Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

158. fundur

Árið 1999, mánudaginn 19. júlí kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fræðslunefnd 13/7.
Fundargerðin er í átta liðum.

1. liður. Bæjarráð tilnefnir Björn Helgason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa í vinnuhópinn og leiti hann aðstoðar tæknideildar við vinnu sína.
3. liður. Bæjarráð vísar hugmyndum fræðslunefndar um framkvæmdir á skíðasvæðum til umsagnar starfshóps um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðis á Ísafirði. Bæjarráð samþykkir framkvæmdir við lýsingu í Tungudal, hafi fræðslunefnd fjármagn til þess.
6. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við formann fræðslunefndar og skóla- og menningarfulltrúa um málið.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

Húsnæðisnefnd 7/6.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Húsnæðisnefnd 21/6.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Húsnæðisnefnd 12/7.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Myndbær h.f., Reykjavík. - Mynd um íslenskt þjóðfélag.

Lagt fram bréf frá Myndbæ h.f., Reykjavík, dagsett í júlí 1999, þar sem Myndbær vill kynna nýja mynd um íslenskt þjóðfélag með enskum þulartexta. Myndbær býður sveitarfélögum afnotarétt fyrir kr. 12.000.- án/vsk.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarnefndar.

3. Afrit tveggja bréfa til umhverfisráðuneytis v/Ofanflóðasjóðs.

Lagt fram afrit bréfs Ísafjarðarbæjar til umhverfisráðuneytis dagsett 12. júlí s.l., þar sem óskað er eftir að Ofanflóðasjóður komi til samstarfs við Ísafjarðarbæ um úttekt á frekari vörnum í Eyrarhlíð neðan Gleiðarhjalla á Ísafirði.

Lagt fram afrit bréfs Ísafjarðarbæjar til umhverfisráðuneytis dagsett 12. júlí s.l., þar sem spurst er fyrir um hvort Ofanflóðasjóður væri tilbúinn, að greiða kostnaðarmismun, á vegi í gegnum snjóflóðavarnargarð í Seljalandsmúla og annari lausn, í framkvæmdir við skíðasvæði fyrir Ísafjörð.

Lagt fram til kynningar.

4. Hulda Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi. - Ráðning félagsmálastjóra.

Lagt fram bréf Huldu Guðmundsdóttur, félagsráðgjafa, Suðurtanga 2, Ísafirði, dagsett 5. júlí s.l., þar sem hún óskar eftir upplýsingum um menntun þess aðila er ráðinn var í starf félagsmálastjóra Ísafjarðarbæjar.

Bæjarstjóra falið að svara erindinu.

5. Vegagerðin. - Gangstígur með Pollgötu.

Lagt fram bréf frá Vegagerðinni dagsett 8. júlí s.l., er varðar gangstíg með Pollgötu, niðurföll og aðrar framkvæmdir þessu tengdar.

Bæjarráð fellst á tillögur Vegagerðarinnar, þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að leggja gangstétt og drenlögn síðar og felur bæjarstjóra að svara erindinu.

6. Erindi félagsmálastjóra Kjell Hymer.

Lagt fram erindi félagsmálastjóra Kjell Hymer, dagsett 13. júlí s.l., þar sem hann leitar eftir leyfi bæjarráðs til að beita skilyrðum varðandi úrræði 21. greinar barnaverndarlaga nr. 58/1992 og lögum um félagslega þjónustu nr. 40/1991, 2. grein (fjárhagsaðstoð). Jafnframt hvort ekki ætti að beita sömu skilyrðum vegna fjárhagsaðstoðar, þó ekki sé um tilvísun til barnaverndarmála að ræða.

Bæjarráð samþykkir tillögur félagsmálastjóra að uppfylltum lagaskilyrðum.

7. Morrinn. - Atvinnuleikhús ungs fólks í Ísafjarðarbæ v/styrkbeiðni.

Lagt fram bréf frá Morranum - Atvinnuleikhúsi ungs fólks í Ísafjarðarbæ, dagsett 13. júlí s.l., þar sem óskað er eftir styrk frá Ísafjarðarbæ upp á allt að kr. 90.000.- til að gera hópnum kleift að sækja hátið götuleikhúsa á Egilsstöðum 6.-8. ágúst n.k., sem fulltrúar Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu.

8. Íbúasamtökin Átak Þingeyri. - Tilnefning í Þingeyrarnefnd.

Lagt fram símbréf frá Unni Sigfúsdóttur, dagsett 9. júlí s.l., þar sem hún fyrir hönd íbúasamtakanna Átaks á Þingeyri, tilkynnir Ragnheiði Ólafsdóttur sem fulltrúa í Þingeyrarnefnd og varamaður hennar er Sigmundur F. Þórðarson.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

9. Umboðsamður Alþingis. - Mál Harðar Kristjánssonar.

Lagt fram bréf umboðsmanns Alþingis, dagsett 8. júlí s.l., þar sem tilkynnt er að hann hafi lokið meðferð máls Harðar Kristjánssonar, vegna kæru Harðar um samskipti við Ísafjarðarbæ. Hjálagt fylgir bréf umboðsmanns til Harðar, dagsett sama dag, þar sem honum er bent á að bera ágreiningsmál sín við Ísafjarðarbæ undir kærunefnd húsnæðismála.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

10. Afrit bréfs sýslumannsins í Bolungarvík til vegamálastjóra.

Lagt fram afrit bréfs sýslumannsins í Bolungarvík til vegamálastjóra, dagsett 1. júlí s.l., þar sem rætt er um hámarkshraða á Óshlíðarvegi og nauðsyn þess að hann verði hækkaður þar sem vegurinn hefur gjörbreyst frá því hámarkshraði var ákveðinn þar síðast.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

11. Bréf minjavarðar Vesturlands og Vestfjarða.

Lagt fram bréf Magnúsar A. Sigurðssonar, minjavarðar Vesturlands og Vestfjarða, dagsett 30. júní s.l. Ástæða fyrir bréfinu er sú að koma þarf á svokölluðu minjaráði, en í því sitja forstöðumenn viðurkenndra byggðasafna. Minjaráði er ætlað að samræma safnastefnu á svæðinu og ýta almennt undir minjavend. Því er spurt um byggða- og sjóminjasafnið á Ísafirði og ráðningu safnvarðar í fullt starf.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.

12. Bréf bæjarstjóra Bolungarvíkur, varðar ferð ráðgjafanefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sumarið 1999.

Lagt fram bréf frá Ólafi Kristjánssyni, bæjarstjóra, Bolungarvík, dagsett 9. júlí s.l., en Ólafur situr í stjórn ráðgjafanefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Efni bréfsins er ferð ráðgjafanefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Vestfjarða í ágúst n.k.

Bæjarstjóra og formanni bæjarráðs er falið að taka á móti ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

13. Samband ísl. sveitarfélaga. - Lokun vegna sumarleyfa.

Lagt fram bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, dagsett 12. júlí s.l., þar sem tilkynnt er um lokun skrifstofu vegna sumarleyfa frá 19. júlí til 4. ágúst n.k.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

14. Samband ísl. sveitarfélaga. - Samkomulag um mæðraskoðun.

Lagt fram bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, dagsett 1. júlí s.l., þar sem greint er frá samkomulagi sem Launanefnd sveitarfélaga hefur gert við BSRB, um rétt þungaðra kvenna til mæðraskoðunar. Hjálagt fylgir greint samkomulag.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og sent launafulltrúa til upplýsinga.

15. Fundargerð samstarfsnefndar leikskólakennara 44. fundur.

Lögð fram fundargerð 44. fundar samstarfsnefndar Félags ísl. leikskólakennara og Launanefndar sveitarfélaga, er haldinn var miðvikudaginn 7. júlí 1999.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og sent fræðslunefnd og launafulltrúa til upplýsinga.

16. Samband ísl. sveitarfélaga. - Tilefni af bréfi kennarafélaganna um túlkun á viðræðuslitum.

Lagt fram bréf Sambands ísl. sveitarfélaga, dagsett 7. júlí s.l., í tilefni af bréfi kennarafélaganna um túlkun á viðræðuslitum um breytta vinnutíma.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og sent fræðslunefnd og launafulltrúa til upplýsinga.

17. Umhverfisráðuneytið. - Úrskurður í kærumáli Magna Guðmundssonar og Svanhildar Þórðardóttur, Seljalandi, Ísafirði.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti, dagsett 13. júlí s.l., ásamt úrskurði ráðuneytisins um kærumál Magna Guðmundssonar og Svanhildar Þórðardóttur, Seljalandi, Ísafirði, vegna fyrirhugaðra bygginga snjóflóðavarna í Seljalandsmúla, Skutulsfirði.

Úrskurðarorð voru svohljóðandi. ,,Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 16. apríl 1999 um snjóflóðavarnir á Seljalandssvæði á Ísafirði skal óbreyttur standa."

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:20

Þorleifur Pálsson ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Guðni G. Jóhannesson. Sigurður R. Ólafsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.