Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

4. fundur

Árið 1996, mánudaginn 1. júlí kl. 18:00, kom bæjarráð saman til fundar um fjárhagsmál í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundagerðir nefnda.

Lagðar fram eftirfarandi fundargerðir nefnda:

a. 2. fundur fræðslunefndar frá 25. júní sl.

b. 2. fundur félagsmálanefndar frá 25. júní sl.

c. 1. fundur umhverfisnefndar frá 26. júní sl.

d. 1. fundur landbúnaðarnefndar frá 25. júní sl.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Karl Guðmundsson, Bæ, verði ráðinn búfjáreftirlitsmaður.

e. 1. fundur menningarnefndar frá 27. júní sl.

2. Bólstrun Vestfjarða - beiðni um ábyrgð.

Lagt fram bréf frá Hilmari Hilmarssyni, f.h. Bólstrun Vestfjarða, dags. 27. júní sl., þar sem farið er fram á bæjarábyrgð á láni vegna atvinnustarfsemi.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða bréfritara.

3. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddssen hf - snjóflóðavarnir á Flateyri.

Lagt fram bréf frá Flosa Sigurðssyni og Gunnari Guðna Tómassyni, f.h. VST hf, dags. 25. júní sl., með svörum við athugasemdum Önundar Ásgeirssonar varðandi snjóflóðavarnir á Flateyri.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að útboð á snjóflóðavörnum vegna Flateyrar verði heimilað. Kostnaðarhlutdeild bæjarfélagsins, í því verki, verði mætt með lántöku. Þorsteinn Jóhannesson, bæjarfulltrúi, lét bóka: "Þessi tillaga borin upp í kjölfar fundar, sem formaður bæjarráðs, forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóri áttu með forsætisráðherra, umhverfisráðherra og félagsmálaráðherra þann. 28. júní sl., en þar kom fram að hugsanlegar breytingar sem verða á lögum Ofanflóðasjóðs á hausti komanda muni hafa afturvirkni og ná yfir hlutdeild sveitarfélagsins í snjóflóðavörnum árið 1996."

4. Samband ísl. sveitarfélaga - tekjur sveitarfélaga vegna yfirfærslu grunnskólans.

Lagt fram bréf frá Garðari Jónssyni, deildarstjóra Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 25. júní sl., með upplýsingum um tekjur sveitarfélaga vegna yfirfærslu grunnskólans. Í bréfi Garðars kemur fram að áætlaðar tekjur Ísafjarðarbæjar á árinu 1997 verða 122,3 millj. kr., þar af er útsvarshækkun í staðgreiðslu og beingreiðslur frá ríkissjóði 101,6 millj. kr. og almenn jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 20,7 millj. kr. Á tímabilinu ágúst-desember 1996 eru áætlaðar greiðslur sömu aðila 47,5 millj. kr.

5. "Samhugur í Verki "- gjöf Grænlendinga í þágu barna á Flateyri.

Lagt fram bréf frá Herði Einarssyni, form. sjóðsstjórnar "Samhugar í verki", dags 11. júní sl., þar sem tilkynnt er um ákvörðun stjórnar varðandi ráðstöfun 3,8 millj. kr. af söfnunarfé Grænlendinga í kaup á ýmsum tækjum og áhöldum til grunnskólans, tónlistarskólans og íþróttahússins á Flateyri auk framlags til íþróttafélagsins Grettis vegna unglingastarfs.

Bæjarráð óskar eftir að kjörin nefnd, sem Flateyrarhreppur kaus, leggi fram upplýsingar um söfnunarfé "Samhugar í verki" og ráðstöfun þess. Bæjarráð heimilar upphaf framkvæmda við nýjan leikskóla á Flateyri enda verði einungis unnið fyrir þá fjármuni sem nú liggja fyrir.

6. Forkaupsréttur að fasteign - Fjarðarstræti 38, Ísafirði.

Lagt fram bréf frá Tryggva Guðmundssyni, hdl., dags. 24. júní sl., þar sem bæjarsjóði er boðinn forkaupsréttur að fasteigninni Fjarðarstræti 38, Ísafirði. Ennfremur lagt fram bréf frá Stefáni Brynjólfssyni, byggingarfulltrúa, dags. 24. júní sl., þar sem hann nefnir að hann telji að ekki sé ástæða fyrir bæjarsjóð að ganga inní fyrirliggjandi tilboð.

Bæjarráð hafnar forkaupsrétti.

7. Forstöðumaður tæknideildar o.fl. - matsgerð vegna Heimabæjar II, Hnífsdal.

Lögð fram skýrsla frá Ármanni Jóhannessyni, Gunnari Torfasyni og Sveini D K Lyngmo, dags 25. júní sl., varðandi mat á fasteigninni Heimabær II, Hnífsdal. Niðurstaða matsins er að heildarmatsverðið sé 13,6 millj. kr.

Bæjarráð frestar afgreiðslu málsins en óskar eftir áliti lögmanns sveitarfélagsins og stjórnar Ofanflóðasjóðs á málinu.

8. Lánasjóður sveitarfélaga - skuldbreytingarlán 1996.

Lagt fram bréf frá Birgi L. Blöndal, aðst.frv.stj., dags. 21. júní sl., þar sem tilkynnt er að Lánasjóður sveitarfélaga muni veita Ísafjarðarbæ 50 millj. kr. lán til skuldbreytinga.

9. Kvótatilfærsla.

Lagðar fram beiðnir um flutning á aflakvóta frá eftirtöldum:

Frá Orra ÍS-20 til Brettings NS-50, 50,0 tonn grálúða.

Frá Jöfri ÍS-172 til Sigurborgar HU-100, 100,0 tonn rækja.

Bæjarráð leggur til að flutningurinn verði samþykktur enda liggur fyrir samþykkt Sjómannafélags Ísfirðinga.

10. Húsnæðisstofnun ríkisins - breyting húseigna á Flateyri í félagslegar íbúðir.

Lagt fram bréf frá Sigurði E. Guðmundssyni, f.h. húsnæðismálastjórnar, dags. 24. maí sl., þar sem tilkynnt er að húsnæðismálastjórn hafi á fundi 24. maí sl., samþykkt að verða við erindi Flateyrarhrepps frá 17. maí sl., um viðræður við stofnunina að tilteknum húseignum á Flateyri verði breytt í félagslegar íbúðir.

11. Fundagerðir - skólanefnd FVÍ, FSÍ/HSÍ og Samband ísl. sveitarfélaga.

Lagðar fram eftirfarandi fundargerðir:

a. útskrift fundargerðar skólanefndar FVÍ frá 31. maí sl.

b. útskrift fundargerð stjórnar FSÍ/HSÍ frá 17. apríl sl.

c. útskrift fundargerðar 614. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 31. maí sl.

12. Félagsmálaráðuneytið - auglýsing á nafni sveitarfélagsins.

Lagt fram bréf ásamt fylgigögnum frá Sesselju Árnadóttur, félagsmálaráðuneytinu, dags. 19. júní sl., með auglýsingu á nafni hins sameinaða sveitarfélags á norðanverðum Vestfjörðum, Ísafjarðarbæ.

13. Sýslumaðurinn á Ísafirði - umsóknir um veitingarleyfi.

Lögð fram eftirfarandi bréf ásamt fylgigögnum frá Ólafi Helga Kjartanssyni, sýslumanni á Ísafirði:

a. bréf, dags. 19. júní sl., með beiðni um umsögn varðandi umsókn frá Ferðaskrifstofu Íslands hf um rekstur hótels og veitingarhúss að Núpi, Dýrafirði, umsókn frá Þórði S. Jónssyni um rekstur veitingahúss að Hafnarstræti 15-19, Vagninum og umsókn frá Þorgerði Karlsdóttur um veitingarleyfi f.h. Söluskálans Esso, Skipagötu 3, Suðureyri Flateyri. Ennfremur lagt fram bréf frá Jóni Tynes, félagsmálastjóra, dags. 25. júní sl., þar sem hann greinir frá bókun félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar frá 25. júní sl., að nefndin mæli ekki gegn því að framangreindum aðilum verði veitt vínveitingarleyfi og bréf frá Stefáni Brynjólfssyni, byggingarfulltrúa, dags. 26. júní sl., þar sem hann nefnir að eftir því sem hann viti best sé ekki ástæða til annars en að endurnýja viðkomandi leyfi.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að mælt verði með að umbeðið leyfi verði veitt.

14. Lilja Rafney Magnúsdóttir - tillaga um úttekt á hitunarkostnaði.

Lögð fram tillaga frá Lilju Rafney Magnúsdóttur, sem vísað var til bæjarráðs á fundi bæjarstjórnar 27. júní sl. Í tillögunni er mælst til að hlutlausum fagaðila verði falið að gera úttekt á hitunarkostnaði sambærilegs íbúðarhúsnæðis á Ísafirði, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Rætt var um forsendur gjaldskrár Orkubús Vestfjarða varðandi sölu á heitu vatni.

Bæjarráð óskar eftir skriflegri umsögn Orkubús Vestfjarða á málinu.

15. Byggingarfulltrúinn á Ísafirði - forkaupsréttur og gangstéttarmál.

Lögð fram eftirfarandi bréf ásamt fylgiskjölum og umsögnum frá Stefáni Brynjólfssyni, byggingarfulltrúa:

a. frá Óla Reyni Ingimarssyni, dags. 24. júní sl., þar sem bæjarsjóði er boðinn forkaupsréttur á geymsluhúsnæði við Fjarðarstræti 16. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. júní sl., telur hann ekki ástæðu fyrir bæjarsjóð að ganga inní fyrirliggjandi tilboð.

Bæjarráð hafnar forkaupsrétti.

b. frá Óla Reyni Ingimarssyni, f.h. Vélsmiðjunnar Þrists hf., dags. 24. júní sl., þar sem sótt er um að ekki verði sett gangstétt fyrir framan fasteignir vélsmiðjunnar við Sindragötu 8 og Mjósund eins og fyrirhugað er, en þess í stað sett malbik á kostnað fyrirtækisins. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. júní sl., mælir hann með því að Vélsmiðjunni Þristi hf verði heimilað að standa fyrir umbeðinni framkvæmd.

Bæjarráð vísar málinu til umhverfisnefndar.

16. Bæjarstjórinn á Ísafirði - skýrsla um Reykjavíkurferð.

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, gerði grein fyrir ferð hans, formanns bæjarráðs og forseta bæjarstjórnar, til Reykjavíkur 28. júní sl. á fund forsætisráðherra auk ráðherra félagsmála og umhverfismála einnig, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, embættismanna ráðuneyta og Sambands ísl. sveitarfélaga og starfsmanna Reksturs og ráðgjafar. Fram kom að rætt var m.a. um málefni flóttamanna og og yfirtöku á málefnum fatlaðra, um snjóflóðavarnir sbr. 3. tölul. fundargerðarinnar, um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og fjárframlög vegna sameiningarinnar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga reglur sjóðsins um úthlutun til sveitarfélaga

sem sameinast. Ennfremur var rætt við fyrirtækið Rekstur og ráðgjöf ehf um uppbyggingu stjórnskipulags Ísafjarðarbæjar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18.15.

_____________________

Þórir Sveinsson, ritari.

_______________________________

Sigurður R. Ólafsson, form. bæjarráðs

 

________________________ ________________________

Þorsteinn Jóhannesson Jónas Ólafsson

________________________ ________________________

Smári Haraldsson              Kristinn Hermannsson

___________________________

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri.