Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

181. fundur

Árið 1999, mánudaginn 27. desember kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Byggingarnefnd leikskóla 13/12.
Fram kemur í fundargerð að heildarkostnaður við byggingu Sólborgar er kr. 96.067.373.- með lóð og lausum búnaði, heildarkostnaður pr. ferm. er því kr. 131.240.-

Bæjarráð þakkar byggingarnefnd vel unnin störf og leggur til við bæjarstjórn að nefndin verði leyst frá störfum þar sem byggingu er að fullu lokið.

Félagsmálanefnd 20/12.
Fundargerðin er í sjö liðum.
6. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við formann nefndarinnar og félagsmálastjóra.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Afrit símbréfs Vegagerðarinnar til stjórnar Hf. Djúpbátsins.

Lagt fram afrit símbréfs Vegagerðarinnar til stjórnar Hf. Djúpbátsins dagsett 21. desember s.l., þar sem greint er frá tveimur valkostum um lausn greiðsluerfiðleika Hf. Djúpbátsins. Kristinn Jón Jónsson, stjórnarformaður Hf. Djúpbátsins mætti til fundar við bæjarráð undir þessum lið.

Saga ferjusiglinga á vegum Hf. Djúpbátsins við Ísafjarðardjúp er orðin áratuga löng og hefur Fagranesið séð um samgöngur við eyjar og byggðir við Djúpið með dyggum hætti. Þrátt fyrir bættar samgöngur á landi er enn langt í land að þær fullnægi þeim kröfum er nútíma samfélag gerir til samgangna í dag. Er því afturför í að leggja Fagranesið niður sem samgöngutæki við Djúp. Bæjarráð minnir á fyrri samþykktir sínar um snjómokstur um Djúp, þar sem farið er fram á að veginum sé haldið opnum alla daga vikunnar, hamli veður því ekki.

Miðað við þá erfiðu stöðu sem rekstur Hf. Djúpbátsins er í, sér bæjarráð ekki aðra leið færa, en að mæla með valkosti tvö, sem kynntur er í minnisblaði Vegagerðarinnar dagsettu 7. desember s.l. undirritað af G.G.

Bæjarráð leggur áherslu á að leysa þarf þjónustu við eyjarnar Æðey og Vigur og samráð sé haft við Ísafjarðarbæ varðandi þá samgöngulausn er fyrir valinu verður. Minnt er einnig á að engar samgöngur á landi eru á milli norðanverðra Vestfjarða og V-Barðastrandarsýslu allt að sex mánuði á ári og hefur Ísafjarðarbær margoft bent á að hægt sé að nýta Fagranes til ferjusiglinga milli Þingeyrar og Bíldudals.

Bæjarráði þykir lítið hafa lagst fyrir kappa vora þingmenn að hafa ekki getað haldið Fagranesi inni á vegaáætlun og séð um að rekstur þess væri tryggður. Hvað þá með veigameiri mál í kjördæminu ?

3. Bréf Birnu Lárusdóttur v/kynnisferðar til Bandaríkjanna.

Lagt fram bréf Birnu Lárusdóttur, bæjarfulltrúa, dagsett á Þorláksmessu 1999. Þar greinir bréfritari frá væntanlegri kynnisferð sinni til Bandaríkjanna í boði bandarískra stjórnvalda. Birna er eini fulltrúi Íslands í sextán manna hópi, sem er frá fimmtán þjóðum.

Bæjarráð óskar Birnu til hamingju með boðið og telur Ísafjarðarbæ sýndur heiður með því. Bæjarstjóra falið að leggja til kynningarefni um sveitarfélagið Ísafjarðarbæ.

4. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. - Kynning á fjárfestingakostum á Vestfj.

Lagt fram bréf Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða dagsett 17. desember s.l., þar sem kynnt er staða svokallaðs fjárfestingaverkefnis, sem unnið hefur verið að um nokkurt skeið.

Lagt fram til kynningar.

5. Félagsmálaráðuneytið. - Kæra Hlöðvers Kjartanssonar v/Guðvarðar Kjartanssonar.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 16. desember s.l., þar sem greint er frá kæru Hlöðvers Kjartanssonar f.h. Guðvarðar Kjartanssonar á þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 12. maí 1999, að hafna kröfu kæranda um kaup bæjarins á íbúð kæranda að Hjallavegi 5, Flateyri, samkvæmt reglugerð nr. 533/1997.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu í samráði við bæjarlögmann.

6. Bréf Boltafélags Ísafjarðar. - Ósk um húsaleigustyrk.

Lagt fram bréf frá Boltafélagi Ísafjarðar dagsett 21. desember s.l., þar sem farið er fram á húsaleigustyrk vegna leigu félagsins á íbúð í Pollgötu 4, Ísafirði.
Jafnframt er í bréfinu kvartað yfir drætti á greiðslu frá Ísafjarðarbæ vegna rekstrarsamnings bæjarins við BÍ um rekstur íþróttavallarsvæðis á Torfnesi.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara og forsvarsmenn ÍBÍ og leggja tillögu fyrir bæjarráð.

7. Bréf Áslaugar J. Jensdóttur. - Lóðamál Aðalstræti 42, Ísafirði.

Lagt fram bréf Áslaugar J. Jensdóttur, Austurvegi 7, Ísafirði, dagsett 16. desember s.l., ásamt gögnum, er varða kaup hennar á Aðalstræti 42, Ísafirði og lóðamál Aðalstrætis 42, Ísafirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ljúka málinu.

8. Hagstofa Íslands, fréttabréf.

Lagt fram fréttabréf Hagstofu Íslands útgefið 16. desember s.l., þar sem birtar eru bráðabirgðatölur um mannfjölda á Íslandi þann 1. desember s.l. Samkvæmt þjóð- skrá voru 278.702 einstaklingar búsettir á landinu, 139.515 karlar og 139.187 konur. Á einu ári hefur Íslendingum fjölgað um 3.438 einstaklinga.

Lagt fram til kynningar.

9. Vinnumálastofnun, yfirlit yfir atvinnuástand í nóvember 1999.

Lagt fram bréf frá Vinnumálastofnun dagsett 17. desember s.l., þar sem gerð er grein fyrir atvinnuástandi í nóvember 1999.

Lagt fram til kynningar.

10. Erindi H.V.Í. í framhaldi af viðræðum Sigmundar Þórðarsonar, Þingeyri, við bæjarráð 20. desember s.l.

Lagt fram bréf frá stjórn H.V.Í. dagsett 23. desember s.l., þar sem tilkynnt er að stjórn H.V.Í. hefur ákveðið að sækja um að halda 24 Landsmót U.M.F.Í. árið 2004 í Ísafjarðarbæ. Er það von stjórnar H.V.Í. að bæjaryfirvöld séu tilbúin að taka þátt í þessu metnaðarfulla verkefni með héraðssambandinu.

Bæjarráð vísar erindinu til umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar.

11. Eignarhaldsfélag Vestfjarða hf. - Endurupptekið erindi frá 180. fundi bæjarráðs þann 20. desember s.l.

Endurupptekið erindi frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða dagsett 17. desember s.l., þar sem lögð er fram beiðni um þátttöku Ísafjarðarbæjar í Eignarhaldsfélagi Vestfjarða hf. Ákveðið hefur verið að boða til stofnfundar þriðjudaginn 28. desember n.k. kl. 17:00 í Þróunarsetri Vestfjarða.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að mæta til stofnfundarins fyrir hönd Ísafjarðarbæjar. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að hlutafé Ísafjarðarbæjar verði samkvæmt tillögu Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. kr. 1.543.693.- Bæjarráð veitir fulltrúum Ísafjarðarbæjar umboð til að tilnefna menn í stjórn.

12. Skólaskrifstofa Vestfjarða. - Fjárhagsáætlun/greiðsluáætlun 2000.

Lagt fram bréf Skólaskrifstofu Vestfjarða dagsett 21. desember s.l., ásamt fjárhagsáætlun og greiðsluáætlun Skólaskrifstofu fyrir árið 2000.

Lagt fram til kynningar.

13. Minnisblað bæjarverkfræðings. - Snjómokstur.

Lagt fram minnisblað Ármanns Jóhannessonar, bæjarverkfræðings, dagsett 16. desember s.l., þar sem hann gerir grein fyrir því að kostnaður við snjómokstur á þessu ári er nú þegar kr. 18.939.000.- og reikna má með að þessi kostnaður fari í allt að kr. 20.5 milljónir. Bæjarverkfræðingur leggur til að fjárveiting til snjómoksturs verði því aukin fyrir árið 1999, þar sem aðeins er gert ráð fyrir kr. 11.037.000.- í fjárhagsáætlun þessa árs.

Bæjarráð samþykkir að auknum kostnaði við snjómokstur verði mætt með lántökum.

14. Skóla- og menningarfulltrúi. - Kostnaður vegna Félagsh. á Suðureyri.

Lagt fram bréf Rósu B. Þorsteinsdóttur, skóla- og menningarfulltrúa dagsett þann 17. desember s.l., þar sem hún gerir grein fyrir kostnaði við rekstur Félagsheimilisins á Suðureyri, verði það í umsjón forstöðumanns félagsmiðstöðva Ísafjarðarbæjar. Bréfinu fylgir starfslýsing umsjónamanns Félagsmiðstöðvarinnar á Suðureyri.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við skóla- og menningarfulltrú varðandi samræmingu um starfsemi félagsmiðstöðva og vinnuskóla.

15. Aðalfundur Básafells hf., þriðjudaginn 28. desember 1999.

Bæjarráð samþykkir að Andri Árnason hrl., bæjarlögmaður, fari með atkvæði Ísafjarðarbæjar á aðalfundi Básafells hf., er haldinn verður á Grand Hótel í Reykjavík þann 28. desember n.k.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:29

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.