Atvinnumálanefnd

50. fundur

Árið 2004, fimmtudaginn 9. desember kl. 17:00 hélt atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar fund á skrifstofu Ísafjarðarbæjar.
Mættir: Elías Guðmundsson, formaður, Kristján G. Jóhannsson, varaformaður, Magnús Reynir Guðmundsson, Björn Davíðsson, Gísli H. Halldórsson og Rúnar Óli Karlsson, atvinnu- og ferðamálafulltrúi, sem jafnframt ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

1. Samstarf við Austur Grænland. 2004 11 0037.

Lagt fram bréf dagsett 11. nóvember s.l., frá Gunnari Jónssyni, Guðmundi M. Kristjánssyni, Ólafi Halldórssyni og Kára Jóhannessyni, öllum á Ísafirði.
Til fundar undir þessum lið, mætti Gunnar Jónsson frá Skipaafgreiðslu Gunnars Jónssonar, varðandi hugmyndir um samstarf við Austur Grænland á ýmsum sviðum. Óformlegur vinnuhópur hefur undirbúið málið í kjölfar ráðstefnunnar um Austur Grænland, sem haldin var í tengslum við Siglingadaga sl. sumar.

Atvinnumálanefnd leggur til að Rúnar Óli Karlsson athugi vilja hagsmunaaðila og Atvest til að gera forkönnun á málinu.

2. Lenging ferðaþjónustutímans. 2004 11 0025.

Lagt fram bréf frá Samtökum ferðaþjónustunnar dagsett 3. nóvember 2004, um lengingu ferðatímabilsins til að bæta afkomu ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni.

Ýmis verkefni hafa verið í gangi í Ísafjarðarbæ til að reyna að lengja ferðamannatímann og Rúnari Óla falið að kynna þau verkefni fyrri Samtökum ferðaþjónustunnar.

3. Sögukort Vestfjarða. 2004 11 0094.

Lagt fram bréf frá Rögnvaldi Guðmundssyni hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar dagsett 26. nóvember sl. Stefnir fyrirtækið á að gefa út viðamikið sögukort af Vestfjörðum og er markmiðið með kortinu að vekja athygli ferðamanna á sögu og menningu Vestfjarða. Auk þess getur kortið nýst vel í fræðslu- og skólastarfi. Atvinnumálanefnd frestar erindinu til næsta árs þegar ný fjárhagsáætlun liggur fyrir.

4. Markaðsskrifstofa Vestfjarða. 2004 11 0081.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 24. nóvember sl., varðandi hugmyndir um stofnun markaðsskrifstofu ferðamála á Vestfjörðum. Búið er að vinna töluvert undanfarið að undirbúningi málsins og hefur málið verið kynnt öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum.

Nefndin tekur vel í verkefnið og felur Elíasi Guðmundssyni, formanni, að ræða hugmyndir nefndarinnar við bæjarráð Ísafjarðarbæjar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 18:55

Elías Guðmundsson, formaður.

Kristján G. Jóhannsson, varaformaður. Björn Davíðsson.

Gísli Halldór Halldórsson. Magnús Reynir Guðmundsson.

Rúnar Óli Karlsson, atvinnu- og ferðamálafulltrúi.