Atvinnumálanefnd

6. fundur

Árið 2001, miðvikudaginn 25. apríl kl. 17:00 hélt atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar fund á skrifstofu Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Mættir voru undirritaðir.

Þetta var gert:

1. Frumvarp til laga um breytingar á lax- og silungsveiðilögum. Landbúnaðarnefnd Alþingis óskar umsagnar.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 27. febrúar s.l., þar sem bæjarráð vísar erindi frá landbúnaðarnefnd Alþingis, um frumvarp til breytinga á lögum um lax- og silungsveiðar, til umsagnar atvinnumálanefndar.

Atvinnumálanefnd tekur undir afgreiðslu umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar á þessu erindi samkvæmt 8. lið í 127. fundargerð umhverfisnefndar frá 7. mars s.l., en þar segir. „Umhverfisnefnd telur óeðlilegt að ríkisvaldið geti veitt leyfi fyrir fiskeldi í sjó án þess að nærliggjandi sveitarstjórnir hafi nokkuð um málið að segja, enda gætu verulegir hagsmunaárekstrar komið upp.“
Atvinnumálanefnd óskar eftir að athugasemd nefndanna verði komið á framfæri við landbúnaðarnefnd Alþingis.

2. Erindi Íslenskra Kraftamanna. - Vestfjarðavíkingur 2001.

Lagt fram bréf frá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, dagsett 12. mars s.l., þar sem bæjarráð vísar erindi Íslenskra Kraftamanna frá 26. febrúar s.l., til atvinnumálanefndar.
Í bréfi Íslenskra Kraftamanna er óskað eftir sambærilegri aðstoð og styrk, til að halda Vestfjarðavíking 2001 í Ísafjarðarbæ, eins og var s.l. tvö ár.

Lagt fram til kynningar nú, en atvinnu- og ferðamálafulltrúa falið að leita ákveðinna upplýsinga fyrir næsta fund nefndarinnar.

3. Erindi frá menningarmálanefnd. - Styrkumsóknir 2001.

Lagt fram bréf frá menningarmálanefnd, dagsett 11. apríl s.l., þar sem nefndin vísar umsókn Gísla Hjartarsonar um styrk til atvinnumálanefndar. Í umsókninni sækir Gísli um styrk upp á kr. 150.000,- vegna ritstarfa sinna nú í vetur, undanfarin ár og í framtíðinni. Einkum er höfðað til þeirra ritstarfa er Gísli hefur unnið við útgáfu á Ársriti Útivistar, er fjallar um Hornstrandir norðan Djúps, frá Kaldalóni, vestur, norður og austur um til Ingólfsfjarðar í Strandasýslu, ásamt Drangajökli og aðliggjandi hálendi. Stærstur hluti þessa svæðis sem gerð eru skil á eru í Ísafjarðarbæ, það er fyrrum Snæfjalla-, Sléttu- og Grunnavíkurhreppum. Fram kemur að Gísli hefur ekki þegið greiðslur fyrir þessi störf sín.

Að mati atvinnumálanefndar hefur ofangreint framtak Gísla verulegt gildi fyrir ferðaþjónustu í Ísafjarðarbæ. Því samþykkir nefndin að veita Gísla viðurkenningu að upphæð kr. 50.000,- er færist á liðinn 13-61-407-1.

4. Verkefni atvinnumálanefndar á næstunni.

Atvinnumálanefnd stefnir á að standa fyrir ráðstefnu um atvinnumál í Ísafjarðarbæ með áherslu á nýsköpun. Drög að dagskrá verði lögð fyrir næsta fund nefndarinnar er verður 9. maí n.k.
Þá mun atvinnumálanefnd heimsækja nokkur fyrirtæki í Ísafjarðarbæ í maímánuði og kynna sér starfsemi þeirra.

5. Önnur mál.

a. Atvinnumálanefnd lýsir ánægju sinni með nýundirritaðann samning milli Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ og Íslenskrar erfðagreiningar og lýsir þeirri von að samningurinn leiði til fjölgunar starfa í Ísafjarðarbæ.

b. Rúnar Óli Karlsson, atvinnu- og ferðamálafulltrúi lagði fram kynningarrit um hafnir Ísafjarðarbæjar er gefinn hefur verið út af Land & Marin Publications Ltd. í Englandi. Kynningarritinu hefur verið og er verið að dreifa víða um heim og hér innanlands.

Fleira ekki gert fundarbókun upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 18:15

Þorleifur Pálsson, ritari.

Kristján Haraldsson, formaður. Kristján G. Jóhannsson.

Henrý Bæringsson. Rúnar Óli Karlsson.