Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

164. fundur

Árið 1999, mánudaginn 6. september kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 31/8.
Fundargerðin er í sex liðum.
Undir lið nr. 1 bókar bæjarráð:

"Með tilliti til þeirrar vinnu sem nú fer fram um framtíðarskíðasvæði, telur bæjarráð nauðsynlegt að skipulagsvinna við svæðið taki tillit til allrar framtíðarskipanar á svæðinu öllu. Því verði hluti svæðisins ekki tekinn út í flýti og skipulagður á undan öðrum."
Undir liðnum önnur mál í fundargerð fræðslunefndar lætur bæjarstjóri bóka eftirfarandi: "Bæjarstjóri tók ákvörðun um að leggja til við bæjarstjórn að ákveðinn kostnaður yrði færður af liðnum "námsráðsgjafi" eftir að ljóst var að sá liður yrði ekki allur nýttur. Yfirmaður viðkomandi sviðs var ekki í vinnu til að ráðfæra sig við þegar þetta er gert."

Húsnæðisnefnd 30/8.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Starfshópur um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðis á Ísafirði 30/8.
Fundargerðin er í fimm liðum.

2. Erindi vegna sölu hlutar úr jörðinni Lækjarós, Dýrafirði.

Tekið fyrir erindi um sölu eins hektara úr landi jarðarinnar Lækjaróss í Dýrafirði, samkvæmt 6. lið fundargerðar umhverfisnefndar frá 92. fundi 25. ágúst 1999. Erindinu fylgja nú gögn er fram voru lögð í umhverfisnefnd svo sem bréf Gunnþórunnar Friðriksdóttur 29. júlí s.l., bréf Guðrúnar H. Jónsdóttur 10. ágúst s.l. og kaupsamningur dagsettur 24. júlí s.l.

Bæjarráð samþykkir söluna fyrir sitt leyti en bendir á að erindið skal berast jarðanefnd.

3. Hf. Djúpbáturinn bréf vegna innheimtumála.

Lagt fram bréf frá Hf. Djúpbátnum dagsett 30. ágúst s.l., undirritað af Kristni Jóni Jónssyni, formanni stjórnar, ásamt afriti af innheimtubréfi frá lögfræðistofu Tryggva Guðmundssonar f.h. Ísafjarðarbæjar.

Bæjarstjóra falið að ræða við stjórnarformanninn og leita upplýsinga um stöðu mála hjá Hf. Djúpbátnum. Að loknum viðræðum verði bæjarráð upplýst til ákvörðunar um framhald málsins þar sem bæjarsjóður Ísafjarðarbæjar er meirihlutaeigandi af Hf. Djúpbátnum.

4. Drög að samningi við skólastjórnendur Grunnskóla á Ísafirði.

Lögð fram drög að samningi við skólastjórnendur Grunnskóla á Ísafirði, vegna heilsdagsskóla skólaárið 1999 - 2000. Drögin eru samhljóða samningi vegna heilsdagsskóla á síðasta skólaári.

Bæjarráð samþykkir samninginn. Bæjarstjóra er falið að upplýsa Samband íslenskra sveitarfélaga um samninginn og óska eftir umræðu á þeim vettvangi um kostnað sveitarfélaga vegna heilsdagsskóla.

5. Samb. ísl. sveitarf.-Aðkoma sveitarf. að rekstri fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 31. ágúst s.l., varðandi fyrirtöku bréfs Samtaka ferðaþjónustunnar dagsettu 27. júlí s.l., sem tekið var fyrir á stjórnarfundi þann 25. ágúst s.l. Hjálagt fylgir bréf Samtaka ferðaþjónustunnar til upplýsinga.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf Kristnihátíðarnefndar vegna útgáfu bæklings á 1000 ára afmæli.

Lagt fram bréf Kristnihátíðarnefndar dagsett 16. ágúst s.l., þar sem kynnt er útgáfa á bæklingi sem unninn var í samstarfi við Námsgagnastofnun í tengslum við 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Bæklingurinn er ætlaður kennurum, prestum og öðrum þeim sem vinna með börnum og unglingum og vilja fjalla um kristnitökuna og sögu kristni á Íslandi.

Vísað til fræðslu- og menningarnefnda.

7. Bréf Sigurðar Hafberg, forstöðumanns íþróttamiðstöðvar á Flateyri.

Lagt fram bréf frá Sigurði Hafberg, forstöðumanni íþróttamiðstöðvar á Flateyri, dagsett 1. september s.l., þar sem hann dregur til baka áður senda uppsögn sína sem forstöðumaður íþróttamiðstöðvar á Flateyri.

Bæjarstjóri upplýsir að Sigurður Hafberg dró uppsögn sína til baka í símtali við bæjarstjóra stuttu eftir að hann sendi uppsagnarbréf sitt.

8. Ályktun íbúasamtakanna Átaks á Þingeyri.

Lögð fram ályktun íbúasamtakanna Átaks á Þingeyri, ályktunin er ódagsett. Þar er farið fram á við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að Haraldur L. Haraldsson, ráðgjafi, haldi áfram störfum við uppbyggingu atvinnulífs á Þingeyri. Jafnframt er fagnað þeim áföngum sem náðst hafa í atvinnuuppbyggingu á Þingeyri, með stofnun Fjölnis ehf., starfsemi Íslenskrar miðlunar á Þingeyri og væntanlegum fiskmarkaði. Íbúasamtökin fagna og þeirri góðu gjöf Fjölnis til skólans á Þingeyri, sem tengd er við Framtíðarbörn.

Bæjarráð þakkar fyrir hlý orð til bæjarins og bendir á að Haraldur L. Haraldsson er ráðinn tímabundið sem ráðgjafi hjá Ísafjarðarbæ.

9. Samband íslenskra sveitarfél. - náttúruvænar lausnir í frárennslismálum.

Lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dagsett 26. ágúst s.l., varðandi fyrirlestur sem haldinn verður fimmtudaginn 9. september n.k. kl. 14:00 á fjórðu hæð í húsnæði Sambandi íslenskra sveitarfélaga að Háaleitisbraut 11, Reykjavík, um náttúruvænar lausnir í frárennslismálum. Fyrirlesari er Erik Brydolf og fer fyrirlesturinn fram á sænsku, en á staðnum verður túlkur ef á þarf að halda.

Lagt fram til kynningar.

10. Umboðsmaður Alþingis. - Erindi Hlöðvers Kjartanssonar, vegna Sveinbjargar Hermannsdóttur og Guðvarðar Kjartanssonar.

Lagt fram bréf frá umboðsmanni Alþingis dagsett 26. ágúst s.l., þar sem fram kemur kvörtun frá Hlöðver Kjartanssyni hdl., fyrir hönd Sveinbjargar Hermannsdóttur og Guðvarðar Kjartanssonar, vegna álagningar Ísafjarðarbæjar á holræsagjaldi á húseignirnar Eyrargötu 12, Suðureyri og Hjallaveg 5, Flateyri o.fl.

Bæjarstjóra falið að svara Umboðsmanni Alþingis.

11. Bréf bæjarverkfræðings um stöðu framkvæmda 1999.

Lagt fram bréf frá Ármanni Jóhannessyni, bæjarverkfræðingi, dagsett 30. ágúst s.l., þar sem hann í fylgigögnum gerir grein fyrir stöðu verklegra framkvæmda 1999, sem eru í umsjón tæknideildar.

Bæjarstjóri felur bæjarstjóra að fara yfir, í samráði við bæjarverkfræðing, hvaða framkvæmdum er hugsanlega hægt að fresta og leggja tillögu þar að lútandi fyrir bæjarráð.

12. Lögsýn ehf., v/Strætisvagna Ísafjarðar hf., uppl. varðandi kvöldakstur.

Lagt fram bréf frá Lögsýn ehf., vegna Strætisvagna Ísafjarðar hf., dagsett 3. september s.l., þar sem fram koma upplýsingar er leitað var eftir, með tilvísun í bókun bæjarráðs við 8. lið fundargerðar bæjarráðs frá 163. fundi.
Fram kemur að fjöldi farþega í kvöldferðum er að jafnaði 35-40 á hverju kvöldi. Þá er áréttað að verktaki er reiðubúinn að framlengja samningi sem í gildi var um kvöldakstur óbreyttan að öðru leyti en því að um vísitöluhækkanir verði að ræða í samræmi við verðlagsbreytingar.

Bæjarráð leggur áherslu á að Grunnskólinn á Ísafirði og skyldar stofnanir nýti sér almenningssamgöngur innan bæjarins og skipuleggi starf sitt í tengslum við kvöldakstur.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga við verktaka innan núverandi fjárhagsárs.

13. Nettengsl ehf., nýtt fyrirtæki varðandi atvinnuauglýsingar.

Lagt fram bréf frá Nettengslum ehf., Eiðismýri 3, Seltjarnarnesi, dagsett 30. ágúst s.l., þar sem kynnt er nýtt fyrirtæki varðandi atvinnuauglýsingar.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:43.

 

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.