Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

172. fundur

Árið 1999, mánudaginn 1. nóvember kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 26/10.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Húsnæðisnefnd 25/10.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 27/10.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Minnisblað bæjarstjóra. - Skíðalyfta Seljalandsdal.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 25. október s.l., er varðar endurmat á tjóni vegna skíðalyftu Ísafjarðarbæjar, sem varð fyrir snjóflóði s.l. vetur á Seljalandsdal. Endurskoðuð bótafjárhæð að mati beggja aðila er að upphæð kr. 26.164.728.-

Jafnframt er fram lagt bréf bæjarstjóra til Viðlagatryggingar, dagsett 25. október s.l., þar sem ítrekað er gengið eftir svari hvort skíðalyftan verði tryggð áfrm á sama stað og undirstöður hennar standa nú á Seljalandsdal.

Bæjarráð telur, með tilvísun í 3. fund starfshóps um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðis á Ísafirði, er haldinn var þann 30. ágúst s.l., að Viðlagatrygging eigi að greiða tjónið eins og um altjón sé að ræða, þar sem ekki er ásættanlegur valkostur að byggja upp skíðalyftu að nýj á Seljalandsdal.

3. Sýslumaðurinn á Ísafirði. - Umsögn um rekstur gistiskála.

Lagt fram bréf frá sýslumanninum á Ísafirði dagsett 25. október s.l., þar sem hann óskar umsagnar Ísafjarðarbæjar á umsókn Vilmundar Reimarssonar, Hreggnasa, Bolungarvík, um leyfi til reksturs gistiskála í Bolungarvík á Hornströndum.

Erindinu vísað til umhverfisnefndar.

4. Kærunefnd húsnæðismála, vegna kæru Harðar Kristjánssonar ofl.

Lagt fram bréf frá kærunefnd húsnæðismála dagsett 21. október s.l., ásamt úrskurði nefndarinnar í kærumáli Harðar Kristjánssonar og Fríðu Albertsdóttur gegn húsnæðisnefnd Ísafjarðarbæjar.

Úrskurðarorð: ,,Kærunefnd húsnæðismála vísar máli Harðar Kristjánssonar og Fríðu Albertsdóttur til húsnæðisnefndar Ísafjarðarbæjar að nýju til meðferðar og beinir því til nefndarinnar að gerðar verði ráðstafanir til að rétta hlut kærenda."

Lagt fram til kynningar.

5. Magnús H. Árnason hdl., fyrirspurn um forkaupsrétt.

Lagt fram bréf frá Magnúsi H. Árnasyni hdl., Hafnarhvoli/Tryggvagötu, Reykjavík, dagsett 22. október s.l., ásamt afriti af kauptilboði í m.b. Súgfirðing ÍS 16, skipaskrárnúmer 1318. Óskað er svars um hvort Ísafjarðarbær muni notfæra sér forkaupsrétt sinn.

Bæjarráð hafnar forkaupsrétti.

6. Afrit bréfs til ÁTVR, vegna endurnýjunar á smásöluleyfi.

Lagt fram bréf til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, Stuðlahálsi 2, Reykjavík, dagsett 27. október s.l., þar sem endurnýjað er smásöluleyfi fyrir verslun að Aðalstræti 20, Ísafirði.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Pálinu J. Jensdóttur, fyrirspurn um forkaupsrétt á fjósi Kirkjubæ.

Lagt fram bréf frá Pálinu J. Jensdóttur, Hlíðarvegi 14, Ísafirði, dagsett 28. október s.l., þar sem segir að til standi að selja 2/3 hluta af fjósi á jörðinni Kirkjubæ í Skutulsfirði. Spurt er hvort Ísafjarðarbær muni notfæra sér forkaupsrétt ef af sölu verður. Hjálagt fylgja drög að tveimur kaupsamningum með afsali.

Guðni G. Jóhannesson vék af fundi undir þessum lið.

Bæjarráð tekur ekki afstöðu til erindisins, þar sem ekki liggja fyrir undirritaðir samningar um kaup á eignarhlutum í fjósinu.

8. Sýslumaðurinn á Ísafirði. - Umsögn vegna veitingar vínveitingaleyfis.

Lagt fram bréf frá sýslumanninum á Ísafirði dagsett 27. október s.l., þar sem hann svarar fyrirspurn Ísafjarðarbæjar um umsögn embættisins á veitingu vínveitingaleyfis fyrir veitingastaðinn á Eyrinni. Svar sýslumanns er svohljóðandi. ,,Ekki er unnt að mæla með veitingu leyfis þar eð umsækjandi hefur ekki veitingaleyfi." Sótt hefur verið um veitingaleyfi, en staðið hefur á umsögn Vinnueftirlitsins.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að upplýsa umsækjanda um stöðu málsins.

9. Samb. ísl. sveitarf. - Félagsþjónusta á nýrri öld.

Lögð fram dagskrá frá Samb. ísl. sveitarf. og samtökum félagsmálastjóra á Íslandi, um ráðstefnu er nefnd hefur verið ,,Félagsþjónusta á nýrri öld, viðhorf, ábyrgð, framtíðarsýn," er haldin verður þann 12. nóvember n.k. í Tónlistahúsi Kópavogs.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og vísað til félagsmálanefndar til kynningar.

10. ÁRVEKNI - Þriggja ára átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga.

Lagt fram bréf frá Árvekni, kynning á þriggja ára átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga. Ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 8. október 1997 tillögu heilbrigðisráðherra um þriggja ára átaksverkefni til fækkunar slysa á börnum og unglingum.

Erindinu vísað til félagsmálanefndar og fræðslunefndar.

11. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. - Fundargerð 26. stjórnarfundar.

Lagt fram bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða dagsett 26. október s.l., ásamt fundargerð 26. stjórnarfundar Atvinnuþróunarfélagsins frá 21. september 1999.

Lagt fram til kynningar.

12. Hagstofan, fréttabréf. - Sveitarsjóðareikningar 1998.

Lagt fram fréttabréf frá Hagstofu Íslands dagsett 22. október s.l., um sveitasjóðareikninga ársins 1998. Þar kemur fram að halli sveitarfélaga á árinu 1998 var 4,5 milljarðar króna, en var á árinu 1997 3,5 milljarðar króna.

Lagt fram til kynningar.

13. Bréf bæjarverkfræðings. - Tréver s.f., sorpeyðingagjöld.

Lagt fram bréf frá Ármanni Jóhannessyni, bæjarverkfræðingi, dagsett 29. október s.l., varðandi beiðni Trévers s.f., í bréfi 5. október s.l., um endurskoðun á sorpeyðingagjaldi. Þar sem ekki er hægt að staðfesta upplýsingar Trévers s.f., um sorp á árinu 1999, er endurskoðun þess árs hafnað.

Bæjarráð staðfestir úrskurð bæjarverkfræðings.

14. Edinborgarhúsið ehf., Ísafirði.

Svohljóðandi bókun var gerð í bæjarráði með tilvísun til 3.liðar í 171. fundargerð bæjarráðs frá 25. október s.l., vegna erindis Edinborgarhússins ehf., Ísafirði.

,,Bæjarráð Ísafjarðarbæjar lýsir ánægju með þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað til þessa við Edinborgarhúsið á Ísafirði. Ísafjarðarbær hefur lagt þessu verkefni lið hvað varðar samninga um lóðamál, rekstrarstyrk til ýmissa félaga sem eru með rekstur sinn í húsinu auk þess sem bærinn leigir aðstöðu af Edinborgarhúsinu undir rekstur upplýsingamiðstöðvar ferðamála.

Stefnt er að því að Ísafjarðarbær komi að uppbyggingu Edinborgarhúss með því að vinna að þeim verkefnum er teljast til skylduverkefna sveitarfélags m.a. á sviði umhverfismála og annarra uppbyggingar sem skipulag sveitarfélagsins gerir ráð fyrir og samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, hverju sinni.

15. Snjómokstur Vegagerðarinnar á norðanverðum Vestfjörðum.

Að gefnu tilefni bendir bæjarráð Ísafjarðarbæjar samgönguráðherra, Vegagerð og þingmönnum Vestfjarða á, að norðanverðir Vestfirðir eru eitt samgöngu-, skóla-, atvinnu- og þjónustusvæði. Í ljósi þeirra kvartana sem borist hafa strax í fyrstu snjóum um snjómokstur innan svæðisins, vill bæjarráð árétta að ekki verði um skerðingu á þjónustu að ræða frá því sem verið hefur. Þess heldur telur bæjarráð að auka beri þjónustu á þessu sviði og bendir á að enn er ekki búið að fjölga snjómokstursdögum í sjö í viku hverri frá Ísafirði að Brú í Hrútafirði, eins og aðstæður í nútíma þjóðfélagi hljóta að krefjast.

Fleira ekki gert fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:20

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.