Almannavarnanefnd

Föstudaginn 31. október 2003 kl. 17:00 kom almannavarnanefnd saman í stjórnstöð almannavarna við Fjarðarstræti á Ísafirði.
Formaður setti fundinn og bauð velkominn á sinn fyrsta fund almannavarnanefndar Ólaf Sigmundsson, lækni, fulltrúa HSÍ.

Dagskrá:

1. Lagt fram bréf, dagsett 27. október 2003, frá Ólafi Þór Gunnarssyni, þar sem hann óskar heimildar til að dvelja í húseigninni "Grænigarður" við Seljalandsveg frá 1. nóvember til og með 3. nóvember 2003, en samkvæmt kaupsamningi er dvöl óheimil í húsinu frá 1. nóvember til 30. apríl.

Heimild til að nýta hús sem keypt voru vegna snjóflóðahættu, til sumardvalar, er byggð á bréfi umhverfisráðuneytis, dagsettu 6. júní 1997. Í bréfinu er ákvæði sem þinglýst er sem kvöð á viðkomandi hús. Þar er tekið fram að lögreglustjóri geti ákveðið frávik frá þeirri meginreglu að dvöl sé óheimil frá 1. nóvember til 30. apríl. Slíkt skal lögreglustjóri gera í samráði við almannavarnanefnd og Veðurstofu Íslands.
Umrædd kvöð er sett til að tryggja öryggi fólks. Þrátt fyrir nánast auða jörð geta á vetratíma skollið á hvaða veður sem er með litlum fyrirvara og snjóflóðahætta skapast. Viðkomandi hús var keypt af sveitarfélaginu með stuðningi Ofanflóðasjóðs til að tryggja öryggi viðkomandi íbúa. Með rýmkun á ákvæðum umhverfisráðuneytisins er áhætta í viðkomandi húsi aukin.

Þar af leiðandi telur almannavarnanefnd Ísafjarðarbæjar ekki efni til að rýmka dvalartíma frá því sem tilgreint er í kaupsamningi, þar sem slíkt eykur áhættu í húsinu, er keypt var sem liður í snjóflóðavörnum.
Almannavarnanefnd tekur fram að þessi afstaða gildir almennt um þau hús sem hafa verið keypt upp sem liður í snjóflóðavörnum.

Fleira ekki gert, fundargerði upplesin og undirrituð. Fundi slitið kl. 17:42

Halldór Halldórsson, formaður. Stefán Brynjólfsson, ritari.
Sigríður B. Guðjónsdóttir, sýslumaður. Snorri Hermannsson.
Ólafur Sigmundsson. Þorbjörn J. Sveinsson.
Gísli Gunnlaugsson.