Atvinnumálanefnd

53. fundur

Árið 2005, fimmtudaginn 10.mars kl. 17:00 hélt atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar fund á skrifstofu Ísafjarðarbæjar.
Mættir: Elías Guðmundsson formaður, Bjarki Bjarnason, Björn Davíðsson, Magnús Reynir Guðmundsson, Gísli H. Halldórsson og Rúnar Óli Karlsson, ritari. Kristján G. Jóhannsson boðaði forföll og mætti varamaður í hans stað.

Þetta var gert:

  1. Ferðalangur á heimaslóð (2005-03-0035)
  2. Lagt fram bréf frá Höfuðborgarstofu dags. 28. janúar 2005 þar sem verkefnið Ferðalangur á heimaslóð er kynnt. Lagt fram til kynningar.

  3. Byggðaáætlun 2006 – 2009 (2005-03-0040)
  4. Lagt fram bréf frá Aðalsteini Óskarssyni f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga dags. 1.mars 2005 en bæjarráð vísaði erindinu til nefndarinnar þann 7. mars sl. Er óskað eftir athugasemdum nefndarinnar við tillögur sem settar voru fram á fundi um byggðaáætlun 18. febrúar sl. en á þeim fundi sátu meðal annara fulltrúar sveitarstjórna á Vestfjörðum.

    Nefndin vill leggja til að sett séu inn í áætlunina mælanleg markmið um tilfærslu opinberra starfa og fleiri verkefni sem getið verður um í áætluninni. Hvað varðar aðrar tillögur, vísar nefndin í Byggðaáætlun Vestfjarða og væntanlega stefnumótun í atvinnumálum Ísafjarðarbæjar sem verður kynnt innan tíðar.

    Atvinnumálanefnd vonast til að geta fjallað nánar um málið síðar á árinu þegar þingsályktunartillaga um byggðaáætlun verður send sveitarstjórnum til umsagnar.

  5. Frumkvöðull ársins 2004
  6. Atvinnumálanefnd ræddi fram komnar tillögur um frumkvöðul ársins 2004 og komst að niðurstöðu sem verður kynnt innan tíðar.

  7. Flutningur starfa á vegum Íslandsbanka hf.
  8. Atvinnumálanefnd ræddi þá ákvörðun Íslandsbanka hf. að flytja til Ísafjarðar tíu störf við upplýsingagjöf og símavörslu. Nefndin fagnar sérstaklega þessu frumkvæði bankans og telur að með þessari ákvörðun sýni bankinn lofsvert frumkvæði sem vafalaust mun verða hagkvæmt bæði fyrir Ísafjarðarbæ og Íslandsbanka hf.

  9. Fundur vegna upplýsingamiðstöðvar í Edinborgarhúsinu.
  10. Þann 3. mars sl. boðaði ferðamálafulltrúi stjórn Edinborgarhússins til fundar um framkvæmdir og breytingar á húsinu og m.a. var kynnt nýtt rými sem gæti orðið til ráðstöfunar undir upplýsingamiðstöð ferðamála og markaðsskrifstofu. Fundinn sótti Rúnar Óli Karlsson f.h. nefndarinnar. Rætt var um málið.

    Í framhaldi af umræðum nefndarinnar, var ákveðið að segja upp samningi um rekstur upplýsingamiðstöðvarinnar frá 21. maí 2003 við Vesturferðir ehf. miðað við janúar 2006. Með uppsögninni vill atvinnumálanefnd hafa frjálsar hendur varðandi hugsanlegar breytingar sem orðið gætu á rekstrinum frá og með þeim tíma. Þá felur nefndin formanni og ferðamálafulltrúa að ræða við framkvæmdarstjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða um samráð þessara aðila um húsnæðismál, til dæmis hvort hagkvæmt geti verið að festa hluta húsnæðis í Edinborgarhúsinu undir starfsemi upplýsinga- og markaðsskrifstofu.

  11. Ráðstefna um náttúru Vestfjarða og ferðamennsku (2005-03-0016)
  12. Lagt fram bréf frá Náttúrustofu Vestfjarða dags. 1.mars 2005 vegna undirbúnings ráðstefnu um náttúru og ferðamennsku á Vestfjörðum sem haldinn verður á Ísafirði. Óskar Náttúrustofan eftir styrk að upphæð kr.150.000. Atvinnumálanefnd leggur til við bæjarráð að styrkja þetta áhugaverða verkefni um kr.100.000.

  13. Ferðatorg 2005
  14. Ferðamálafulltrúi kynnti undirbúning að ferðasýningunni Ferðatorgi 2005 sem haldið verður í Smáralindinni dagana 1.-3. apríl en Ferðamálasamtök Vestfjarða eru í forsvari fyrir verkefnið.

Fleira ekki gert, fundarbókun upplesin og samþykkt, fundi slitið kl. 19:00

Elías Guðmundsson, formaður. Bjarki Bjarnason

Björn Davíðsson. Magnús Reynir Guðmundsson

Rúnar Óli Karlsson. Gísli H Halldórsson