Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

187. fundur

Árið 2000, mánudaginn 7. febrúar kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Boðun fundar varðandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 1. febrúar s.l., þar sem meðal annars er kynnt beiðni bæjarráðs Bolungarvíkur með ósk um boðun fundar sveitarfélaga innan Fjórðungssambandsins, er fjalla á um fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Tímasetning fundarins verði í samráði við framkvæmdastjóra sveitarfélaga, en reynt verði að koma honum á sem fyrst.

Bæjarráð og bæjarstjóri munu sækja fyrirhugaðan fund.

2. Bréf Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

Lagt fram bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga dagsett 20. janúar s.l., þar sem fram kemur að nefndin hefur athugað reikningsskil Ísafjarðarbæjar fyrir árið 1998 ásamt reikningsskilum áranna 1996 og 1997. Af reikningsskilum er ljóst að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er alvarleg og virðast fjármálin stefna í verulegt óefni. Eftirlitsnefndin óskar eftir að henni verði gerð grein fyrir því innan tveggja mánaða hvernig þróunin hefur orðið í fjármálum sveitarfélagsins á árinu 1999 og hvernig sveitarstjórn hyggst bregðast við fjárhagsvanda sveitarfélagsins, m.a. við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2000 og þriggja ára áætlunar sveitarfélagsins.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að draga saman upplýsingar og leggja fyrir bæjarráð.

3. Bréf Lífeyrissjóðs Vestfirðinga. - Fjármögnun skipakaupa.

Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs Vestfirðinga dagsett 2. febrúar s.l., með bókun sjóðsins varðandi hugsanlega þátttöku Lífeyrissjóðs Vestfirðinga vegna kaupa á Skutli ÍS 180 og aflaheimildum.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju sinni með svar Lífeyrissjóðs Vestfirðinga og er tilbúið að vinna að framgangi málsins með þeim hætti sem lýst er í bréfi sjóðsins.

4. Bréf Neytendasamtakanna beiðni um fjárstyrk.

Lagt fram bréf Neytendasamtakanna dagsett 28. janúar s.l., þar sem farið er fram á að Ísafjarðarbær styrki neytendastarf á árinu 2000 um kr. 85.500.-, eða sem nemur kr. 20.- pr. íbúa.

Bæjarráð hafnar styrkveitingu þar sem ekki er gert ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun 2000.

5. Bréf Hallgríms Sveinssonar, v/snjómokstur að Brekku, Dýrafirði.

Lagt fram tölvubréf frá Hallgrími Sveinssyni, fyrir hönd Brekkubænda, dagsett 2. febrúar s.l., þar sem hann ræðir um snjómokstur að Brekku í Dýrafirði og afgreiðslu umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar á slíku erindi.

Bæjarráð vísar til þeirra snjómokstursreglna sem í gildi eru.

6. Afrit bréfs skóla- og menningarfulltrúa til fræðslunefndar , samanburður á kostnaði við akstur Holt-Ísafjörður eða Holt-Flateyri.

Lagt fram afrit af bréfi Rósu B. Þorsteinsdóttur, skóla- og menningarfulltrúa, til fræðslunefndar, dagsett 24. janúar s.l., þar sem greint er frá samanburði á kostnaði við akstur Holt - Ísafjörður eða Holt - Flateyri. Kostnaður er sem hér segir:

Holt - Flateyri kr. 1.900.668.-
Holt - Ísafjörður kr. 2.476.628.-
Útreikningar eru miðaðir við þá aksturssamninga sem í gildi eru í dag.

Lagt fram til kynningar.

7. Afrit af bréfi sýslumanns á Ísafirði.-Gistiskáli í Bolungarvík, Ströndum.

Lagt fram afrit af bréfi sýslumannsins á Ísafirði dagsett 2. febrúar s.l., til Vilmundar Reimarssonar, Hreggnasa, 415 Bolungarvík, er varðar gistiskála í Bolungarvík á Hornströndum.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og sent umhverfinsefnd til kynningar.

8. Bréf sýslumanns á Ísafirði. - Gistiskáli að Sútarabúðum í Grunnavík.

Lagt fram bréf frá sýslumanninum á Ísafirði dagsett 2. febrúar s.l., ásamt teikningum af fyrirhuguðum gistiskála að Sútarabúðum í Grunnavík.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

9. Bréf Viðlagatryggingar Íslands. - Skíðalyfta á Seljalandsdal.

Lagt fram bréf Viðlagatryggingar Íslands dagsett 28. janúar s.l., er varðar skíðalyftu á Seljalandsdal. Þar kemur fram að það sé ekki mat Viðlagatryggingar að um altjón hafi verið að ræða er skíðalyftur á Seljalandsdal lentu í snjóflóði veturinn 1999.

Bæjarráð fellst á fyrirliggjandi tjónabótauppgjör með þeim fyrirvara að undirstöður undi lyftustaura verði metnar að fullu inn í fyrirliggjandi kostnaðarmat.

10. Bréf trúnaðarmanns Funa. - Starfskjaranefnd Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram afrit af tölvubréfi Guðmundar Sigurðssonar, trúnaðarmanns í Funa, til starfskjaranefndar Ísafjarðarbæjar, vegna endurskoðunar á starfsmati vaktmanna í Funa. Hér er um ítrekað erindi til nefndarinnar að ræða.

Bæjarráð óskar eftir að starfskjaranefnd ljúki málinu sem allta fyrst.

11. Bréf Tönsberg Kommune. - Vinabæjarmót 2000.

Lagt fram bréf frá Tönsberg Kommune dagsett 13. janúar s.l., þar sem aflýst er öllum vinabæjarsamskiptum á þessu ári sökum erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og sent menningarnefnd til kynningar.

12. Félagsmálaráðuneytið. - Bréf vegna álits umboðsmanns Alþingis á álagningu holræsagjalds í Ísafjarðarbæ.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 1. febrúar s.l., þar sem ráðuneytið beinir því til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, að taka athugasemdir umboðs- manns Alþingis við reglugerð nr. 39/1997, sbr. reglugerð nr. 10/1998, til skoðunar hið fyrsta.

Bæjarráð felur bæjarstjóra í samráði við bæjarlögmann að vinna að endurskoðun á reglugerð um holræsagjald í Ísafjarðarbæ.

13. Lífeyrissj. starfsm. sveitarf. - Fundargerðir stjórnar.

Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga dagsett 31. janúar s.l., ásamt 10 síðustu fundargerðum stjórnar sjóðsins.

Lagt fram til kynningar.

14. Skólanefnd Framhaldsskóla Vestfjarða. - Fundargerðir.

Lagðar fram fundargerðir Skólanefndar Framhaldsskóla Vestfjarða frá fundum 17. ágúst, 21. október og 2. desember 1999.

Lagt fram til kynningar.

15. Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ. - Fundargerðir 16. og 17. stjórnarf.

Lagðar fram fundargerðir 16. og 17. stjórnarfunda Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ.

Lagt fram til kynningar.

16. Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 660. stjórnarfundar.

Lögð fram fundargerð 660. stjórnarfundar Samb. ísl. sveitarfélaga, er haldinn var þann 14. janúar s.l. að Háaleitisbraut 11 í Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

17. Bréf frá kennurum í Tónlistarskóla á Ísafirði. - Launamál.

Lagt fram bréf frá kennurum við Tónlistarskóla á Ísafirði dagsett 3. febrúar s.l., er varðar kjaramál kennara við skólann og kröfur þeirra um úrbætur.

Bæjarráð tekur fram að Launanefnd sveitarfélaga er með samningsumboð Ísafjarðarbæjar og er erindið sent Launanefnd til kynningar.

18. Minnisblað bæjarstjóra. - Húsaleiga íþróttafélaga.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 4. febrúar s.l., þar sem rætt er um húsaleigu íþróttafélaga til Ísafjarðarbæjar vegna leigu á íbúðar- húsnæði af bænum. Bæjarstjóri leggur til við bæjarráð að íþróttafélögin fái styrk til greiðslu húsaleigu er færður verði með millifærslu í bókhaldi. Einnig að rætt verði við ÍBÍ um skilgreiningu á húsaleigu og húsaleiguþörf og í framtíðinni muni húsaleigustyrkur frá Ísafjarðarbæ vera fyrir fram ákveðinn fyrir hvert ár og ÍBÍ muni annast úthlutun hans.

Bæjarráð tekur undir tillögu bæjarstjóra og felur honum að gera drög að samningi við ÍBÍ og leggja fyrir bæjarráð á grundvelli minnisblaðsins. Jafnframt er bæjarstjóra falið að ganga frá húsaleigu ársins 1999 á grundvelli minnisblaðsins.

19. Samb. ísl. sveitarf. - Erindi um byggðamál.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 17. janúar s.l., ásamt erindum er flutt voru á fundi fulltrúaráðs Samb. ísl. sveitarf. 27. nóvember s.l. af Þorsteini Gunnarssyni, rektor Háskólans á Akureyri, Birnu Lárusdóttur, bæjarfulltrúa í Ísafjarðarbæ og Valtý Sigurbjörnssyni, ráðgjafa hjá Nýsi hf., um byggðamál.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:30

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.