Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

124. fundur

Árið 1998, mánudaginn 9. nóvember kl. 17:00 kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Erindi félagsmálastjóra, endurskoðun á fjárhagsáætlun félagsþjón. 1998.

Lagt fram bréf félagsmálastjóra dagsett 6. nóvember s.l., varðandi endurskoðun á fjárhagsáætlun félagsþjónustu fyrir árið 1998 og fóstursamning sem félagsmálaráð hefur samþykkt fyrir sitt leyti.

Félagsmálastjóri Jón A. Tynes mætti til fundar við bæjarráð um efni bréfsins.

Bæjarráð samþykkir þær fjárhagsskuldbindingar er ofangreindur fóstursamningur felur í sér og kostnaður greiðist af lið 02-16.

2. Fundargerðir nefnda lagðar fram.

Félagsmálanefnd 75. fundur 3/11.

Fundargerðin er í 2 liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf Sólveigar Vagnsdóttur v/húseignin Aldan, Þingeyri.

Lagt fram bréf frá Sólveigu Vagnsdóttur, Þingeyri, dagsett 3. nóvember s.l., þar sem hún spyrst fyrir um húsnæði á Þingeyri til smíða, til dæmis húsið Ölduna.

Bæjarráð óskar eftir upplýsingum um ástand hússins hjá bæjarverkfræðingi.

4. Íþróttabandalag Ísfirðinga - Hesthúsahverfið í Engidal.

Lagt fram bréf frá Íþróttabandalagi Ísfirðinga dagsett 2. nóvember s.l., varðandi skipulag í Engidal, svo sem með tilliti til hesthúsahverfis þar.

Bæjarráð vísar bréfinu til umhverfisnefndar og landbúnaðarnefndar.

5. Bréf Daníels Engilbertssonar - Forkaupsréttur á hluta jarðar.

Lagt fram bréf frá Daníel Engilbertssyni, Víkurtúni 2, Hólmavík, dagsett 3. nóvember s.l., þar sem hann óskar eftir svari um hvort Ísafjarðarbær muni neyta forkaupsréttar að 11.11% hlut í jörðinni Lyngholti á Snæfjallaströnd, fyrrum Snæfjallahreppi.

Bæjarráð hafnar forkaupsrétti.

6. Slökkviliðsstjórinn Ísafjarðarbæ - Brunavarnir, stjórnun og framkvæmdir.

Lagt fram bréf frá slökkviliðsstjóra Ísafjarðarbæjar Þorbirni J. Sveinssyni, dagsett 30. október s.l., um skoðanir hans hvað varðar brunavarnir hér í sveitarfélaginu, stjórnun þeirra og framkvæmdir. Bréfinu fylgja ýmis gögn málinu til skýringar.

Bæjarráð vísar erindi slökkviliðsstjóra til fjárhagsáætlunargerðar og til bæjarstjóra vegna endurskoðunar á stjórnsýslu.

7. Samtök iðnaðarins - Skipulagsmál og framboð byggingalóða.

Lagt fram bréf frá Samtök iðnaðarins dagsett 29. október s.l., um skipulagsmál, framboð lóða og væntanlegt framboð næstu 2-3 árin.

Bæjarráð vísar í fyrri bókun vegna lóðaframboðs og beinir því til umhverfisnefndar að hraða þeirri vinnu og vísar erindinu til nefndarinnar.

8. Boðsbréf - Þjóðargjöfin til Vestur Íslendinga.

Lagt fram bréf frá Þjóðræknisfélagi Íslands ofl. ódagsett, þar sem óskað er eftir framlögum til útgáfu Íslendingasagna í tilefni 1000 ára afmælis landafunda Leifs Eiríkssonar.

Bæjarráð hafnar erindinu.

9. Íþróttabandalag Ísfirðinga - Íþróttasvæðið á Torfnesi, tillögur.

Lagt fram bréf frá Íþróttabandalagi Ísfirðinga dagsett 3. nóvember s.l., um íþróttasvæðið á Torfnesi og tillögur B.Í. 88 til úrbóta. Bréfinu fylgja ýmis gögn um málið.

Bæjarráð vísar bréfi Íþróttabandalags Ísfirðinga til umhverfisnefndar og fræðslunefndar.

10. Alþjóðleg ungmennaskipti - Samstarf um móttöku unglinga.

Lagt fram bréf frá Aðþjóðlegum ungmennaskiptum, Hverfisgötu 8-10, Reykjavík, dagsett 3. nóvember s.l., þar sem óskað er eftir samstarfi Ísafjarðarbæjar við móttöku á einum eða tveimur unglingum til dvalar og vinnu.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarnefndar.

11. Félagsmálaráðuneytið - Starfshópur um tómstundir fatlaðra ofl.

Lagt fram bréf frá Félagsmálaráðuneyti dagsett 27. október s.l., varðandi starfshóp er skipaður hefur verið til að kanna, á hvaða hátt fatlaðir geti notið sumarleyfa, tómstunda, lista- og menningarlífs á sama hátt og aðrir í þjóðfélaginu.

Bæjarráð felur félagsmálastjóra að svara erindinu fyrir tilsettan tíma.

12. Bygging Ellefsenshúss/minjasafns á Flateyri.

Lagt fram bréf frá undirbúningshópi að byggingu Ellefsenshúss á Flateyri, dagsett 1. nóvember s.l. Í bréfinu er meðal annars óskað formlega eftir því við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að hún lýsi yfir vilja sínum til að vera aðili að byggingu og rekstri Ellefsenshúss.

Bæjarráð mælir með erindinu við bæjarstjórn.

13. Fjármálastjóri - Álagning mengunar- og heilbrigðisgjalds 1998.

Lagt fram bréf fjármálastjóra Þóris Sveinssonar dagsett 6. nóvember s.l., um álagningu mengunar- og heilbrigðisgjalds 1998 á fyrirtæki og stofnanir í Ísafjarðarbæ.

Meðfylgjandi eru drög að álagningarlista fyrir árið 1998 útbúinn af starfsmönnum bæjarskrifstofu með leiðréttingum og/eða breytingum sem gerðar hafa verið á lista heilbrigðisfulltrúa.

Bæjarráð samþykkir álagninguna samkvæmt gjaldskrám nr. 16/1992 og nr. 70/1992. Bæjarráð bendir á að tímabært sé að endurnýja gjaldskrá.

14. Bréf Ásthildar Þórðardóttur gaðrðyrkjustjóra.

Lagt fram bréf Ásthildar Þórðardóttur, garðyrkjustjóra dagsett 4.nóvember s.l., athugasemd vegna annars liðar 66.fundar fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar, sem fram kemur í bæjardagskrá fyrir 47. fund bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram til kynningar.

15. Önnur mál.

Bryndís G. Friðgeirsdóttir óskaði eftir svohljóðandi bókun í bæjarráði vegna framkvæmda við Grunnskólann á Ísafirði.

,,Ég harma þau leiðu mistök meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að láta fjölmiðlum í té rangar upplýsingar varðandi kostnað við framkvæmdir við bráðabirgða húsnæði Grunnskólans á Ísafirði þann 5. og 6.nóvember s.l. Einnig tel ég með öllu óraunhæft að bera saman, annars vegar hluta af kostnaði við framkvæmdir við Austurveg 2 og hins vegar kostnaðaráætlun við framkvæmdir á Torfnesi, með því að gefa sér þær forsendur "að Torfnesið færi hugsanlega jafn mikið fram úr áætlun og Austurvegur 2." Þær kostnaðartölur sem kynntar voru í fjölmiðlum hafa ekki fengið umfjöllun í bæjarráði sem er framkvæmdaaðili verksins. Hér með gef ég meirihlutanum tækifæri til að leiðrétta þessi leiðu mistök með því að taka málið til umfjöllunar í bæjarráði eins og ber að gera samkvæmt sveitarstjórnarlögum og færa til bókar réttar kostnaðartölur."

Bæjarstjóri lætur bóka eftirfarandi.

,,Bæjarstjóri lét fjölmiðlum í té minnisblað sitt til allra bæjarfulltrúa um kostnað vegna framkvæmda að Austurvegi 2, í tengslum við breytingu á fjárhagsáætlun. Tölur um kostnað vegna framkvæmda að Austurvegi 2, eru ekki rangar í því minnisblaði, heldur eru staðreyndir eins og þær voru uppgefnar á þeim tíma. Samanburður við Torfnesleið byggir hins vegar á þeim útreikningum, að sú leið hefði farið jafn mikið fram úr áætlun og Austurvegur 2."

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19.10

Þorleifur Pálsson, ritari.

 

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.