Atvinnumálanefnd

32. fundur

 

Árið 2003, fimmtudaginn 17.júlí kl. 17:00 hélt atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar fund á skrifstofu Ísafjarðarbæjar.
Mættir: Elías Guðmundsson, formaður, Gísli H. Halldórsson, Björn Davíðsson, Magnús Reynir Guðmundsson og Rúnar Óli Karlsson, atvinnu- og ferðamálafulltrúi. Kristján G. Jóhannsson mætti ekki og enginn kom í hans stað.

Þetta var gert:

1. Niðurstöður atvinnulífskönnunar. 2002-09-0104.

Lögð fram endanleg skýrsla Netheima ehf – Atvinnulífskönnun í Ísafjarðarbæ 2003, unnin á tímabilinu apríl til júní 2003.

Atvinnumálanefnd þakkar skýrsluna og telur hana vera vel unna og gefa nokkuð glögga mynd af ástandi atvinnulífs í Ísafjarðarbæ. Nefndin telur skýrsluna vera góðan grunn í áframhaldandi vinnu nefndarinnar við endurskoðun stefnumótunar í atvinnumálum. Leggur nefndin til að könnunin verði unnin árlega til að geta fengið samanburð á milli ára.

2. Upplýsingamiðstöðin á Þingeyri.

Lagt fram bréf dagsett 4. júlí 2003, frá upplýsingamiðstöð ferðamála á Þingeyri varðandi greiðslu styrks vegna reksturs miðstöðvarinnar á árinu 2002.
Vegna þess hversu seint reikningurinn ásamt greinargerð barst, er ekki heimild til greiðslu í fjárhagsáætlun yfirstandandi árs.

Nefndin leggur til að framlag vegna reksturs upplýsingamiðstöðvarinar á árinu 2002, kr. 200.000.- verði greitt og tekið inn við endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir yfirstandandi ár.

3. Brautargengi 2003. 2003-06-0026.

Tekið fyrir að nýju erindi frá Impru dagsett 4. júní 2003 um styrk kr. 400.000.- til námskeiðshalds á Ísafirði fyrir konur.

Að höfðu samráði við forstöðumann Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, telur nefndin að kostnaður við námskeiðið sé of hár miðað við það að einungis sex konur eiga þess kost að sækja námskeiðið frá Ísafirði og hafnar því erindinu. Nefndin telur að hægt sé að halda námskeið af svipuðum toga fyrir minni tilkostnað hér heimafyrir og hvetur Fræðslumiðstöð Vestfjarða að huga að slíku námskeiðshaldi.

Fleira ekki gert, fundarbókun upplesin og samþykkt, fundi slitið kl. 18:50

Elías Guðmundsson, formaður.

Björn Davíðsson. Gísli H. Halldórsson.

Magnús Reynir Guðmundsson.

Rúnar Óli Karlsson, atvinnu- og ferðamálafulltrúi, er jafnframt ritaði fundargerð.