Almannavarnanefnd

50. fundur

Þriðjudaginn 4. janúar 2005 kl. 08:30 kom almannavarnanefnd Ísafjarðarbæjar saman til fundar í stjórnstöð almannavarna við Fjarðarstræti, Ísafirði.
Fundargerð ritaði Stefán Brynjólfsson
Mættir eru undirritaðir:

Dagskrá:

Farið yfir stöðuna. Mikið hefur snjóað í morgun. Sérveðurspá fyrir Vestfirði gerir ráð fyrir að vindur snúist í vestlæga átt með áframhaldandi snjókomu. Útvarpssendingar hafa legið niðri síðan snemma í morgun þar sem slegið hefur út á Arnarnesi, en unnið er að viðgerð. Langbylgja hefur heyrst illa.

Almannavarnanefnd metur það svo að útvarpið gegni mikilvægu hlutverki í miðlun öryggisupplýsinga til almennings og fer fram á við fjölmiðla að nýttar verði allar færar leiðir til að miðla öryggisupplýsingum til almennings, svo sem sjónvarp, textavarp og internet.

Skutulsfjarðarbraut var opnuð kl. 07:30 í morgun af lögreglu og Vegagerð í samráði við snjóaeftirlitsmann og er unnið að opnun Hnífsdalsvegar á sömu forsendum, þ.e. að umferð er hleypt um þessa vegi undir eftirliti og er um neyðaropnun að ræða.

Almannavarnarnefnd ítrekar fyrri tilmæli sín til íbúa að þeir haldi kyrru fyrir nema brýna nauðsyn beri til. Veðurspá er ennþá slæm og sér almannavarnanefnd ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðunum um rýmingu.

Ákveðið að nefndin komi aftur saman til fundar kl. 13:00 en þá eiga að liggja fyrir nýjar upplýsingar um veðurspá og upplýsingar frá snjóaeftirlitsmanni.

Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og undirrituð. Fundi slitið kl. 09:22.

Halldór Halldórsson, formaður Sigríður B. Guðjónsdóttir, sýslumaður
Snorri Hermannsson, Júlíus Ólafsson,
Þorbjörn J. Sveinsson, Helgi Kr. Sigmundsson,
Stefán Brynjólfsson,