Atvinnumálanefnd

14. fundur

Árið 2002, föstudaginn 12. júlí kl. 13:00 hélt atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar fund í Þróunarsetri Vestfjarða. Mættir voru undirritaðir. Fundargerð ritaði Björn Davíssson.
Boðað var til fundarins í því skyni að kynna atvinnumálanefnd starfsemi Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og Svæðisvinnumiðlunar.
Mætt voru í upphafi fundar f.h. AtVest Aðalsteinn Óskarsson og Dagný Sveinbjörnsdóttir.

Þetta var gert:

1. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hf.

a. Aðalsteinn Óskarsson hélt fyrirlestur um tilurð og stofnun AtVest, greindi frá starfseminni og því sem er á döfinni á næstunni. Hann kynnti einnig helstu niðurstöður úr ásreikningi AtVest 2001 og sýndi glærur þar sem fram kom m.a. skipting verkefna á milli þátta og landshluta innan Vestfjarða.

b. Umræður um efni fyrirlestursins með Aðalsteini og Dagný. Rætt var um skiptingu starfa á milli atvinnugreina og þróun starfafjölda. Í ljós kom að fram til 1997 eru til nokkuð nákvæmar upplýsingar, unnar af Byggðastofnun eftir gögnum frá skattyfirvöldum, en eftir þann tíma eru engin áreiðanleg gögn tiltæk. Fram komu skoðanir um að atvinnumn. beiti sér fyrir því að Ísafjarðarbær hefji slíka skráningu fyrir störf innan sveitarfélagsins í samstarfi við Atvest með það að markmiði að í framtíðinni geti verið hægt að víkka þá skráningu út til alls landsins með fjárveitingum frá hinu opinbera.

c. Rætt var um eignarhaldsfélag Vestfjarða og eignarhaldsfélagið Glámu og þann möguleika að Ísafjarðarbær geti haft forgöngu um eignarhaldsfélag fyrir nýsköpunaráherslur.

Kristján G. Jóhannson vék af fundi vegna forfalla.

2. Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða.

Inn á fundinn mætti Sigríður Hrönn Elíasdóttir, f.h. Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða.

a. Sigríður Hrönn Elíasdóttir sagði frá starfsemi Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða og greindi m.a. frá því að Svæðisvinnumiðlun heldur úti skráningu yfir þá sem bjóða eða sækjast eftir vinnu á svæðinu, bæði fólk hér á svæðinu og eins utanaðkomandi aðila. Greindi frá samstarfi við aðra aðila s.s. Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Skóla- og fjölskylduskrifstofu og námskeiðahaldi o.fl.

b. Atvinnumálanefnd óskar eftir við Svæðisvinnumiðlun að athuga hvort tiltækar séu upplýsingar um skiptingu starfa í Ísafjarðarbæ, flokkað á milli atvinnugreina og hvernig þróun starfafjölda í hverri grein fyrir sig hefur verið s.l. fjögur ár. Séu þessar upplýsingar tiltækar þá verði þeim komið til nefndarinnar.

c. Atvinnumálanefnd beinir því til bæjarstjórnar að þess sé gætt að laus störf á vegum Ísafjarðarbæjar séu jafnan tilkynnt til Svæðisvinnumiðlunar til birtingar á þeim listum sem Svæðisvinnumiðlun heldur, bæði á Netinu og almennt.

3. Hugmyndakarfa. - Minnispunktar.

Björn Davíðsson dreifði minnispunktum (hugmyndakörfu) til nefndarmanns til kynningar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:00

Elías Guðmundsson, formaður.

Gísli H. Halldórsson. Kristján G. Jóhannsson.

Magnús Reynir Guðmundsson. Björn Davíðsson.