sem hann tekur saman aksturskostnað Ísafjarðarbæjar 1999 vegna starfsmanna.
Bæjarstjóri leggur þessar upplýsingar fram þar sem við úrvinnslu á samþykkt bæjarstjórnar frá 3. febrúar s.l. kom í ljós að til að framfylgja henni þarf bæjarstjóri að segja upp 25 starfsmönnum Ísafjarðarbæjar samkvæmt túlkun launþegasamtaka.

Bæjarráð leggur til að bifreiðastyrkjum, sem eru samningsbundnir verði ekki sagt upp. Til samræmingar skal öðrum greitt samkvæmt akstursdagbók.

3. Afrit bréfs minjavarðar Vesturlands og Vestfjarða til Húsafriðunarnefndar ríkisins v/ "Gamli barnaskólinn á Ísafirði."

Lagt fram afrit bréfs minjavarðar Vesturlands og Vestfjarða Magnúsar A. Sigurðssonar til Húsafriðunarnefndar ríkisins dagsett 6. mars s.l. og varðar friðun "Gamla barnaskólans á Ísafirði." Bréfinu fylgir lausleg úttekt á skólanum, en Magnús Skúlason, framkvæmdastjóri Húsafriðunarnefndar, skoðaði húsið lauslega 29. febrúar s.l., með þeim Jóni Sigurpálssyni, safnstjóra, Elísabetu Gunnarsdóttur, arkitekt og Guðmundi Óla Ólafssyni, húsasmíðameistara.

Bæjarráð vísar bréfinu til umhverfisnefndar og menningarnefndar.

4. Löggarður ehf., Rvk. - Vangreiddur fæðiskostnaður v/skólaferðalags.

Lagt fram bréf frá Löggarði ehf., Kringlunni 7, Reykjavík, dagsett 14. mars s.l., varðandi fæðiskostnað vegna skólaferðalags. Málið er vegna Jónu Benediktsdóttur og Andreu S. Harðardóttur, kennara við Grunnskóla Ísafjarðar.

Bæjarráð vísar erindinu til Andra Árnasonar bæjarlögmanns.

5. Minnisblað bæjarstjóra. - Landsbanki Íslands, starfsemi á Ísafirði.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 15. mars s.l., er varðar starfsemi Landsbanka Íslands á Ísafirði og þá þróun sem er að verða hjá fyrirtækjum og stofnunum, sem eru með starfsemi víða um land, en höfuðstöðvar í Reykjavík. Minnisblaðinu fylgir afrit af bréfi bæjarritara til Landsbanka Íslands hf., Ísafirði, dagsett 8. mars 2000.

Lagt fram til kynningar.

6. Samb. ísl. sveitarf. - Norræna sveitarstjórnarráðstefnan í Horsens.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 7. mars s.l., varðandi norrænu sveitarstjórnarráðstefnuna í Horsens í Danmörku 7.-9. maí n.k.

Lagt fram til kynningar.

7. Samb. ísl. sveitarf. - Ráðstefna um Staðardagskrá 21, 4. apríl n.k.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 8. mars s.l., þar sem boðað er til heilsdagsráðstefnu á vegum Staðardagskrársverkefnisins þriðjudaginn 4. apríl n.k., er haldin verður í Hafnarborg í Hafnarfirði í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ.

Lagt fram til kynningar.

8. Símbréf Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ. - Kauptilboð í Aðalstræti 26, Þingeyri.

Lagt fram símbréf frá Heilbrigðisstofnuninni Ísafjarðarbæ dagsett 14. mars s.l., þar sem tilgreint er að borist hafi kauptilboð í fasteignina Aðalstræti 26 á Þingeyri, en Ísafjarðarbær á þar 15% eignarhluta á móti ríkissjóði. Fjármálaráðuneytið hefur annast sölumeðferð á þessu húsi og leggur til að gengið verði að þessu tilboði að undanskildum fyrirvara sem settur er og óskar ráðuneytið eftir viðbrögðum Ísafjarðarbæjar sem allra fyrst.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá samningi á þessum nótum og leggja síðan fyrir bæjarráð.

9. Verkefnisstjórn reynslusveitarfélags. - Málþing um stjórnsýslu og stjórnsýslutilraunir sveitarfélaga þann 24. mars n.k.

Lagt fram bréf frá Verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga dagsett 15. mars s.l., ásamt dagskrá, þar sem boðað er til málþings um stjórnsýslu og stjórnsýslutilraunir sveitarfélaga þann 24. mars næstkomandi. Málþingið er ætlað sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum í stjórnsýslu sveitarfélaga. Bréfinu fylgir dagskrá.

Lagt fram til kynningar.

10. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Skipan framtíðarnefndar.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 17. mars s.l., er varðar skipan framtíðarnefndar í framhaldi af tillögu er samþykkt var á fundi sveitarfélaga er haldinn var í Þróunarsetri Vestfjarða á Ísafirði þann 15. mars s.l.

Bæjarráð vísar erindinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

11. Fundargerð sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Fjórðungssambands Vestfirðinga og Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra.

Lögð fram fundargerð samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Fjórðungssambands Vestfirðinga og Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra, með alþingismönnum og sveitarstjórnarmönnum fyrrnefndra kjördæma um áhrif nýrrar kjördæmaskipunar. Fundurinn var haldinn í Borgarnesi þann 3. mars 2000.

Lagt fram til kynningar.

12. Minnisblað bæjarstjóra. - Gatnagerðargjöld hjá Ísafjarðarbæ.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 17. mars s.l., um gatnagerðargjöld hjá Ísafjarðarbæ, ásamt bréfi bæjarverkfræðings dagsettu 16. mars s.l., upplýsingar og tillaga bæjarverkfræðings um gatnagerðargjöld Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga bæjarverkfræðings verði samþykkt.

13. Erindi vegna "Kaffi- og menningarhús fyrir ungt fólk í Ísafjarðarbæ."

Lagt fram bréf frá áhugahópi um bætta ungmennamenningu í Ísafjarðarbæ dagsett 10. mars s.l., þar sem farið er fram á stuðning við opnun "Kaffi- og menningarhúss fyrir ungt fólk í Ísafjarðarbæ."

Bæjarráð vísar bréfinu til félagsmálanefndar og menningarnefndar.

14. Bréf Jónu S. Pálmadóttur. - Erindi fyrir bæjarráð.

Lagt fram bréf frá Jónu S. Pálmadóttur dagsett 17. mars 2000. Erindi fyrir bæjarráð Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna að úrlausn málsins.

15. Minnisblað bæjarstjóra. - Tillögur að ferli við afgreiðslu og mat umsókna um starf forstöðumanns skóla- og fjölskylduskrifstofu.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 20. mars 2000, varðandi umsóknir um starf forstöðumanns skóla- og fjölskylduskrifstofu, ásamt tillögu að ferli við afgreiðslu og mat umsókna.

Bæjarráð samþykkir tillögu bæjarstjóra.

16. Bréf Karls Guðmundssonar, Bæ, Súgandafirði. - Hesthús við Brjót.

Lagt fram bréf frá Karli Guðmundssyni, búfjáreftirlitsmanni í Ísafjarðarbæ, dagsett 16. mars s.l., þar sem hann gerir alvarlegar athugasemdir við afgreiðslu umhverfisnefndar , á leyfi til hestahalds í húskofa við Brjót á Suðureyri.
Jafnframt er fram lagt bréf frá Sigríði Ingu Sigurjónsdóttur, dýralækni, dagsett 13. mars s.l., þar sem hún tekur alfarið undir athugasemdir Karls Guðmundssonar við afgreiðslu umhverfisnefndar.

Bæjarráð vísar erindinu til landbúnaðarnefndar og umhverfisnefndar.

17. Ársreikningar 1999. - Fyrirspurn.

Formaður bæjarráðs lagði fram fyrirspurn til bæjarstjóra hvað liði frágangi ársreikninga Ísafjarðarbæjar fyrir árið 1999.
Bæjarstjóri upplýsti að stefnt er að því að ljúka gerð ársreiknings í apríl n.k. Takis það er ársreikningur lagður fram um mánuði fyrr en s.l. ár.

Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:39

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.