Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

162. fundur

Árið 1999, mánudaginn 23. ágúst kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.
        Félagsmálanefnd 17/8.
            Fundargerðin er í sex liðum.
            3. liður. Bæjarráð samþykkir tillögu félagsmálanefndar um reglur um fjárhagsaðstoð.
            4. liður. Bæjarráð samþykkir tillögu félagsmálanefndar.
            Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

2. Bréf sýslumannsins á Ísafirði. - Gistiheimili að Mánagötu 6a, Ísafirði.

Lagt fram bréf frá sýslumanninum á Ísafirði dagsett 18. ágúst s.l., þar sem óskað er eftir umsögn Ísafjarðarbæjar á umsókn Auðar E. Ásbergsdóttur, um rekstur gistiheimilis að Mánagötu 6a, Ísafirði.

Erindinu vísað til umhverfisnefndar.

3. Eignarhaldsf. Brunabótaf. Íslands. - Ágóðahlutagreiðsla 1999.

Lagt fram bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands dagsett í ágúst 1999, þar sem fram kemur að stjórn EBÍ hefur samþykkt framlag til ágóðahlutar fyrir árið 1999 kr. 130 milljónir. Hlutdeild Ísafjarðarbæjar er 4.820% og ágóðahlutur verður þá kr. 6.266.000.- Greiðsla ágóðahlutar fyrir árið 1999 fer fram 15. október n.k. Jafnframt eru sendar samþykktir Fulltrúaráðs um stefnumörkun og markmið framlags til ágóðahluta. Einnig send samantekt um þróun og sögu ágóðahlutans.

Lagt fram til kynningar.

4. Samb. ísl. sveitarf. v/heimsóknar grænlenskra sveitarstjórnarmanna.

Lagt fram bréf frá formanni Grænlandsnefndar Þóri Sveinssyni, dagsett 17. ágúst s.l., þar sem greint er frá heimsókn grænlenskra sveitarstjórnarmanna til Íslands dagana 28. ágúst til 4. september n.k. Í tengslum við komu grænlensku fulltrúanna skipuleggur nefndin ráðstefnu á Akureyri og í Reykjavík með fyrirlestrum um íslensk sveitarstjórnar-, atvinnu- og menntamál. Fyrirhugaðar eru heimsóknir til vinabæja grænlensku fulltrúanna í lok heimsóknarinnar.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf Búnaðarsambands Vestfjarða. - Eyðing vargfugla, refa og minka.

Lagt fram bréf frá Búnaðarsambandi Vestfjarða dagsett 16. ágúst s.l., þar sem greint er frá áskorun aðalfundar sambandsins er haldinn var 26. júní 1999, en þar var skorað á veiðistjóra, bæjar- og sveitarstjórnir í landinu að þær gangist fyrir því að vargfugli, tófu og mink verði haldið í skefjum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að upplýsa Búnaðarsamband Vestfjarða um aðgerðir Ísafjarðarbæjar í þessum málum.

6. Vinnumálastofnun. - Yfirlit yfir atvinnuástand í júlí 1999.

Lagt fram yfirlit frá Vinnumálastofnun um atvinnuástand í júlí 1999 dagsett 17. ágúst s.l.

Lagt fram til kynningar.

7. Skýrsla starfshóps Samb. ísl. sveitarf. - Afskriftir á verði félagsl. íbúða.

Lögð fram skýrsla starfshóps Samb. ísl. sveitarf., Afskriftir á verði félagslegra íbúða, dagsett 1. júlí 1999. Skýrslan er ætluð sem vinnugagn fyrir stjórn Samb. ísl. sveitarf. í viðræðum við ríkisvaldið, um niðurgreiðsu íbúða í félagslega kerfinu frá virðingarverði til markaðsverðs.

Lagt fram til kynningar.

8. Undirskriftalisti íbúa Flateyrar/Önundarfjarðar, v/Sólbakka 6, Flateyri.

Lagður fram undirskriftalisti liðlega eitthundrað íbúa Flateyrar og Önundarfjarðar dagsettur 15. ágúst s.l., þar sem skorað er á bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að endurskoða fyrri ákvörðun varðandi sölu húseignarinnar að Sólbakka 6, Flateyri, en bæjarráð Ísafjarðarbæjar hafði mælt með sölu eignarinnar til brottflutnings.

Bæjarráð bendir á að málið sé nú í höndum Ofanflóðasjóðs, samkvæmt samþykkt bæjarráðs frá 26. júlí 1999.

9. Bréf séra Guðrúnar E. Gunnarsdóttur, v/Sigurjóns Jónassonar.

Lagt fram bréf frá séra Guðrúnu Eddu Gunnarsdóttur dagsett 22. ágúst s.l., þar sem hún fyrir hönd Sigurjóns Jónssonar, bónda á Lokinhömrum í Arnarfiri, sækir um heimild til að nýta fjárhús, sem hann á á Þingeyri, á komandi vetri. Notkun er áætluð frá því í október - nóvember n.k. fram að sauðburði vorið 2000.

Bæjarráð samþykkir erindið vegna sérstkra aðstæðna, enda verði svæðið umhverfis fjárhúsin vel girt og notkun takmarkist við ofangreint tímabil.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:55

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Jón Reynir Sigurvinsson. Sigurður R. Ólafsson.