Almannavarnanefnd

40. fundur

Árið 2003, föstudaginn 7. nóvember kl. 04:12 kom almannavarnanefnd saman til fundar í stjórnstöð nefndarinnar.

Boðað var til fundarins vegna hættu á aurskriðu úr sjóflóðavarnargarði í Seljalandshverfi, vegna mikils vatnsveðurs.

Ákveðið var að rýma Múlaland 12 og 14 á Ísafirði, til að tryggja öryggi íbúa þar. Veðurstofa Íslands spáir rigningu til hádegis í dag og því telur almannavarnanefnd nauðsynlegt að rýma, ákveðið kl. 04:25.
Einnig ákveðið kl. 04:43 að láta íbúa í einbýlishúsum við Seljaland vita af ástandinu. Þegar ákvörðunin er tekin er mikið slagveður úti, hvasst og mikil úrkoma, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu er ekki gert ráð fyrir að úrkoman minki fyrr en um hádegi. Starfsmenn Ísafjarðarbæjar hafa verið boðaðir til vinnu og munu þeir fylgjast með skurðum og lækjum í hlíðinni ofan við Eyrina. Upplýsingar berast frá bæjarstarfsmönnum kl. 05:12, að lækir og skurðir séu þurrir og engin hætta frá þeim.

Fréttatilkynning send út til fjölmiðla kl. 05:05. Íbúar úr Múlalandi 12 farnir úr húsi kl. 05:20 samtals 26 manns.

Upplýsingar frá Veðurstofu kl. 05:45 skil á leið inn á landið verða yfir Vestfjörðum um kl. 06:00. Vindátt hefur snúist úr norðanátt í austur og síðan suð-vestur, samfelld úrkoma mun hætta en við tekur skúraveður, úrkomumagn mun ekki minka að ráði fyrr en líða fer á daginn.

Bæjarstarfsmenn beðnir að kanna aðstæður á Suðureyri kl. 05:45.

Sigurður Mar Óskarsson, bæjartæknifræðingur, yfirgaf fundinn kl. 04:35 og fór á vettvang við Seljaland ásamt fulltrúa verktaka á svæðinu. Sigurður er tilnefndur af nefndinni sem vettvangsstjóri.

Rýmingum úr Múlalandi 14 lokið kl. 06:00 samtals 19 manns.

Rauðikrossinn opnaði starfsstöð sína kl. 05:15 og tekur við þeim sem þurfa á gistingu eða annarri aðstoð að halda.

Fundi frestað kl. 06:35. Áætlað að halda fundi áfram kl. 10.00. Vettvangsstjórn verður áfram á vettvangi, slökkviliðsstjóri verður í stjórnstöð og fulltrúi Veðurstofu mun fylgjast með ástandinu.

 

Almannavarnanefnd kom saman að nýju ásamt fulltrúa Veðurstofu og Rauðakrossins kl. 10.00.

Farið yfir framkvæmd rýmingar í nótt, ákveðið að framkvæmdastjóri nefndarinnar ræði við Rauðakrossinn um fyrirkomulag rýmingar og skráningu þeirra sem yfirgefa hús sín.

Veðurspá gerir ráð fyrir að úrkoma verði lítil það sem eftir er dags.

Vettvangsstjórn og fulltrúi Veðurstofu meta ástandið þannig að ekki sé hætta á skriðuföllum meðan ekki er mikil úrkoma. Almannavarnanefnd ákveður að fengnum þessum upplýsingum að aflétta hættuástandi og heimila íbúum að Múlalandi 12 og 14 á Ísafirði, að snúa til síns heima aftur.

Fylgst verður áfram með aðstæðum á vettvangi.

Fulltrúar frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra verða með fræðslu fyrir nefndarmenn að kvöldi mánudags 10. nóvember n.k. og fund þriðjudaginn 11. nóvember n.k.

Fleira ekki gert, fundargerð undirrituð. Fundi slitið kl. 10:45

Halldór Halldórsson, formaður. Sigurður Mar Óskarsson.
Sigríður B. Guðjónsdóttir, sýslumaður. Júlíus Ólafsson.
Ólafur Sigmundsson. Þorbjörn J. Sveinsson.
Gísli Gunnlaugsson.

Hilmar Pálsson.

Örn Ingólfsson.