Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

135. fundur

Árið 1999, mánudaginn 1. febrúar kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Jóhann Ólafson - Umsókn um lóð fyrir ísverksmiðju á Sundabakka.

Til fundar við bæjarráð mætti Jóhann Ólafson, Seljalandsvegi 48, Ísafirði og fylgdi eftir bréfi sínu til bæjarráðs dagsettu 28. janúar s.l., varðandi umsókn um lóð undir ísverksmiðju á Sundabakka á Ísafirði. Jafnframt er getið um í bréfinu vatnsþörf fyrir slíka verksmiðju, sem er um 33 tonn á dag í upphafi, en gæti farið í allt að 70 tonn á dag síðar.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar og hafnarstjórnar.

2. HF. Djúpbáturinn - Stjórn félagsins mætir til fundar við bæjarráð.

Til fundar við bæjarráð mættu eftirtaldir stjórnarmann HF. Djúpbátsins, Kristinn Jón Jónsson formaður og Halldór Antonsson ritari og fylgdu eftir samþykkt stjórnarfundar félagsins frá 26. janúar s.l., sem barst bæjarráði í bréfi dagsettu 27. janúar 1999.

Fram kom að rekstrarleg staða HF. Djúpbátsins er mjög slæm og upplýstu stjórnarmenn bæjarráð um að starfsmönnum félagsins hafi verið sagt upp störfum frá og með deginum í dag.

Bæjarráð telur m.s. Fagranes vera mikilvægan þátt í vetrarsamgöngum við Ísafjarðardjúp og harmar að Vegagerðin skuli ekki sjá sér fært að styðja rekstur Djúpbátsins að minnsta kosti þar til vegakerfið við Ísafjarðardjúp er hæfara til vetrarumferðar. Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna möguleika til áframhalldandi reksturs.

3. Fundargerðir nefnda lagðar fram.

Fræðslunefnd 74. fundur 26/1.

Fundargerðin er í fimm liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 77. fundur 27/1.

Fundargerðin er í þrettán liðum.

9. og 10. liður. Bæjarráð bendir umhverfisnefnd á að það er bæjarráð sem samþykkir en nefndir leggi til.

11. liður. Bæjarráð óskar eftir að umhverfisnefnd leggi fram hugmyndir sínar að viðmiðunarreglum um snjómokstur.

12. liður. Bæjarráð óskar eftir frekari skýringum á bókun við 12. lið.

Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

Almannavarnarnefnd 28/1.

Fundargerðin er í þremur liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

4. Byggingarfulltrúi - Skráning fasteignar að Núpi í Dýrafirði.

Lagt fram bréf byggingarfulltrúa Stefáns Brynjólfssonar dagsett 28. janúar s.l., þar sem hann svarar erindi bæjarráðs um skráningu fasteignar á Núpi í Dýrafijrði, sem frístundahúss. Að athuguðu máli leggur byggingarfulltrúi til, að viðkomandi hús verði skráð sem frístundahús.

Bæjarráð samþykkir tillögu byggingarfulltrúa.

5. Skólaskrifstofa Vestfjarða - Launakjör kennara, ráðningar næsta skólaár

Lagt fram bréf frá Skólaskrifstofu Vestfjarða dagsett 22. janúar s.l., varðandi launakjör kennara og ráðningar næsta skólaár. Bréfinu fylgir og annað bréf dagsett 21. janúar s.l., til skólastjóra, skólanefnda og sveitarstjórna á Vestfjörðum, um námskeiðahald 1999, svo og yfirlit um námskeið á árinu 1998.

Bæjarráð vísar bréfinu til fræðslunefndar.

6. Siglingastofnun - Yfirlitsskýrsla um sjóvarnir.

Lagt fram bréf frá Siglingastofnun dagsett 26. janúar s.l., ásamt endurskoðaðri skýrslu um sjóvarnir dagsett í nóvember 1998.

Bæjarráð vísar bréfinu til hafnarstjórnar og umhverfisnefndar.

7. VÁ-VEST. Fyrirspurn vegna áskorunar bæjarstjórnar til Alþingis.

Lagt fram bréf frá VÁ-VEST dagsett 26. janúar s.l., fyrirspurn til bæjarfulltrúa vegna áskorunar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, frá 17. desember 1998, um að heimiluð verði sala léttra vína og áfengs öls í matvöruverslunum.

Hópurinn telur rétt að staldra við og fá fram hver sé raunveruleg stefna eða hugmundafræði bæjarfulltrúa þegar kemur að vímuvörnum í bæjarfélaginu.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

8. Samband ísl. sveitarfélaga.

a. Bréf Launanefndar sveitarfélaga dagsett 20. janúar s.l., varðandi ábendingar um ákveðna þætti er fram skulu koma í auglýsingum um stöður kennara, svo sem eftir hvaða kjarasamningi laun eru greidd og hverrar menntunar er krafist.

b. Fundargerð Launanefndar sveitarfélaga frá 133. fundi þann 15. janúar s.l.

c. Bréf Launanefndar sveitarfélaga dagsett 22. janúar s.l., varðandi bréf Hafnarfjarðarbæjar til fjármálaráðuneytis, varðandi lífeyrissjóðsgjald af nefndarlaunum. Hjálagt fylgir bréf Hafnarfjarðarbæjar svo og svarbréf fjármálaráðuneytis.

Bæjarráð vísar a. lið til fræðslunefndar og c. lið til launafulltrúa til upplýsinga.

9. Expo Islandia - Kynning á sýningu í Laugardalshöll um hvítasunnuna.

Lagt fram bréf frá Expo Islandia dagsett 18. janúar s.l., þar sem kynnt er og boðin þáttaka í sýningunni ,,ÞJÓÐFUNDUR UM FRAMTÍÐARSÝN" sem haldin verður í Laugardalshöll um hvítasunnuna.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarnefndar.

10. Oddfellowhúsið á Ísafirði. - Niðurfelling fasteignagjalda.

Lagt fram bréf frá Oddfellowhúsinu á Ísafirði dagsett 27. janúar s.l., þar sem óskað er eftir niðurfellingu á fasteignagjöldum af húsnæði félagsins að Aðalstræti 35, á Ísafirði, með tilvísun í 2.mrg. 5.gr. laga nr. 90/1990 um tekjustofna sveitarfélaga.

Bæjarráð vísar til samþykktra reglna um afslátt á fasteignagjöldum og vísar erindinu til fjármálastjóra til afgreiðslu.

11. Slysavarnarfélag Íslands - Styrkbeiðni.

Lagt fram bréf frá Slysavarnarfélagi Íslands dagsett 22. janúar s.l., þar sem óskað er eftir styrk allt að kr. 200.000.- til að halda norræna ráðstefnu um öryggi í umhverfinu dagana 25. - 28. ágúst 1999.

Bæjarráð samþykkir styrk að upphæð kr. 200.000.- verði ráðstefnan haldin í Ísafjarðarbæ.

12. Stefna á bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar frá Hildi Jóhannesdóttur.

Lögð fram stefna að hálfu Lögsýnar ehf., Ísafirði, frá Hildi Jóhannesdóttur dagsett 30. desember 1998, á hendur bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, þar sem krafist er bóta til handa stefnanda, vegna líkamstjóns er stefnandi telur sig hafa orðið fyrir þann 4. desember 1993, er eldur læsti sig í íbúðarhús stefnanda að Norðurvegi 2 á Ísafirði.

Lagt fram til kynningar.

13. Húsafriðunarnefnd ríkisins.

a. Lagt fram bréf Húsafriðunarnefndar ríkisins dagsett 20. janúar s.l., þar sem rætt er um undirbúning að friðun gamla skólahússins á Ísafirði.

b. Lagt fram bréf Húsafriðunarnefndar ríkisins dagsett 20. janúar s.l., þar sem nefndin tilkynnir að hún sjái ekki ástæðu til að að friða húseignina Aðalstræti 32 á Ísafirði.

Liður a. Bæjarráð felur bæjarstjóra að hafa samband við Húsafriðunarnefnd.

Liður b. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga við eigendur um kaup á Aðalstræti 32, Ísafirði.

14. B og B lögmenn, beiðni um skýrslu Guðjóns Petersen vegna Flateyri.

Lagt fram bréf frá B og B lögmönnum, Lágmúla 7, Reykjavík, dagsett 18. janúar s.l., þar sem þeir óska eftir að fá sent afrit af skýrslu Guðjóns Petersen, sem hann hefur unnið fyrir Ísafjarðarbæ vegna snjóflóðsins á Flateyri þann 26. október 1995.

Bæjarráð samþykkir að senda eintak af skýrslunni eftir fund bæjarstjórnar þann 4. febrúar n.k.

15. Ólafur Steinþórsson, Þingeyri. - Kauptilboð í Fjarðargötu 4, Þingeyri.

Lagt fyrir bæjarráð að nýju kauptilboð Ólafs Steinþórssonar, Fjarðargötu 10a, Þingeyri, í Fjarðargötu 4, Þingeyri, (Ölduna) dagsett 18. desember 1998. Tilboðið hljóðar upp á kr. 200.000.- staðgreitt.

Tilboðið er lagt fram eftir auglýsingu á eigninni. Önnur tilboð hafa ekki borist.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við tilboðsgjafa.

16. Bjarni Harðarson, Flateyri. - Kauptilboð í Ólafstún 4, Flateyri.

Lagt fram kauptilboð Bjarna Harðarsonar, Flateyri, í Ólafstún 4, Flateyri, dagsett 29. janúar s.l. Tilboðið hljóðar upp á kr. 900.000.- og miðast við staðgreiðslu.

Bæjarráð frestar að taka afstöðu til tilboðsins, en felur bæjarstjóra að auglýsa til sölu þessa og aðrar uppkaupaeignir á Flateyri.

17. Bakarinn ehf., Ísafirði. - Endurskoðun vegna álagningar sorpeyðingargj.

Lagt fram bréf frá Bakaranum ehf., Ísafirði, dagsett 29. janúar s.l., þar sem fyrirtækið óskar eftir tilfærslu úr sjötta flokki gjaldskrár um sorpeyðingargjald í fjórða eða fimmta flokk, sem eru lítil iðn- og þjónustufyrirtæki eða miðlungs iðn- og þjónustufyrirtæki.

Erindinu vísað til bæjarverkfræðings til umsagnar.

18. Ályktun kennarafundar í Grunnskóla á Ísafirði.

Lögð fram ályktun kennarafundar í Grunnskóla á Ísafirði, er haldinn var þann 28. janúar s.l. Þar sem kennarar vænta árangurs af viðræðum fulltrúa kennara við fulltrúa Ísafjarðarbæjar fyrir 10. febrúar n.k., viðræðum sem verið hafa í gangi frá því í september 1998.

Lagt fram til kynningar.

19. Ferðaþjónusta Reykjanesi.

Lagt fram bréf frá Ferðaþjónustu Reykjanesi ehf., dagsett 26. janúar s.l., þar sem farið er á leit við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, í samvinnu við sjálfboðaliðasamtök um Náttúruvernd, að lagður verði göngustígur upp að gömlu sundlauginni í Reykjanesi á komandi sumri. Bréfinu fylgir greinargerð undirrituð af Margréti Karlsdóttur.

Bæjarráð bendir á að Súðavíkuhreppur hefur með skipulagsmál á svæðinu að gera og ber því að senda erindið þangað til kynningar, en samþykkir fyrir sitt leiti sem landeigandi þessa framkvæmd að því tilskyldu að enginn kostnaður vegna hennar falli á Ísafjarðarbæ.

20. Svar Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra til Bryndísar G. Friðgeirsdóttur, vegna fyrirspurnar 18. janúar 1999.

Lagt fram svar Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 29. janúar s.l., við fyrirspurn Bryndísar G. Friðgeirsdóttur dagsettri 18. janúar s.l., varðandi verkefnið um skráningu lausafjármuna, kostnað þess og á hvaða liði í fjárhagsáætlun sá kostnaður er skráður. Í svari bæjarstjóra kemur fram að verkefninu er lokið og kostnaður var færður á launalið bæjarskrifstofu 01-40.

Lagt fram til kynningar.

21. Minnisblað bæjarstjóra - Nanortalik og Sunnukórinn.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 29. janúar s.l., þar sem hann gerir grein fyrir hugmynd um ferð Sunnukórsins á Ísafirði til vinabæjar Ísafjarðarbæjar Nanortalik á Grænlandi á komandi sumri. Minnisblaðinu fylgir bréf til Sunnukórsins frá bæjarstjóra dagsett 28. desember 1998.

Lagt fram til kynningar.

22. Vegagerðin - Safnveganefnd Ísafjarðarsýslu.

Lagt fram bréf frá Vegagerðinni dagsett 27. janúar s.l., erindið Safnveganefnd Ísafjarðarsýslu. Óskað er eftir að sveitarfélögin skipi fljótlega mann í nefndina fyrir þetta kjörtímabil sveitarstjórna.

Bæjarráð leggur til að formaður bæjarráðs Guðni G. Jóhannesson verði fulltrúi Ísafjarðarbæjar í nefndinni.

23. Minnisblað bæjarstjóra - Stefnumótun Ísafjarðarbæjar í atvinnumálum.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 29. janúar s.l., varðandi drög að verkefnislýsingu við stefnumótun Ísafjarðarbæjar í atvinnumálum.

Minnisblaðinu fylgja ,,Drög að verkefnislýsingu við stefnumótun Ísafjarðarbæjar í atvinnumálum", unnin af Iðntæknistofnun og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða hf., í desember 1998. Fram kemur að kostnaður er kr. 2.225.000.- sem bókist af liðnum 15-65-432-1. Ísafjarðarbær þarf að skipa þrjá menn í verkefnisstjórn.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að drögin verði samþykkt.

24. Básafell h.f., Ísafirði. - Almenningssamgöngur í Ísafjarðarbæ.

Lagt fram bréf frá Básafelli h.f., Ísafirði, dagsett 29. janúar s.l., þar sem óskað er eftir að brottfarartíma almenningsvagns frá Ísafirði til Suðureyrar að morgni, verði breytt þannig að ferð frá Ísafirði kl. 7.oo verði kl. 6.3o

Óskað er eftir breytingu vegna þess að 8 til 10 starfsmenn Básafells h.f., á Ísafirði munu sækja vinnu til Suðureyrar, vegna lokunar rækjuverksmiðju félagsins að Sindragötu 7 á Ísafirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara og verktaka.

25. Skýrsla Guðjóns Petersen vegna snjóflóðsins á Flateyri.

Lagt fram bréf Guðjóns Petersen, Berjarima 4, Reykjavík, dagsett 29. janúar s.l., ásamt skýrslu hans um snjóflóðið á Flateyri 26. október 1995 og eftirmála þess. Skýrsluna nefnir Guðjón, "Flateyri, hið þögla stríð með óbærilegum biturleika biðinnar." Skýrslan er unnin að tilhlutan bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð vísar skýrslunni til bæjarstjórnar til umfjöllunar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 20.00.

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.