Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

37. fundur

Árið 1997, mánudaginn 17. febrúar kl. 16.00, kom bæjarráð saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar, Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Eftirfarandi málefni voru tekin til afgreiðslu:

1. Fundargerðir nefnda.

Lagðar fram eftirfarandi fundargerðir nefnda:

a. Umhverfisnefndar frá 12. feb.

25. fundur. Fundargerðin er í 7. töluliðum.

Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

b. Undirnefnd umhverfisnefndar frá 14. jan. og 10. feb.

Fundargerðirnar eru lagðar fram til kynningar.

c. Félagsmálanefndar frá 12. feb.

21. fundur. Fundargerðin er í 4. töluliðum.

Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

2. Menningarnefnd - viðræður við bæjarráð.

Mætt til viðræðna við bæjarráð Geirþrúður Charlesdóttir, form. menningarnefndar, og Rúnar Vífilsson, skóla- og menningarfulltrúi, sbr. 1. tölul. a-liðar fundargerðar 36. fundar bæjarráðs frá 10. feb. sl. Rætt var m.a. um rekstur safnahúsa og félagsheimila, reglur um útleigu húsa og framlag til gjaldfærðrar fjárfestinga á árinu 1996, um umsóknir um styrki menningarnefndar 1997 auk uppbyggingar tjaldsvæða. Formaður bæjarráðs benti á að menningarnefnd væri pólitískt kjörin nefnd á vegum sveitarfélagsins og ætlast væri til að hún væri bæjarstjórn til ráðgjafar um þau mál sem undir hennar svið falla.

3. Byggingarfulltrúi - grunnleigusamningar

og gjaldskrá gatnagerðagjalda.

Lögð fram erindi frá Stefáni Brynjólfssyni, byggingarfulltrúa, sem vísað var til næsta fundar bæjarráðs, sbr. 6. tölul. í fundargerð 36. fundar bæjarráðs frá 10. feb. sl.

Ennfremur lagt fram bréf ds. 14.02. sl. frá Andra Árnasyni hrl., bæjarlögmanni, varðandi lög um stimpilgjöld af grunnleigusamningum lóða.

a. Gerð grunnleigusamninga.

Bæjarráð samþykkir að halda óbreyttu orðalagi í grunnleigusamningum lóða.

b. Ný gjaldskrá fyrir gatnagerðargjald í Ísafjarðarbæ fyrir byggingarleyfi veitt eftir 1. jan. 1997.

Bæjarráð vísar gjaldskránni til fyrri umræðu bæjarstjórnar.

4. Bæjarstjóri - lóðin að Hafnarstræti 9-13, Ísafirði.

Lagt fram afrit bréfs til Landsbanka Íslands ásamt fylgigögnum dags. 13. feb. sl. frá Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra, varðandi lóðarréttindi Landsbanka Íslands að Hafnarstræti 9-13, Ísafirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við formann bankaráðs og bankastjóra Landsbankans um málið.

 

 

 

 

5. Björgunar- og hjálparsveitir - uppgjör skulda.

Lagt fram bréf, dags. 13. feb. sl. frá Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra, varðandi skuldir björgunar- og hjálparsveita við bæjarsjóð Ísafjarðar ásamt tillögu um að skuldirnar verði gerðar upp með styrkveitingu frá bæjarsjóði og kostnaði verði mætt af liðnum 07-89-971-1.

Bæjarráð samþykkir að veita björgunar- og hjálparsveitum styrk sem nemur stöðu þeirra á viðskiptareikningi 17. febrúar.

6. Samband ísl. sveitarfélaga -

lífeyrissjóðsiðgjöld nýráðinna starfsmanna.

Lagt fram dreifibréf til sveitarfélaga ásamt fylgiskjölum ds. 11. feb. sl. frá Þórði Skúlasyni, framkv.stj. Sambands ísl. sveitarfélaga, varðandi greiðslur lífeyrisiðgjalda nýráðinna starfsmanna sveitarfélaga, sem aðild eiga að LSR. Í bréfinu er lagt til að sérstakur viðauki við ráðningarsamning verði gerður við nýja starfsmenn á meðan unnið er að athugun á lífeyrissjóðsmálum sveitarfélaganna og stofnana þeirra.

Bæjarráð samþykkir umræddan viðauka við ráðningarsamning nýrra starfsmanna.

7. Einar Oddur Kristjánsson -

snjóflóðavarnir á Flateyri og uppkaup húsa.

Lagt fram minnisblað frá Einari Oddi Kristjánssyni, alþm., sem móttekið var á Flateyri 11. feb sl., varðandi snjóflóðavarnir á Flateyri og uppkaup húsa. Í minnisblaðinu er m.a. rætt um möguleg uppkaup á húsum við Ólafstún, Flateyri.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir afstöðu umhverfis- og félagsmálaráðherra á minnispunktum Einars Odds Kristjánssonar, alþingismanns.

8. Vegagerðin - snjómokstur á stofnvegum.

Lagt fram bréf ds. 5. feb. sl. frá Guðmundi Rafni Kristjánssyni, f.h.Vegagerðarinnar, þar sem fjallað er um snjómokstur á stofnvegum, sérstaklega á Vestfjarðavegi 60-40 um hálsinn fyrir ofan Þingeyri, og reglur þar um. Ennfremur lagt fram minnisblað ds. 4. feb. sl. frá Ármanni Jóhannessyni, bæjarverkfr., um snjóruðning í Arnarfjörð yfir Hrafnseyrarheiði. Í minnisblaðinu kemur fram að Vegagerðin muni taka þátt í mokstri yfir heiðina á svo kölluðum helmingamokstri svo fremi að veðurútlit væri þannig að tryggt væri að moksturinn dygði að minnsta kosti þrjá til fjóra daga.

Jónas Ólafsson, bæjarfulltrúi, lagði fram eftirfarandi bókun: "Bæjarráð felur bæjarstjóra að sjá til þess að vetrarsamgöngur við norðanverðan Arnarfjörð verði með þeim hætti að íbúarnir þar geti sem oftast notið þeirrar þjónustu sem bæjarfélagið veitir öðrum íbúum þess."

9. Fjórðungssamband Vestfirðinga - erindi.

Lögð fram eftirfarandi bréf ásamt fylgiskjölum frá Halldóri Halldórssyni, framkv.stj. Fjórðungssambands Vestfirðinga auk fundagerðar FV:

  1. Bréf ds. 7. feb. sl. varðandi fyrirhugaða ráðstefnu um byggð á Íslandi, sem haldin verður á Akureyri 10.-11. apríl nk.
  2. Bréf ds. 11. feb. sl. varðandi húsaleigubótakerfið.
  3. Fundargerð stjórnar FV frá 4.02.

10. Framhaldsskóli Vestfjarða - kaup á hermi vegna vélstjórnarkennslu.

Lagt fram bréf ásamt fylgiskjölum ds. 6. feb. sl. frá Birni Teitssyni, skólameistara Framhaldsskóla Vestfjarða, með beiðni um framlag úr bæjarsjóði vegna kaupa á hermi vegna vélstjórnarnáms.

Bæjarráð samþykkir að veita 100.000 kr. styrk í verkefnið en lýsir sig jafnframt reiðubúið að taka þátt í stofnkostnaði á næsta ári ef af kaupum verði. Styrkurinn takist af liðnum 15-65-959-1.

11. Menningarmálanefnd A-Skaftafellssýslu - vinabæjatengsl.

Lagt fram bréf ds. 23. jan. sl. frá Eiríki P. Jörundssyni, f.h. menningarmálanefndar A-Skaftafellssýslu, þar sem rætt er um stofnun vinabæjatengsla milli Ísafjarðarbæjar og Hornafjarðarbæjar.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarnefndar.

12. Guðmundur Hjaltason - Hafnarstræti 9.

Lagt fram bréf ds. 14. feb. sl. frá Guðmundi Hjaltasyni, kaupmanni, varðandi framleigu á húsnæði bæjarsjóðs við Hafnarstræti 9.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga við bréfritara.

13. Félag hrefnuveiðimanna - ályktun um hvalveiðar.

Lagt fram bréf ásamt fylgiskjölum ds. 13. feb. sl. frá Konráði G. Eggertssyni, form. Félags hrefnuveiðimanna, varðandi hvalveiðimál. Leggur bréfritari áherslu á að bæjarráð álykti í þessu máli.

14. Rannveig Höskuldsdóttir - íbúð á Hlíf II.

Lagt fram bréf ds. 14. feb. sl. frá Rannveigu Höskuldsdóttur með fyrirspurn um kaup á íbúð 01.10 á Hlíf II.

Bæjarráð felur fjármálastjóra að ræða við bréfritara.

Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19.15.

Þórir Sveinsson, ritari

Sigurður R. Ólafsson, form. bæjarráðs

Þorsteinn Jóhannesson Jónas Ólafsson

Hilmar Magnússon Smári Haraldsson

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri.