Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

159. fundur

Árið 1999, mánudaginn 26. júlí kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

Áður en gengið var til boðaðrar dagskrár mætti Haraldur L. Haraldsson, hagfræðingur, tímabundinn ráðgjafi Ísafjarðarbæjar í atvinnumálum Þingeyrar, til fundar við bæjarráð.
Lagt var fram bréf frá Nýsi hf., dagsett 26. júlí 1999, er varðar stofnun fiskvinnslufyrirtækis á Þingeyri í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtækið Vísir hf., sem er með starfsemi á Reykjanesi og Austurlandi. Haraldur fór yfir efni bréfsins og upplýsti bæjarráðsmenn frekar um málefnið.

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 20/7.
    Fundargerðin er í tíu liðum.
    2. liður. Bæjarráð vísar tilmælum félagsmálanefndar til vinnu við gerð starfsmannastefnu.
    10. liður b. Bæjarstjóra falið að ræða við formann félagsmálanefndar.
Húsnæðisnefnd 19/7.
    Fundargerðin er í einum lið.
    Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Umhverfisnefnd 21/7.
    Fundargerðin er í sextán liðum.
    Bæjarráð staðfestir fundargerð umhverfisnefndar.

2. Bréf Sigríðar Ingimarsdóttur, v/minnisvarði í landi Bessastaðar, Dýraf.

Lagt fram bréf frá Sigríði Ingimarsdóttur, fh. afkomenda Jóhannesar Guðmundssonar, dagsett 15. júlí 1999, þar sem sótt er um leyfi til að reisa minnisvarða í landi Bessastaða í Dýrafirði.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

3. Íbúasamtök Önundarfjarðar erindi dagsett 14. júlí 1999.

Lagt fram bréf frá Íbúasamtökum Önundarfjarðar dagsett 14. júlí s.l., þar sem vitnað er til skýrslu Guðjóns Petersen frá því í byrjun þessa árs og spurst fyrir um tillögu hans um ráðningu starfsmanns til að ljúka ófrágengnum málum vegna snjóflóðsins 1995. Jafnframt er bent á að ekki sé starfandi þjónustufulltrúi á Flateyri.

Bæjarráð bendir á að bæjarstjóri fylgir eftir málefnum Flateyrar er varðar snjó- flóðið 1995.

4. Afrit bréfs til Indriða A. Kristjánssonar, v/ráðningar félagsmálastjóra.

Lagt fram svarbréf Ísafjarðarbæjar til Indriða A. Kristjánssonar, dagsett 12. júlí s.l., vegna fyrirspurnar hans dagsettri 17. maí 1999, út af ráðningu Kjell Hymer sem félagsmálastjóra fyrir Ísafjarðarbæ.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

5. Erindi Elínar Þóru Magnúsdóttur, vegna verslunar á Hlíf.

Lagt fram bréf frá Elínu Þóru Magnúsdóttur, forstöðumanns Hlífar, dagsett þann 21. júlí s.l., þar sem hún greinir frá rekstri verslunar á Hlíf. Erindi bréfsins er, hvort ekki er hægt að fá felldar niður gamlar skuldir verslunar við Ísafjarðarbæ og nota andvirði þeirra reikning sem eru í hverjum mánuði upp í greiðslu vegna launa starfsmanns. Jafnframt að kanna hvaða skuldir er verið að greiða, hverning þær eru til komnar, eða hvert hún getur leitað til að fá þessar upplýsingar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða málefnið við fjármálastjóra.

6. Verslunin Þjótur, Ísafirði, uppsögn á húsnæði.

Lagt fram bréf frá Hrafni Guðmundssyni, vegna verslunin Þjótur, Ísafirði, dagsett 21. júlí s.l., þar sem hann segir upp leigu á húsnæðinu að Hafnarstræti 9, Ísafirði, fyrir hönd verslunarinnar, stefnt er að því að skila húsnæðinu 1. september 1999.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

7. Bréf umhverfisráðuneytis. - Úttekt á vörnum undir Gleiðahjalla.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 19. júlí s.l., sem svar við bréfi Ísafjarðarbæjar frá 12. júlí s.l., þar sem óskað var eftir samstarfi við gerð úttektar á frekari vörnum í Eyrarhlíð undir Gleiðahjalla, Ísafirði.

Að fenginni tillögu Ofanflóðasjóðs fellst ráðuneytið á beiðni Ísafjarðarbæjar og annast verkefnisstjóri Ofanflóðasjóðs málið að hálfu ráðuneytisins.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og vísað til umhverfisnefndar.

8. Bréf umhverfisráðuneytis. - Veggöng um snjóflóðaleiðigarð í Seljal.hlíð.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 19. júlí s.l., sem svar við bréfi Ísafjarðarbæjar frá 12. júlí s.l., þar sem óskað er eftir afstöðu Ofanflóðasjóðs til þeirrar hugmyndar að hætta við veggöng um fyrirhugaðan leiðigarð í Seljalandsmúla og nota þá fjármuni sem spöruðust í aðrar framkvæmdir við uppbyggingu skíðasvæðis fyrir Ísafjörð.

Ráðuneytið er tilbúið til viðræðna við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar um málið enda komi framkvæmdin í stað vegarins og þjóni hlutverki hans.

Bæjarráð vísar bréfinu til starfshóps um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðis á Ísafirði.

9. Bréf umhverfisráðuneytis. - Varðar tilboð í hús á Flateyri.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 19. júlí s.l., sem svar við bréfi Ísafjarðarbæjar frá 22. júní 1999, vegna kauptilboða í uppkaupahús á Flateyri.

Ráðuneytið gerir ekki athugasemdir taki Ísafjarðarbær hæsta tilboði í Sólbakka 6, Flateyri, það sé hins vegar Ísafjarðarbæjar að meta hvaða tilboð sé hæst.

Ráðuneytið telur sér ekki fært að taka afstöðu til kauptilboða í aðrar fasteignir á Flateyri, sem keyptar hafa verið á grundvelli reglugerðar nr. 533/1997 enda liggur ekki fyrir afstaða bæjarráðs Ísafjarðarbæjar til málsins.

Bæjarráð mælir með við Ofanflóðasjóð að tekið verði eftirfarandi kauptilboðum.

Tilboð Bjarna Harðarsonar í Ólafstún 4, kr. 700.000.-
Tilboð Ólafs Ragnarssonar í Ólafstún 9, kr.1.100.000.-
Tilboð Sigurðar J. Hafberg í Ólafstún 7, kr.2.500.000.-
Tilboði Jóhanns Magnússonar í Sólbakka 6, kr.1.300.000.-

Bæjarráð mælir með við Ofanflóðasjóð að tilboði Halldórs Hringssonar kr. 950.000.- í Ólafstún 6 verði hafnað.

10. Vinnumálastofnun, styrkur vegna tölvunámskeiða á Þingeyri.

Lagt fram bréf frá Vinnumálastofnun dagsett þann 20. júlí s.l., þar sem tilkynnt er að Vinnumálastofnun hefur ákveðið að veita styrk til Ísafjarðarbæjar um kr. 12.900.- fyrir sérhvern þátttakanda á tölvunámskeiði fyrir íbúa á Þingeyri, þó að hámarki kr. 200.000.- samtals.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

11. Bráðamengunarnefnd. - Ráðstefna um bráðamengun sjávar.

Lagt fram bréf frá Bráðamengunarnefnd umhverfisráðuneytisins dagsett 19. júlí s.l., þar sem boðuð er ráðstefna um bráðamengun sjávar þann 15. október n.k. og verður hún haldin á Grand Hótel í Reykjavík og hefst kl. 13:00

Erindinu vísað til hafnarstjórnar og umhverfisnefndar.

12. Golfklúbbur Ísafjarðar. - Niðurfelling reikninga fyrir möl.

Lagt fram bréf frá Golfklúbbi Ísafjarðar dagsett 19. júlí s.l., þar sem farið er fram á niðurfellingu reikninga vegna malartöku. Golfklúbburinn bar allan kostnað af malartökunni og flutningi hennar og var mölin notuð að mestu í uppbyggingu vegar inn í skóg, fyrir ofan golfskála.

Bæjarráð samþykkir niðurfellingu og felur bæjarstjóra að ganga frá málinu.

13. Brunabótafélag Íslands. - Fulltrúaráðsfundur 20. ágúst 1999.

Lagt fram bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands ódagsett, þar sem boðað er til aðalfundar fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands, þann 20. ágúst n.k. kl. 10:00 Fundurinn verður haldinn á Hótel Sögu.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

14. Stefnumótun Ísafjarðarbæjar í atvinnumálum til 2003.

Lögð fram stefnumótun Ísafjarðarbæjar í atvinnumálum til 2003, dagsett 22. júlí 1999, unnin af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Iðntæknistofnun ásamt fjölmennum starfshópum skipuðum íbúum Ísafjarðarbæjar alls um 70-80 manns.

Bæjarráð fagnar framkominni stefnumótun Ísafjarðarbæjar í atvinnumálum og felur bæjarstjóra að undirbúa kynningu hennar og verkáætlun.

Formaður bæjarráðs lætur bóka eftirfarandi athugasemd undir liðnum endurskoðun og eftirfylgni. ,,Það er bæjarstjórnar að tryggja framkvæmd stefnu í atvinnumálum, en get fallist á að verkefnisstjórn meti árangur og stöðu verkefna tvisvar á ári til ársins 2003."

15. Vinnumálastofnun, yfirlit yfir atvinnuástand í júní 1999.

Lagt fram bréf frá Vinnumálastofnun dagsett 15. júlí 1999, þar sem greint er frá atvinnuástandi í júní 1999.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

16. Hafstofa Íslands. - Búferlaflutningar janúar - júní 1999.

Lagt fram bréf frá Hagstofu Íslands dagsett 15. júlí s.l., þar sem greint er frá búferlaflutningum janúar - júní 1999.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

17. Fundargerð samstarfsnefndar Samflots og Launanefndar sveitarfélaga.

Lögð fram fundargerð 10. fundar samstarfsnefndar Samflots og Launanefndar sveitarfélaga frá 12. júlí s.l., er haldinn var að Háaleitisbraut 11, Reykjavík.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

18. Íþróttasamband Fatlaðra, þakkarbréf.

Lagt fram bréf frá Íþróttasambandi Fatlaðra dagsett 15. júlí s.l., þar sem þakkað er fyrir stuðning Ísafjarðarbæjar við þátttöku þroskaheftra íslenskra íþróttamanna í alþjóðasumarleikum Special Olympics 1999.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

19. Erindi bæjarverkfræðings. - Umhverfismál í Hnífsdal.

Lagt fram bréf frá Ármanni Jóhannessyni, bæjarverkfræðingi, dagsett 23. júlí s.l., um umhverfismál í Hnífsdal og varðar afgreiðslu umhverfisnefndar frá 89. fundi þann 21. júlí 1999, um bréf Kvennfélagsins í Hnífsdal er vísað var úr bæjarráði til umhverfisnefndar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og bæjarverkfræðingi að fylgja málum eftir.

20. Minnisblað bæjarstjóra. - Byggðasafn Vestfjarða.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 23. júlí s.l., þar sem rætt er um stöðu Byggðasafns Vestfjarða.

Bæjarstjóri leggur til, að sett verði upp 3ja manna stjórn fyrir Byggðasafnið og hafi sveitarfélögin einn stjórnarmann hvert. Ísafjarðarbær hafi formann stjórnar.

Þá gerir bæjarstjóri og tillögu um að auglýst verði til umsóknar heil staða við Byggðasafnið og hefur það verið rætt við aðildarsveitarfélögin.

Bæjarráð samþykkir tillögur í minnisblaði bæjarstjóra.

21. Minnisblað bæjarstjóra. - Staðardagskrá 21, atvinnu- og ferðamálafulltr.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 23. júlí s.l., þar sem nánar er greint frá umsókn Rúnars Óla Karlssonar um starf vegna Staðar- dagskrár 21, atvinnu- og ferðamálafulltrúa.

Bæjarstjóri leggur til að honum verði heimilað að ráða Rúnar Óla til starfsins og taki laun fyrir starfið, til að byrja með, mið af byrjunarlaunum hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða. Starfsheiti getur orðið Atvinnu- og Staðardagskrárfulltúi Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð samþykkir ráðningu Rúnars Óla Karlssonar, sem Atvinnu- og Staðar- dagskrárfulltúa Ísafjarðarbæjar.

22. Minnisblað bæjarstjóra. - Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 23. júlí s.l., þar sem hann gerir grein fyrir drögum að samningi vegna styrks til Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Bæjarráð samþykkir styrkveitingu til Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar á þessu fjárhagsári upp á kr. 480.000.- Upphæðin færist af liðnum námsráðgjafi.

23. Unnur ehf., Þingeyri.- Umsókn um byggðakvóta.

Lagt fram bréf frá Unni ehf., Þingeyri, dagsett 22. júlí s.l., þar sem fyrirtækið sækir um a.m.k. 100 tonna byggðakvóta, af þeim kvóta sem Byggðastofnun úthlutaði til Ísafjarðarbæjar og ráðstafað verður til Þingeyrar.

Bæjarstjóri lagði fram afrit af bréfi Fiskkaupa hf. til Unnar ehf., dagsettu þann 26. júlí s.l., þar sem Jón Ásbjörnsson, stjórnarformaður, lýsir hugmynd um aðkomu Fiskkaupa að rekstri Unnar ehf. á Þingeyri.

Bæjarráð vísar til 26. liðar dagskrár varðandi afgreiðslu erindis Unnar ehf.

24. Sunnukórinn. - Grænlandsferð.

Lagt fram bréf frá Sunnukórnum á Ísafirði dagsett 22. júlí s.l., þar sem kórinn tilkynnir að hann sjái sér ekki fært að fara í fyrirhugaða ferð til Grænlands í ágúst n.k., þar sem kostnaður við ferðir innan Grænlands er margfallt meiri en reiknað hafi verið með.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og vísað til menningarnefndar.

Bæjarráð samþykkir samhljóða að taka neðangreinda liði inn á dagskrá.

25. Byggðastofnun.- Fundargerð 237. fundar 22. júlí 1999.

Lögð fram fundargerð stjórnar Byggðastofnunar frá 237. fundi er haldinn var þann 22. júlí s.l. Á fundinum úthlutaði stjórnin svokölluðum byggðakvóta og komu 387 tonn í hlut Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við stjórn Byggðastofnunar að úthlutaður byggðakvóti 387 tonn til Ísafjarðarbæjar fari til Þingeyrar, samanber fyrri ákvörðun bæjarráðs.

26. Nýsir h.f., ráðgjafaþjónusta. - Stofnun fyrirtækis á Þingeyri.

Lagt fram bréf frá Nýsir hf., Reykjavík, dagsett 26. júlí 1999, þar sem greint er frá hugmynd um stofnun fiskvinnslufyrirtækis á Þingeyri í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtækið Vísir hf., sem er með starfsemi á Reykjanesi og Austurlandi. Bréfið er undirritað af Haraldi L. Haraldssyni, hagfræðingi.

Bæjarráð samþykkir tillögur sem fram koma í bréfi Nýsis, að því gefnu að stjórn Byggðastofnunar samþykki tillögu bæjarráðs í 25. lið þessarar fundargerðar. Jafnframt frestar bæjarráð afgreiðslu á erindi Unnar ehf., Þingeyri, í 23. lið fundargerðarinnar.

Bæjarstjóri upplýsti að hann tekur sumarleyfi frá og með 30. júlí til 31. ágúst n.k., bæjarritari mun gegna starfi bæjarstjóra á meðan.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:15

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.