Starfshópur um framtíðarlausn í húsnæðismálum Grunnskólans á Ísafirði

2. fundur

2. fundur starfshóps um framtíðarlausn í húsnæðismálum Grunnskólans á Ísafirði, haldinn á bæjarskrifstofum Ísafjarðarbæjar, þriðjudaginn 7. nóvember 2000, kl. 14:30.
Halldór Halldórsson ritaði fundargerð.

Gamli barnaskólinn.

Starfshópurinn var að koma af fundi með bæjarráði, byggingafulltrúa, Elísabet Gunnarsdóttur arkitekt og Magnúsi Skúlasyni og Þorsteini Gunnarssyni fulltrúum húsafriðunarnefndar ríkisins.

Fram kom rökstuðningur húsafriðunarnefndar fyrir því hvers vegna friða skal húsið. Húsafriðunarnefnd hefur ákveðið að leggja til við ráðherra að húsið verði friðað en er tilbúin til viðræðna um að fella friðun að hugmyndum Ísafjarðarbæjar um nýtingu þess. Í því felst að upphaflega byggingin frá 1901 og bygging ofan á hana frá 1906 verður friðuð. Það er framhliðin, sex kennslustofur og gangur. Húsafriðunarnefnd mun fallast á að byggt verði aftan við húsið, sé þörf á því og að húsið megi tengjast öðrum byggingum. Fram kom að um leið og húsið verður friðað, öðlast eigandi þess rétt til styrkveitingar úr húsafriðunarsjóði. Fjárhæð styrkveitinga er háð ákvörðun húsafriðunarnefndar.

Miðað við þessa stöðu málsins telur starfshópurinn ekki aðra leið færa en að nýta þann hluta gamla barnaskólans sem friðaður verður, sem hluta af heildarlausn.

Markmið.

Starfshópurinn er sammála um að heildarlausn í húsnæðis- og lóðamálum Grunnskólans á Ísafirði skuli byggð á stefnu og framtíðarsýn bæjaryfirvalda í skólamálum. Húsnæði, lóð og aðbúnaður skal fullnægja lögum og reglugerðum um skólamannvirki enda er gert ráð fyrir aðlögun eldri mannvirkja að skólastarfi í þeim lögum og reglugerðum. Húsnæði, lóð og annar aðbúnaður skal henta og stuðla að metnaðarfullu skólastarfi á 21. öld. Áhersla skal á það lögð að allur búnaður, rými og aðkoma að skólanum fullnægi kröfum um öryggi og hollt og gott vinnuumhverfi.

Hugmyndasamkeppni.

Starfshópurinn er sammála um að skoða hugmyndasamkeppni sem aðferð til að nálgast sem best nýtingu núverandi húsnæðis og byggingareits, t.d. skv. reglum Arkitektafélags Íslands. Heimilaðar verði viðaukatillögur sem snúi að lausnum utan reitsin sem verður skilgreindur af starfshópnum sem reitur fyrir hugmyndasamkeppni. Ákvörðun um þá afmörkun verður tekin á næsta fundi starfshópsins.

Áður en farið verði út í slíka samkeppni þarf starfshópurinn að ljúka við þarfagreiningu, spá um nemendafjölda, húsrýmisáætlun o.fl. sbr. fund starfshópsins 31. október sl.

Næstu skref.

1. Afmörkun reits á næsta fundi.
2. Frekari úrvinnsla varðandi hugmyndasamkeppni.
3. Aðrar forsendur skýrðar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:56

Halldór Halldórsson Elías Oddsson

Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson