Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

180. fundur

Árið 1999, mánudaginn 20. desember kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Sigmundur Þórðarson, Þingeyri, mætti til fundar við bæjarráð.

Sigmundur Þórðarson, Þingeyri, mætti til fundar við bæjarráð sem formaður íþróttafélagsins Höfrungs á Þingeyri. Hann lagði fyrir bæjarráð þá hugmynd að sótt verði um að halda tuttugasta og fjórða Landsmót UMFÍ í Ísafjarðarbæ í júlí árið 2004. Umsóknarfrestur rennur út þann 31. desember n.k. Jafnframt lagði Sigmundur fram teikningar að hugmynd um uppbyggingu frjálsíþróttaaðstöðu á Þingeyri á því svæði sem núverandi aðstaða er á að hluta. Rætt var um kostnaðartölur annarra sveitarfélaga er haldið hafa síðustu landsmót UMFÍ.

2. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 14/12.
Fundargerðin er í átta liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 14/12.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Landbúnaðarnefnd 16/12.
3. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara spurningu landbúnaðarnefndar.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Aðrir liður fundagerðarinnar lagðir fram til kynningar.

Menningarnefnd 16/12.
Fundargerðin er í níu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf bæjarverkfræðings vegna Kaldár, Önundarfirði.

Lagt fram bréf Ármanns Jóhannessonar, bæjarverkfræðings, dagsett þann 16. desember s.l., svar við fyrirspurn bæjarráðs um hvort á jörðinni Kaldá í Önundarfirði gætu verið efnisnámur. Að mati bæjarverkfræðings er ekki áhugavert malarnám í landi jarðarinnar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að fallið verði frá forkaupsrétti.

4. Snorraverkefnið. - Erindi um stuðning.

Lagt fram bréf frá Reyni Gunnlaugssyni, verkefnisstjóra Snorraverkefnis, dagsett 14. desember s.l., þar sem leitað er eftir stuðningi við sveitarfélög um að taka á móti 2-3 ungum Vestur-Íslendingum í starfskynningu/sumarvinnu í 3 vikur sumarið 2000.

Bæjarráð vísar erindinu til fræðslunefndar og menningarnefndar.

5. Golfklúbbur Ísafjarðar, skýrsla stjórnar ofl.

Lagt fram bréf frá Golfklúbbi Ísafjarðar dagsett 15. desember s.l. ásamt skýrslu stjórnar fyrir árið 1999. Í bréfinu er falast eftir afnotum af landi frá jörðinni Tungu í Skutulsfirði, en leigusamningur um það land við fyrri leigutaka er nú útrunninn.

Bæjarráð vísar erindinu til fræðslunefndar og umhverfisnefndar.

6. Bréf félagsmálastjóra vegna samskipta við erlenda íbúa Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram bréf frá Kjell Hymer, félagsmálastjóra, dagsett 16. desember s.l., þar sem meðal annars er greint frá þeirri þörf sem er fyrir túlk í samskiptum félagsmálastjóra við einkum pólska íbúa Ísafjarðarbæjar og kostnaði þar að lútandi.

Bæjarráð óskar eftir að erindið verði tekið fyrir í félagsmálanefnd og frestar að taka afstöðu þar til umsögn félagsmálanefndar liggur fyrir.

7. Bréf Jensínu K. Jensdóttur. - Stöðugildi/barngildi á Grænagarði.

Lagt fram bréf Jensínu K. Jensdóttur, leikskólastjóra, Grænagarðs á Flateyri, dagsett 14. desember s.l., þar sem hún gerir grein fyrir starfsmannamálum og óstöðug- leika í fjölda barna í vistun.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

8. Bréf Sigurjóns G. Jónassonar ofl. - Snjómokstur að Brekku, Dýrafirði.

Lagt fram bréf Sigurjóns G. Jónassonar, Guðmundar S. Magnússonar og Hallgríms Sveinssonar dagsett 8. desember s.l., þar sem bréfritarar fara þess á leit að mokaður verði snjór af vegum frá Þingeyri að Brekku, til jafns við aðra bæi þar í sveit.

Erindinu vísað til umhverfisnefndar.

9. Orkubú Vestfjarða. - Varðar eignaraðild að Orkubúi Vestfjarða.

Lagt fram bréf Orkubús Vestfjarða dagsett 13. desember s.l., varðandi eignar- aðild að Orkubúi Vestfjarða. Þar er m.a. greint frá að ríkisstjórnin hafi á fundi sínum þann 12. október 1999 samþykkt að ganga til viðræðna við sameigendur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða um hugsanleg kaup ríkisins á eignarhluta þeirra í Orkubúinu.
Stjórn Orkubús Vestfjarða fer þess á leit við sveitarfélögin að þessi mál verði tekin til umræðu og stjórn Orkubús Vestfjarða verði gerð grein fyrir vilja sveitarfélaga til þessa máls.
Stjórn Orkubús Vestfjarða boðar til fundar þann 14. janúar 2000 kl. 14:00 í fundarsal Orkubúsins að Stakkanesi, Ísafirði, um þessi mál og mælist til að sveitarfélögin velji einn fulltrúa hvert til að mæta fyrir þess hönd. Á fundinum verði skipuð viðræðunefnd við ríkið verði það niðurstaðan.

Bæjarráð vísar umfjöllun um erindið til bæjarstjórnar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma á fundi milli bæjarfulltrúa, orkubússtjóra og formanni stjórnar Orkubús Vestfjarða fyrir næsta bæjarstjórnarfund.

10. Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða. - Kostnaður vegna túlks sumarið 1999.

Lagt fram bréf frá Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða dagsett 9. desember s.l., er varðar kostnað vegna pólsks túlks sumarið 1999 í kjölfar vinnustöðvunar Rauðsíðu. Svæðisvinnumiðlun óskar eftir þátttöku sveitarfélaga í þessum kostnaði og er farið fram á að hvert sveitarfélag greiði kr. 25.000.-

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

11. Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 658. stjórnarfundar.

Lögð fram 658. fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarf. er haldinn var föstu-daginn 26. nóvember 1999 að Háaleitisbraut 11 í Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

12. Launanefnd sveitarfélaga fundargerð 144. fundar.

Lögð fram fundargerð Launanefndar sveitarfélaga frá 144. fundi nefndarinnar er haldinn var föstudaginn 26. nóvember 1999 að Háaleitisbraut 11, Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

13. Minnisblað bæjarstjóra. - Heilsugæslustöð og hjúkrunarheimili Flateyri.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 17. desember s.l., ásamt bréfi framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar, Ísafjarðarbæ, dagsettu 15. desember 1999, þar sem greint er frá kostnaðarhlut Ísafjarðarbæjar kr. 132.353.- vegna kaupa á búnaði fyrir heilsugæslustöðina á Flateyri.
Meðfylgjandi er reikningur upp á kr. 308.823.- sem er samtala kostnaðarhlut-deildar þessa bréfs og kostnaðarhlutdeildar Ísafjarðarbæjar í bréfi Heilbrigðis-stofnunarinnar dagsettu 2. desember 1999, er varðar heilsugæslustöð og hjúkrunar- heimili á Flateyri.
Þess er óskað að reikningurinn verði greiddur við fyrstu hentugleika.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

14. Þroskahjálp. - Ályktanir landsþings Landssamtakanna Þroskahjálp.

Lagt fram bréf frá Landssamtökunum Þroskahjálp dagsett 9. desember s.l., ásamt samþykktum ályktunum á landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálp, er haldið var dagana 14. - 16. október 1999.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og sent fræðslunefnd og félagsmálanefnd til kynningar.

15. Kvennaráðgjöfin. - Beiðni um fjárframlag.

Lagt fram bréf frá Kvennaráðgjöfinni, Reykjavík, dagsett 15. desember s.l., þar sem beðið er um fjárframlag til Kvennaráðgjafarinnar fyrir rekstrarárið 2000.

Bæjarráð vísar erindinu til félagsmálanefndar.

16. Félagsmálaráðuneytið. - Kæra vegna sölu Sólbakka 6, Flateyri.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 15. desember s.l., þar sem tilkynnt er að ráðuneytinu hafi borist kæra frá Birni Jóhannessyni, hdl., fyrir hönd Jóhanns Magnússonar, dagsett 8. desember 1999, þar sem kærð er ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 16. september 1999, að taka tilboði Önfirðingafélagsins í Reykjavík, dagsettu 12. september 1999, í húseignina Sólbakka 6, Flateyri.
Óskað er eftir umsögn Ísafjarðarbæjar um efni framangreinds erindis og er frestur gefinn til 7. janúar 2000.
Bréfinu fylgir afrit af ofangreindri kæru.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.

17. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. - Stofnun Eignarhaldsfélags Vestfjarða.

Lagt fram bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða dagsett 17. desember s.l., varðandi beiðni um þátttöku Ísafjarðarbæjar í stofnun Eignarhaldsfélags Vestfjarða hf. Bréfinu fylgir samþykkt stjórnar Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. á 29. stjórnarfundi félagsins þann 14. desember 1999. Jafnframt fylgja drög að hluthafasamningi og samþykktum fyrir Eignarhaldsfélag Vestfjarða hf.

Bæjarráð óskar frekari upplýsinga frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða fyrir næsta bæjarráðsfund þann 27. desember n.k.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:55

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Sigurður R. Ólafsson.