Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

190. fundur

Árið 2000, mánudaginn 28. febrúar kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Umhverfisnefnd 23/2.
Fundargerðin er í sjö töluliðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga - málþing.

Lagt fram bréf ds. 21. febrúar s.l. ásamt fylgiskjölum frá Verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga þar sem boðað er til málþings um stjórnsýslu og stjórnsýslutilraunir sveitarfélaga. Þingið verður haldið þriðjudaginn 24. mars nk. og hefst kl. 13.15 að Borgartúni 6, Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

3. Kennarar við Tónlistarskóla Ísafjarðar - krafa um viðbótarsamning.

Lagt fram bréf undirritað af sextán kennurum við Tónlistarskóla Ísafjarðar ds. 21. febrúar s.l., þar sem gerð er krafa um viðbótarsamning launa.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að taka saman upplýsingar í málinu og að boða fulltrúa kennara við Tónlistarskólann á Ísafirði á fund bæjarráðs við fyrsta tækifæri.

4. Brunamálastofnun ríkisins - afgreiðsla byggingarleyfisumsókna.

Lagt fram bréf frá Brunamálastofnun ríkisins ds. 10. febrúar s.l., þar sem rætt er um aðkomu slökkviliðsstjóra að afgreiðslu byggingarleyfisumsókna m.t.t. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Bæjarráð bendir á að erindinu hefur þegar verið vísað til bæjarverkfræðings og að slökkviliðsstjóri hefur seturétt á fundum umhverfisnefndar.

5. Vinnumálastofnun - yfirlit yfir atvinnuástand, janúar 2000.

Lögð fram gögn frá Vinnumálastofnun með yfirliti yfir atvinnuástandið í janúar 2000.

Lagt fram til kynningar.

6. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða - fundargerð heilbrigðisnefndar.

Lagt fram bréf ds. 21. feb. s.l. ásamt fylgiskjölum frá Antoni Helgasyni, heilbrigðisfulltrúa, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, með fundargerð 12. fundar heilbrigðisnefndar Vestfjarða.

Bæjarráð óskar eftir upplýsingum um mögulegan viðbótarkostnað sem fellur á sveitarfélögin verði annar starfsmaður ráðinn til Heilbrigðiseftirlitsins.

7. Sigríður Magnúsdóttir - félagsstarf aldraðra Önundarfirði.

Lagt fram bréf ds. í feb. s.l. ásamt fylgiskjölum frá Sigríði Magnúsdóttur, forst.m. félagsstarfs aldraðra í Önundarfirði, varðandi framlag á fjárhagsáætlun ársins 2000 til reksturs félagsstarfsins. Í bréfinu mótmælir Sigríður meintum niðurskurði til starfsins.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju sinni með metnaðarfulla starfsemi á Brynjubæ, Flateyri. Ákvörðun um lækkun samkvæmt fjárhagsáætlun er tekin vegna þess að fjárframlag til félagsstarfs á Flateyri og Þingeyri var samræmt. Félagsmálastjóra er falið að vinna með forstöðumanni að nauðsynlegum breytingum á starfseminni til að fella hana að fjárhagsáætlun.

8. Lögsýn ehf - Fundvís ÍS-881.

Lagt fram bréf ds. 18. febrúar s.l. ásamt fylgiskjölum þar sem lögð er áhersla á að gengið verði frá kaupsamningi um bátinn Fundvís ÍS-881.

Bæjarstjóri upplýsti að hæstbjóðandi hefur ekki svarað innan tilskilins frests og því er sá er var með næst hæsta boð með hæsta gilda boð.

9. Hafnarstjóri - lóðin Sindragata 16.

Lagt fram bréf ds. 18. febrúar s.l. frá Hermanni Skúlasyni, hafnarstjóra, þar sem tilkynnt er að hafnarstjórn leggist ekki gegn úthlutun lóðarinnar við Sindragötu 16, Ísafirði.

Lagt fram til kynningar.

10. Heilbrigðisnefnd Vestfjarða - gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu.

Lagt fram bréf ds. 21. febrúar s.l. frá Antoni Helgasyni, heilbrigðisfulltrúa, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, þar sem tilkynnt er að heilbrigðisnefnd Vestfjarða hafi samþykkt framlagða gjaldskrá Ísafjarðarbæjar fyrir sorphirðu og sorpeyðingu.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að láta birta gjaldskrána í B-hluta Stjórnartíðinda.

11. Elías Guðmundsson - Hlíðarvegur 3, Suðureyri.

Lagt fram bréf ds. 23. febrúar s.l. frá Elíasi Guðmundssyni, þar sem tilkynnt er að hann hafi fallið frá kaupum á Hlíðarvegi 3, Suðureyri.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18.00.

Þórir Sveinsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.