Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

177. fundur

Árið 1999, mánudaginn 6. desember kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Bréf frá Lögbæ ehf., Reykjavík, vegna Ólafstún 7, Flateyri.

Lagt fram bréf frá Lögbæ ehf., Þverholti 2, Reykjavík, dagsett 23. nóvember s.l., þar sem gerð er krafa til greiðslu dráttarvaxta vegna tafa á greiðslu á uppkaupaverði eignarinnar Ólafstúns 7, Flateyri, er var í eigu Jóns Friðgeirs Jónssonar og keypt var upp á miðju ári 1998.

Bæjarráð hafnar greiðslu dráttarvaxta. Bent er á að uppgjör vegna endurgreiðslu fasteignagjalda fór fram þann 26. febrúar 1999.

2. Bréf Íbúðalánasjóðs hf., Reykjavík, vegna viðbótarlána árið 2000.

Lagt fram bréf frá Íbúðalánasjóði hf., dagsett þann 30. nóvember s.l., þar sem tilkynnt er að Ísafjarðarbær fái til úthlutunar í viðbótarlán kr. 18.000.000.- til íbúðakaupa í Ísafjarðarbæ á árinu 2000.

Erindinu vísað til húsnæðisnefndar.

3. Tvö bréf frá Eignarhaldsf. Brunabf. Íslands, v/styrktarsjóðs EBÍ.

Lagt fram bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands dagsett 30. nóvember s.l., þar sem tilkynnt er að Ísafjarðarbær hljóti styrk upp á kr. 400.000.- úr styrktarsjóði EBÍ, til að kynna jafnréttisáætlun Ísafjarðarbæjar. Styrkurinn er greiddur út í desember 1999.

Jafnframt er fram lagt bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands dagsett 30. nóvember s.l., þar sem hafnað er styrkjum úr styrktarsjóði EBÍ til fornleifaskráningar og húsakönnunar.

Bæjarráð þakkar veittan styrk frá styrktarsjóði EBÍ og vísar tilkynningu um styrkveitingu til félagsmálanefndar.

4. Bréf Eimskipafélags Íslands, eftirgjöf flutningsgjalda.

Lagt fram bréf frá HF Eimskipafélagi Íslands dagsett þann 30. nóvember s.l., þar sem félagið gefur eftir flutningsgjöld af listaverki er flutt er frá Englandi til Ísafjarðar. Forflutningskostnaður í Englandi greiðist af viðtakanda.

Bæjarráð þakkar Eimskipafélagi Íslands og vísar erindinu til menningarnefndar.

5. Bréf Verkfræðist. Sig. Thor. hf. - Gatna- og lagnahönnun Tunguskeiði.

Lagt fram bréf frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., Ísafirði, dagsett þann 30. nóvember s.l., er varðar gatna- og lagnahönnun á Tunguskeiði, Ísafirði.
Fram kemur í bréfinu að í júní 1996 gerði VST tilboð í gatna- og lagnahönnun á Tunguskeiði, Ísafirði, samkvæmt útboðsgögnum tæknideildar og var VST lægstbjóðandi upp á kr. 2.700.000.-
Verkefninu var þá frestað vegna snjóflóðahættu. En þar sem til stendur að bjóða út framkvæmdir við snjóflóðavarnir fyrir svæðið, vill VST minna á þetta verkefni.

Bæjarráð bendir á að ekki hefur verið tekin ákvörðun um framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Seljalandshlíð og á meðan er afgreiðslu erindisins frestað. Erindið sent umhverfisnefnd til kynningar.

6. Bréf umhverfisráðuneytis vegna endurgreiðslu uppkaupalána.

Lagt fram bréf umhverfisráðuneytis dagsett 25. nóvember s.l., þar sem ráðuneytið tilkynnir um afgreiðslu Ofanflóðasjóðs á erindi Ísafjarðarbæjar um uppborgun lána er tekin voru á árinu 1998 til uppkaupa á Ólafstúni 6, 7, 9 og Goðatúni 14, Flateyri.

Að tillögu Ofanflóðanefndar fellst ráðuneytið á að ofangreindar fasteignir verði seldar og að uppgjöri vegna sölu eignanna verði háttað svo sem Ísafjarðarbær hafði lagt til.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Skíðafélags Ísfirðinga.-Fyrirspurnir um skíðasvæði Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram bréf frá Skíðafélagi Ísfirðinga dagsett 29. nóvember s.l., þar sem fram koma neðangreindar spurningar.
Hvenær er fyrirhugað að opna skíðasvæðið ?
Hver verður opnunartími ?
Hvernig verður samgöngum háttað innan Ísafjarðarbæjar, til og frá skíðasvæði ?

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.

8. Bréf Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., vegna Auðuns Guðmundssonar.

Lagt fram bréf Sigríðar R. Júlíusdóttur lögfr., f.h. Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., er varðar uppkaup fasteignanna Heimabær 2 og Smárateigur 3, Hnífsdal. Ísafjarðarbær keypti eignirnar af Auðni J. Guðmundssyni, þar sem þær voru taldar á snjóflóðahættusvæði í Hnífsdal.
Í bréfinu er þess krafist að gengið verði til formlegra samningaviðræðna við seljanda, um leiðréttingu kaupverðs eignanna. Að öðrum kosti verði höfðað mál fyrir dómstólum til innheimtu rétts kaupverðs ásamt dráttarvöxtum og kostnaði.

Bæjarráð hafnar samningaviðræðum og telur málið vera frágengið.

9. Bréf Súðavíkurhrepps, v/ skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram bréf Súðavíkurhrepps dagsett 30. nóvember s.l., þar sem greint er frá umfjöllun hreppsnefndar, á fundi sínum þann 25. nóvember 1999, um bréf Ísafjarðarbæjar frá 9. nóvember 1999, er varðar skóla- og fjöldkylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf Koltru, Þingeyri, v/upplýsingamiðstöð ferðamála árið 2000.

Lagt fram bréf frá handverkshópnum Koltru, Þingeyri, dagsett 29. nóvember s.l., er varðar rekstur upplýsingamiðstöðvar ferðamála s.l. sumar og árið 2000.
Hópurinn fer fram á að upplýsingamiðstöð ferðamála verði rekin á Þingeyri framvegis og er fús til samstarfs um það verkefni.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarnefndar.

11. Minnisblað bæjarstjóra. - Snjóflóðavarnargarður í Seljalandshlíð.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 3. desember s.l., þar sem hann greinir frá könnun sinni um hvort breyttar hönnunarforsendur séu fyrir snjóflóðarvarnargarði í Seljalandshlíð. Fyrir liggur bréf Veðurstofu Íslands varðandi málið, en jafnframt er vænst svara frá umhverfisráðuneyti.

Lagt fram til kynningar.

12. Bréf Ólafs Geirssonar, Seljalandsv. 102, Ísafirði. - Uppkaup fasteignar.

Lagt fram bréf frá Ólafi Geirssyni, Seljalandsvegi 102, Ísafirði, dagsett þann 2. desember s.l., þar sem hann fer fram á að Ísafjarðarbær kaupi eigninga Seljalandsveg 102, Ísafirði, þar sem hún stendur á snjóflóðahættusvæði og er óseljanleg á frjálsum markaði.
Verði ekki fallist á kaup fasteignarinnar, er þess farið á leit við bæjaryfirvöld að heimil verði þegar í stað bygging bílgeymslu við húsið og hluti hennar innréttaður sem dvalarstaður íbúa á hættutímum. Ísafjarðarbær taki þátt í kostnaði við þann hluta bílgeymslunnar.

Bæjarráð hafnar uppkaupum, en vísar erindi um byggingu bílgeymslu til umhverfisnefndar, án viðurkenningar á þátttöku í kostnaði.

13. Frumvarp að fjárhagsáætlun ársins 2000 lagt fram í bæjarráði.

Bæjarstjóri lagði fram drög að frumvarpi fjárhagsáætlunar fyrir bæjarsjóð Ísafjarðarbæjar og stofnanir hans fyrir árið 2000.

Meirihluti bæjarráðs vísar tillögunum til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Bæjarráðsmaður Sigurður R. Ólafsson lætur bóka eftirfarandi.
,,Bókun v/13. liðar dagskrár 177. fundar bæjarráðs Ísafjarðarbæjar."
Ég undirritaður kjörinn fulltrúi K-lista í bæjarráði, mótmæli því harðlega að þessum gögnum sem hér liggja frammi, svo merkt

,,Fjárhagsáætlun 2000 frumvarp."
Ísafjarðarbær og stofnanir.
Lagt fram 3. des. 1999

verði héðan af þessum fundi vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á bæjarstjórnarfundi hinn 9. des. n.k., þar eð þessir papírar er hér eru framlagðir, hafa hvorki fengið lögformlega né efnislega meðferð samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
Frumdrög að fjárhagsáætlun eins og hún kom frá nefndum bæjarins, hefur aldrei verið lögð fyrir bæjarráð, þann aðila er samkvæmt lögum á að annast verkefnið, en þessi gorminnbundnu gögn eru þriðja útgáfa fjárhagsáætlunar og ég óska upplýsinga um hvaða aðilar séu ábyrgir fyrir áorðnum breytingum frumgagna ?
Eitt er víst að fulltrúi minnihluta í bæjarráði, er alfarið sniðgenginn við undirbúningsvinnu að gerð fjárhagsáætlunar, enda hér sannanlega um að ræða fyrstu gögn sem koma fyrir bæjarráð, allt frá því að vinnuferill að gerð hennar var lagður fram. (sbr. 167. fundur bæjarráðs 27. sept. s.l.)
52. gr. bæjarmálasamþykktar Ísafjarðarbæjar 24/5 1998, getur ekki verið skýrari og það vekur furðu mína, ef hvorki meirihlutafulltrúar bæjarráðs né bæjarstjóri beri skynjun á innihald greinarinnar.
Tilvísun úr 52. gr.
,,Bæjarráð hefur umsjón með stjórnsýslu bæjarfélagsins, undirbúningi árlegrar fjárhagsáætlunar, semur drög að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og bæjarfyrirtækja að fengnum tillögum viðeigandi stjórna og leggur þau fyrir bæjarstjórn í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga." (Tilvitnun lýkur.)
Hafi meirihlutafulltrúar bæjarráðs gefið samþykki sitt fyrir þessum vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð, þá harma ég að þau skuli ekki vera betur meðvituð um verksvið sitt en raun er á, eftir eins og hálfs árs setu í meirihluta.
Ég áskil mér því allan rétt, til að kæra þessi vinnubrögð til æðra stjórnsýslustigs.
Undirritað af Sigurði R. Ólafssyni, bæjarráðsfulltrúa K-lista.

Með bókun þessari fylgir greinargerð frá Sigurði dagsett 6. desember 1999.

Formaður bæjarráðs Ragnheiður Hákonardóttir lætur bóka eftirfarandi.
,,Á bæjarráðsfundi þann 22. nóvember s.l., var dreift til bæjarráðsmanna án bókunar í bæjarráði fyrstu samtölum úr fjárhagsáætlun, rekstrar- og framkvæmdayfitliti á einu blaði og yfirliti yfir fjárfestingar á tveimur blöðum.
Þann 25. nóvember s.l. fengu fulltrúar í bæjarráði undirgögn ásamt greinargerðum. 30. nóvember s.l. lágu frammi undirgögn fyrir alla bæjarfulltrúa á skrifstofu Ísafjarðarbæjar. 3. desember s.l. komu allir bæjarfulltrúar saman og ræddu fjárhagsáætlun. Sama dag var haldinn fundur bæjarfulltrúa með sviðsstjórum og formönnum nefnda. Með framlagningu gagna sem að framan greinir telur formaður bæjarráðs að bæjarfulltrúar hafi fengið þau undirgögn sem nauðsynleg eru við vinnu fjárhagsáætlunar og þau þannig framlögð með sannnanlegum hætti."

14. Mánaðarskýrsla fjármálastjóra. - Rekstur og fjárfest. jan.-okt. 1999.

Lagt fram bréf fjármálastjóra Þóris Sveinssonar dagsett 6. desember s.l., ásamt mánaðarskýrslu um rekstur og fjárfestingar Ísafjarðarbæjar fyrir tímabilið janúar - október 1999. Jafnframt kemur fram í bréfinu spá um rekstur og fjárfestingar á árinu.

Lagt fram til kynningar.

15. Svör bæjarstjóra við spurningum Sigurðar R. Ólafssonar, frá 176. fundi bæjarráðs þann 30. nóvember s.l.

Lögð fram svör Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra við spurningum Sigurðar R. Ólafssonar, við 4. lið fundargerðar bæjarráðs frá 30. nóvember s.l. 176. fundi.

Spurning 1. Á hvaða forsendum tekur bæjarstjóri sér það vald að leyfa sér að ráða ráðgjafa í sérstakt verkefni ?

Svar. Forsendur fyrir því ,,valdi" sem bæjarstjóri tekur sér að leyfa sér að ráða ráðgjafa í sérstakt verkefni eru þær að nauðsynlegt var að bregðast við þeim skilaboðum sem bárust frá Guðmundi Kristjánssyni, aðaleiganda Básafells hf., að hann þyrfti að selja meiri eignir og hraðar en upphaflega hefði verið áætlað. Lengi hefur verið vitað að Guðmundur hafi ætlað sér að selja mikið af eignum Básafells hf. og lækka þar með skuldir. Nú virðist sem svo að hann ætli sér að selja allar eignir sem mögulegt er að selja. Umræða hefur átt sér stað meðal bæjarfulltúra um þessa stöðu þó ekki hafi hún verið á formlegum vettvangi.
Það var mat undirritaðs eftir að hafa rætt við fulltrúa meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn að ekki mætti draga það lengur að skoða stöðu mála og átta sig á því hvort möguleiki væri á að ná heimamönnum sem hlut eiga í Básafelli til að kaupa aflaheimildir af Básafelli áður en þær verði seldar og þá mjög líklega í burtu af svðinu. Það ,,vald" sem bæjarfulltrúi Sigurður nefnir í fyrirspurn sinni er byggt á þeim miklu hagsmunum sem felast í því fyrir samfélag okkar í tenglum við þetta mál. Undirritaður er reyndar ekki sammála bæjarfulltrúanum um að þetta endurspegli mikið vald bæjarstjóra, telur bæjarstjóra ekki valdamikinn þótt hann geti ráðið ráðgjafa í starf tímabundið. Ekki má ráða annað af lögum og bæjarmálasamþykkt en að bæjarstjóra sé heimil þessi ráðstöfun þar sem til er fjármagn fyrir henni skv. fjárhagsáætlun.

Spurning 2. Er þessi ráðstöfun gerð með vitund og vilja fulltrúa meirihlutaflokkanna í bæjarráði ?

Svar. Eins og leiða má af svari við spurningu n. l var fulltrúum meirihlutaflokkanna kunnugt um þessa ráðstöfun og er hún gerð eftir samráð við þá.

Spurning 3. Hvaðan er áætlað að greiða þann kostnað er af þessum gjörningi hlýst ?

Svar. Áætlað er að greiða kostnað sem af þessum gjörningi hlýst af lið 15-65-432-1 Stefnumótunarvinna, úttekt á rekstri. Á þennan lið er áætlað kr. 2.800.000.- og búið er að bóka á hann kr. 1.664.000.- í dag.

Undirritaður mun óska eftir því, að undangengnu samþykki bæjarráðs, við stjórn Byggðastofnunar að hún greiði laun ráðgjaga með sama hætti og gert var í Þingeyrarverkefni fyrr á þessu ári. Samþykki stjórnin það fellur kostnaður ekki á Ísafjarðarbæ vegna vinnu Haraldar L. Haraldssonar frekar en vegna vinnu hans við Þingeyrarverkefnið.

Spurning 4. Hvað með atvinnuráðgjafann í byggðarlaginu ? Hvers vegna er honum ekki treyst í verkefnið ?

Svar. Atvinnuráðgjafinn í byggðarlaginu hefur verið beðinn um samstarf vegna þessa máls. Framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélagsins var í öðru verkefni á leið til Noregs þegar Haraldur var ráðinn. Í fjarveru hans var leitað til markaðsráðgjafa Atvinnuþróunarfélagsins og fylgdist hann með málinu. Spurt er hvers vegna atvinnuráðgjafanum sé ekki treyst í verkefnið. Undirritaður hefur ekki sagt að honum sé ekki treyst í verkefnið svo að spurningin hlýtur að vera byggð á misskilningi eða lýsa skoðun bæjarfulltrúa Sigurðar Ólafssonar. Litið var til reynslu Haraldar L. Haraldssonar af álíka verkefnum t.d. á Djúpavogi og á Þingeyri og þess vegna talinn álitlegur kostur að nýta hans reynslu og þekkingu í þetta verkefni.

Bæjarráðsmaður Sigurður R. Ólafsson lætur bóka þakkir fyrir skýr og greinargóð svör bæjarstjóra.

Lagt fram til kynningar.

16. Minnisblað bæjarstjóra. - Básafell hf., málefni hluthafa.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 6. desember 1999, þar sem hann gerir grein fyrir störfum Haraldar L. Haraldssonar, ráðgjafa, sem ráðinn var vegna málefna Básafells hf.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:58

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.